Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:16:51 (1675)

1997-12-04 16:16:51# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:16]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er tekið til umræðu er mikilvægt hagsmunamál fólks á leigumarkaði og ég tek undir það að húsaleigubætur hafa sannarlega sannað gildi sitt hafi einhver haft efasemdir um þær á þeim tíma sem þær voru lögfestar. En það er óviðunandi, virðulegi forseti, að mál sem þetta skuli koma til 1. umr. 16 dögum fyrir jólahlé og að þetta skuli vera mál sem á að taka gildi 1. janúar næstkomandi. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð og erfitt að halda því fram að það sé vegna þess að þurft hafi að ná samkomulagi. Ég ætla að koma að því síðar. Það sem er mikilvægast við þetta frv. efnislega er að nú munu öll sveitarfélög greiða húsaleigubætur og ég fagna því. Það var sú framtíðarsýn sem maður hafði þegar húsaleigubætur voru lögfestar á sínum tíma og vitað að það yrði niðurstaðan þó því miður yrði að taka þessa millileið sem farin var.

Virðulegi forseti. Miðað við stöðuna í dag --- vegna þess að eitt er frv. og efnistök þess og annað er umhverfið, þ.e. viðhorf þeirra sem eiga að taka við verkefninu og fjármagna það --- verð ég að láta í ljós þá skoðun mína að mér finnst það bíræfni af félmrh. að koma inn með frv. núna og segja skýringuna á því að það komi svo seint fram vera þá að þurft hafi að semja við sveitarfélögin, vitandi að þau mál eru í uppnámi og að engin niðurstaða er komin í samninga við sveitarfélögin um yfirtöku þessa máls. Það eru búnar að vera, eins og félmrh. veit en ekki er víst að þingmönnum sé það ljóst, viðræður milli ráðherra og sveitarfélaganna um verkaskiptingu vegna þessa frv. Eftir því sem ég fæ upplýst þá eru allir sammála um það, allir fulltrúar sveitarfélaganna sem að þessu máli hafa komið, að taka ekki við þessu verkefni nema það sé frágengið hvaða verkefni ríkið tekur á móti, þ.e. hver skuli verða verkefni sveitarfélaganna og hver verkefni ríkisins til að rétta af þann kostnað sem hlýst af yfirtöku sveitarfélaganna.

Þar hefur verið rætt um að sveitarfélögin taki auk húsaleigubótanna kostnaðinn af fötluðum börnum á leikskólum, að ríkið taki alfarið alla vinnumiðlun, eins og þegar er búið að áforma en ekki búið að flytja allan kostnaðinn, að e.t.v. taki ríkið stofnkostnað framhaldsskólanna sem er 40% kostnaður sveitarfélaganna og e.t.v. 15% stofnkostnað sjúkrahúsanna og meiri háttar viðhald, e.t.v. verði þessi leið leiðrétt í tekjustofnunum með lækkun á þóknun vegna útsvarsins.

En það sem upp úr stendur er að 4. desember, þegar þetta mál er flutt inn í þingið, þá er ekki ljóst hvernig á að skiptast á verkefnum. Það er ekki ljóst hvað ríkið tekur á móti þessum verkefnum og þess vegna er mjög erfitt að standa hér fullur gagnrýni, vita að maður eigi að fá þetta verkefni, vinna það vel á fáeinum dögum fyrir jól og skila því af sér frá félmn. ásamt öðrum málum sem þar bíða. Og skýringin er að það sé af því að þurft hafi að semja við sveitarfélögin og engin niðurstaða er í málinu á þeim degi sem mælt er fyrir því. Þetta eru, virðulegi forseti, vinnubrögð sem eru ekki þolandi.

