Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:13:34 (1673)

1997-12-04 16:13:34# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:13]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli því alfarið að hæstv. fjmrh. sé með einhverja nísku eða þvergirðingshátt. Hann er settur yfir ríkissjóð og það er hans skylda að halda utan um hann og honum þykir vænt um ríkissjóð. Honum þykir hins vegar ekkert vænna um ríkissjóð heldur en mér þó að hann sé í þessu starfi. Undirstaðan þess að við getum hér rekið sæmilegt þjóðfélag á sæmilega traustum grunni og skaffað borgurunum í landinu brúkleg lífskjör er sú að ríkisfjármál séu í sæmilegu lagi. Ég tel að hæstv. fjmrh. sé í fullum rétti að reyna að sýna aðhald alveg hreint eins og við hinir ráðherrarnir reynum að gera.