Það má velta því fyrir sér vegna hvers sveitarfélögin eru svo upptekin af því að það sé fullkomlega frágengið hvaða verkefni ríkið taki á móti úr því að þau eru búin að fallast á að taka verkefnið húsaleigubætur alfarið til sín. Og vegna hvers ætli það sé? Jú, við sem erum í miklum tengslum við sveitarfélögin vitum nákvæmlega hvers vegna það er. Þetta er tortryggni út í ríkisvaldið og líka hin beiska reynsla. Við getum nefnt grunnskólann. Ráðherranum er fullkunnugt um að sveitarfélögum finnst að þau hafi borið skarðan hlut frá borði við yfirtöku grunnskólans. Var þá ekki búið að reikna allt fullkomlega út af beggja hálfu um kostnað grunnskólans? Það er það sem ríkið hefur bent á og hamrað á þegar sveitarfélögin kvarta undan grunnskólanum. Jú, það var búið að reikna það út en það sem sveitarfélögin vissu ekki, en við í þessum þingsal áttum að gera okkur alveg ljóst, var að búið var að halda niðri ýmsum útgjöldum varðandi grunnskólann í langan tíma þegar hann var fluttur yfir. Um leið og sveitarfélögin voru búin að taka við honum þá kom þrýstingurinn auðvitað af fullum þunga, þrýstingurinn um að öll verkefni sem oft á tíðum hafa fallið undir ,,þrátt-fyrir``-ákvæðin hér í þessum sal við gerð fjárhagsáætlunar, um að þau yrðu virk, enda er það það sem gerist, þegar verkefni sem varða fjölskylduna koma til sveitarfélaganna og fólkið hefur sterkari aðgang að þeim sem eiga um að véla, að þá leitar fólk eftir, á réttlætisgrundvelli að staðið sé við löggjöf og það sem mikilvægt er fyrir fjölskyldurnar, þ.e. einsetinn skóli, viðvera barna í skólanum, allt sem snýr að stuðningskennslu o.s.frv. Þetta er reynslan af grunnskólanum.

Við skulum ekki heldur gleyma því þar sem búið er að ákveða að málaflokkur fatlaðra fari til sveitarfélaganna, að þá er það alveg ljóst að það er ákveðinn ótti við það vegna þess að ríkið hefur líka notað þessa sömu aðferð varðandi málaflokk fatlaðra. Þar hefur verið dregið úr. Þar er erfðafjárskatturinn ekki látinn renna óskiptur eins og lög kveða á um til framkvæmdasjóðs. Um það bil þriðjungurinn af erfðafjárskattinum er settur í framkvæmdasjóð. Það er gert til þess að ekki verði byggð of mörg sambýli eða annað sem framkvæmdasjóðurinn á að standa undir til að ríkið þurfi ekki að taka að sér of mikinn rekstur í augnablikinu. Og hver á þá að sjá um það þegar þetta er komið yfir til sveitarfélaganna, að ári? Sveitarfélögin. En þá verður væntanlega reiknað út hver kostnaður ríkisins er af þessum málaflokki og deilt niður á sveitarfélögin, miðað við þunga, og sagt: ,,Þetta eru væntanlega tekjurnar sem þið þurfið.`` Þetta er staðreynd sem við hér í þessum sal eigum að vera meðvituð um og skilja vegna hvers þessi tortryggni er.

Annað sem mig langar að nefna um yfirtöku sveitarfélaganna núna og kostnaðinn sem þau munu bera er tilvitnun í þá bókun sem fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögðu til varðandi málið í þeirri skýrslu sem lögð var fram um húsaleigubæturnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Nú er vitað að ekki er um íbúðaleigumarkað að ræða í öllum sveitarfélögum. Af þeim sökum virðist ekki eðlilegt að deila út því fjármagni sem tekjutilflutningurinn frá ríki til allra sveitarfélaga gæfi, t.d. samkvæmt höfðatölu, óháð leigumarkaði og fjölda rétthafa bóta í hverju sveitarfélagi. Ef Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mundi áfram sinna lítið breyttu útdeilingarhlutverki vegna húsaleigubóta eftir breytingar er við því að búast að þær fjárhæðir sem kæmu frá ríkinu mundu deilast út á annan hátt en nú með tilliti til heildarupphæða, þar sem fjöldi bótaþega í sveitarfélögunum mun breytast mikið við það að allar leiguíbúðir verða gjaldgengar hvað varðar húsaleigubætur. Þannig er fyrirséð að núverandi 57% nettóhlutur ríkisins sem er sá sami til allra sveitarfélaga í dag miðað við útgreiddar bætur, muni breytast verulega milli sveitarfélaga.``

Þannig er það líka, virðulegi forseti, í sambandi við verkefnatilflutning að þegar litið er t.d. á að ríkið taki að sér stofnkostnað framhaldsskólans þá léttir það ekki neinu af litlu sveitarfélögunum þar sem enginn framhaldsskóli er. Og ef ríkið ætlar að taka stofnkostnað sjúkrahúsanna og meiri háttar viðhald þá léttir það ekki útgjöldum af litlum sveitarfélögum þar sem ekki eru sjúkrahús. Þarna stendur væntanlega hnífurinn í kúnni varðandi þennan verkefnasamning ríkis og sveitarfélaga. Og þar þarf að skoða hvernig hægt er að koma til móts við öll sveitarfélög þannig að ákvæðið um húsaleigubætur, þar sem á annað borð er leiguíbúð að finna og einhver leigumarkaður, verði virkt í öllum sveitarfélögum landsins.

Hvað gerist svo þegar sveitarfélögin yfirtaka þetta að fullu? Hingað til hafa sveitarfélögin rekið félagslegt leiguhúsnæði og niðurgreitt leiguna úr sínum eigin sjóðum eftir ákveðnu kerfi sem ekki er endilega líkt frá einu sveitarfélagi til annars. Nú munu þessar húsaleigubætur verða virkar gagnvart öllu húsnæði, hvort heldur er á almennum leigumarkaði eða í félagslega kerfinu. Það þýðir að í flestum sveitarfélögum landsins verður húsaleiga nú uppfærð. Það er mikil kerfisbreyting innan sveitarfélaganna sjálfra. Það er ákvörðun sem Reykjavíkurborg hefur þegar tekið fyrir nokkru síðan og það er ákvörðun sem mjög líklega verður tekin í öðrum sveitarfélögum sem reka eitthvert leiguhúsnæði að umfangi.

Í 4. gr. frv. er heimildarákvæði þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal taka ákvörðun fyrir 1. nóvember ár hvert um fjárhæðir húsaleigubóta á næsta ári sem geta verið hærri en grunnfjárhæðir, sbr. 3. mgr.``

Þetta er m.a. hugsað til þess að sveitarfélögin geti ráðið því hvort þau vilji vera með hærri húsaleigubætur en lagaákvæðin hér gefa fyrirmæli um.

Það vekur okkur líka til umhugsunar að frv. felur í sér mjög miklar skyldur og fyrirmæli til sveitarfélaganna. Það má velta því upp hvort þar séu of mikil fyrirmæli til sveitarfélaganna miðað við að ríkið er ekki að bera neinn kostnað lengur. Það var ekki óeðlilegt meðan ríkið bar 60% af kostnaði, en spyrja má hvort hér sé um of mikla fjarstýringu að ræða vegna þess að þarna er t.d. verið að heimila sveitarfélögunum að greiða meira. Og af hverju þurfa sveitarfélögin e.t.v. að greiða meira? Jú, það er vegna þess að annars mun húsaleigan hækka mjög mikið á því fólki sem er í félagslega húsnæðiskerfinu. Sumt af því fólki hefur verulega lágar tekjur og ef það fengi aðeins húsaleigubæturnar og ef það gerist sem þeir sem vinna með þessi mál hafa reiknað út, þ.e. að húsaleigubæturnar geti lyft lágtekjufólki upp fyrir skattleysismörkin og geri það að verkum að fólkið fær skatt á heildarupphæðina, þá verður lítið úr bótunum.

[16:30]

Þess vegna geta sveitarfélög með virðingu fyrir sjálfum sér og með félagslega hugsjón að leiðarljósi ekki leyft sér það að taka frv. eða lögin um húsaleigubætur, færa félagslegu húsaleiguna að markaðsverði og láta niðurgreiðslu húsaleigubótanna nægja. Svo einfalt er það mál. En það vekur okkur til umhugsunar um að það góða mál að hafa húsaleigubætur í öllum sveitarfélögum samfara því að húsaleigubætur nái til félagslegs húsnæðis kynni í einhverju sveitarfélagi að snúast upp í andhverfu sína og skapa þunga hjá lágtekjuheimilum í félagslegu leiguhúsnæði. Þessu finnst mér að við verðum að afstýra svo sem unnt er þótt ég geri mér grein fyrir því eins og ég hef áður sagt að það sé ekki verkefni Alþingis að segja sveitarfélögum alfarið fyrir. Um það hef ég margoft fjallað að þau eigi að hafa ákveðið sjálfræði. En þetta er hlutur sem er full ástæða til að hafa áhyggjur af.

Annað sem ég vil koma inn á og ráðherra nefndi sjálfur í framsögu sinni er þetta sem ég hef þegar drepið á, skattlagning húsaleigubótanna og reyndar framfærslunnar. Þetta tvennt eru atriði sem eru mjög gagnrýnd af sveitarfélögunum og voru sérstaklega nefnd á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna að væru óþurftarskattlagning, skattlagning húsaleigubóta og framfærslunnar. Með þetta er mikil óánægja. Ég hef þegar getið þess hvernig þetta getur virkað fyrir láglaunafjölskyldurnar sem lyftast upp yfir skattleysismörkin og líka er ástæða til þess að koma inn á athugasemd sem hefur verið hreyft af og til varðandi það að sveitarfélögin eru þá í raun að greiða í sambandi framfærsluna. Ef þau þurfa að greiða niður félagslega húsnæðið áfram og skattlagninguna sem kemur á húsaleigubæturnar hjá lágtekjufólki, þá hefur það verið nefnt að sveitarfélög fái það til baka vegna þess að lágtekjufólkið borgi yfirleitt ekki skatt en lágtekjufólkið borgi útsvar sem ríkið inni af hendi.

Þá er fróðlegt að grípa niður í upplýsingar frá Reykjavíkurborg sem Þjóðhagsstofnun hefur sett fram í greinargerð um hverjir borga skattinn af þeim sem hafa fengið húsaleigubætur. Þar kemur fram að af tæplega 30 millj kr. sem fara í bætur á mánuði fær borgin til baka 2,6 millj. kr. í útsvarstekjur en í sinn hlut fær ríkissjóður hins vegar rúmlega 5,5 millj. á mánuði. Þetta er merkilegt þegar litið er til þess að af 2.923 bótaþegum voru aðeins 283 með árstekjur um eða yfir 1,5 millj. sem byrja að skerða húsaleigubæturnar. Þetta segir okkur svolítið um þá leikfléttu sem fer í gang þegar við erum að koma með góða félagslega aðgerð eins og húsaleigubæturnar og þær mæta kannski skattleysistekjum og verið er að hækka á móti það sem áður var niðurgreitt. Þetta finnst mér ástæða til að við á Alþingi gerum okkur grein fyrir og félmn., sem mun fjalla um þetta frv. á allt of skömmum tíma, því að þó sum okkar þekki það og þó að innihald frv. sé mjög líkt að gerð og þau lög sem voru samþykkt á sínum tíma, er það svo að þegar verið er að gera svona kerfisbreytingu sem hittir annan þátt fyrir, sem er félagslega húsnæðiskerfið í stóru kaupstöðunum, þá verðum við að vanda mjög vel til verka.

Ég sagði áðan að húsaleigubæturnar hefðu sannað gildi sitt og það hefur komið hér fram. Ég fagna því að þetta frv. skuli leggja öllum sveitarfélögum þær skyldur á herðar að greiða húsaleigubætur. Mér hefur fundist það smánarblettur á sveitarfélagi mínu sem hafði stuðning við fjölskyldurnar í bænum og félagslega sýn að leiðarljósi um árabil að það hafi ekki verið greiddar húsaleigubætur og ég fagna því að það skuli nú gert en finnst nokkur skömm að því fyrir bæjarfélagið að það skuli þurfa að koma skipun að ofan.

Ég sagði í upphafi máls míns, virðulegi forseti, að það að öll sveitarfélög mundu greiða húsaleigubætur í fyllingu tímans hefði verið sú framtíðarsýn sem ég hafði þegar lögfestar voru húsaleigubætur og þegar það varð niðurstaðan að húsaleigubætur eins og húsnæðismálin væru til umfjöllunar heima í héraði. Það er sannfæring mín að þau eigi heima hjá sveitarfélögunum. Þetta er eitt af þeim nærverkefnum sem ég tel að þekkingin heima fyrir hafi mjög mikið að segja um og þess vegna held ég að þrátt fyrir að menn hafi haft efasemdir um það að þetta færi til sveitarfélaganna séu flestir komnir á þá skoðun. Ég harma að Steingrímur J. Sigfússon, sem talaði á undan mér, skuli ekki vera þeirrar skoðunar vegna þess að það er að mínu mati besta gjörðin að sem flest nærverkefni fjölskyldunnar verði hjá sveitarfélögunum. Af því að ég lét í ljós áhyggjur, virðulegi forseti, yfir því hvað mundi gerast hjá stóru sveitarfélögunum hlýt ég að geta þess af því að Reykjavík er kannski stærsti aðilinn varðandi félagslegt leiguhúsnæði að þar hefur borgarstjóri tilkynnt með bréfi til leigutaka í sambandi við þessar breytingar að við það sé miðað að öllum sem þurfa á félagslegri húsnæðisaðstoð að halda verði bætt sú hækkun sem verða kann á leigunni við kerfisbreytingu og ég fagna því.