Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 16:56:51 (1677)

1997-12-04 16:56:51# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[16:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í greinargerð þessa frv. hefur núverandi fyrirkomulag húsaleigubóta reynst vel sem mikilvægt úrræði fyrir tekjulága leigjendur til að standa undir kostnaði við leiguhúsnæði og hefur framkvæmd gildandi laga tekist vel, einnig af hálfu sveitarfélaganna. Það er ástæða til að nefna þetta hér við 1. umr. þessa máls en helstu rök sveitarfélaganna þegar frv. var til umræðu 1993 og 1994 voru að framkvæmdin yrði erfið og flókin. Á þeim tíma gerði Sjálfstfl. einnig sitt til að bregða fæti fyrir lögfestingu frv. um húsaleigubætur. Þessi afstaða sveitarfélanna og Sjálfstfl. leiddi til þess að ekki var hægt að ná frv. fram á þeim tíma nema því fylgdi sá stóri galli að það væri á valdi hvers og eins sveitarfélags að það greiddi húsaleigubætur. Framkvæmdin sem hefur gengið vel og snurðulaust fyrir sig sýnir að rökin sem þá var teflt fram voru á sandi byggð og því ber að fagna að frv. skuli komið fram sem sníðir af þann stóra galla sem verið hefur á lögunum.

Hinn gallinn á framkvæmd húsaleigubóta hefur verið sá að húsaleigubætur eru skattskyldar. Sjálfstfl. með fjmrh. í broddi fylkingar kom í veg fyrir að þær yrðu skattlausar líkt og vaxtabætur en þess í stað náðist samkomulag um að húsaleigubætur yrðu hækkaðar frá því sem ákveðið hafði verið um þá upphæð sem bótaþegar mundu greiða í skatt. Því fylgdi sá kostur að þeir sem voru undir skattleysismörkum greiddu þar af leiðandi engan skatt og voru betur settir eftir en áður.

Eins og frv. liggur fyrir nú hefur hæstv. félmrh. þrátt fyrir góðan vilja ekki náð því fram að húsaleigubætur væru lausar við skatta. Ég geri ráð fyrir að með sama hætti og 1994 sé þar við Sjálfstfl. og einkum fjmrh. að sakast. Ég vil fullvissa hæstv. félmrh. um að hann hefur örugglega stuðning allrar stjórnarandstöðunnar og mikils meiri hluta Alþingis um að húsaleigubætur verði án skatta.

Þegar ég var að glíma við þetta mál á sínum tíma, mat ég það meira að ná lagasetningunni fram sem fyrsta skrefi frekar en láta málið liggja. Nú verður ekki undan því vikist að knýja fram það að húsaleigubætur verði ekki skattlagðar. Fyrir því eru enn ríkari rök nú en 1994 að um það náist samstaða sem ég mun nú skýra frekar.

Ég heyri það að hæstv. ráðherra telur að samkomulag sé í augsýn um að húsaleigubætur verði skattaðar áfram en að upphæðinni sem skilað er inn til skattsins verði skilað aftur til sveitarfélaganna. Ég tel það óviðunandi niðurstöðu og alls óvíst að þær upphæðir skili sér aftur til leigjendanna eins og ég hygg að sé þá ætlunin.

[17:00]

Ég tel fulla ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af annarri meginbreytingu frv. frá gildandi lögum og það er sá þáttur að frv. gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu frá gildandi fyrirkomulagi að húsaleigubætur komi í stað niðurgreiðslna á leiguíbúðum sveitarfélaga. Það hefur vissulega sína kosti, m.a. þann að þá yrði komið á samræmdu húsaleigubótakerfi fyrir allan leigumarkaðinn hvort sem um væri að ræða félagslegar leiguíbúðir eða íbúðir á almenna markaðnum. En þessi breyting, eins og mér sýnist að eigi að framkvæma hana, getur þýtt að leiga hjá stórum hópi þeirra sem nú búa í leiguíbúðum sveitarfélaga getur hækkað um allt að 16 þús. kr. eftir greiðslu húsaleigubóta sem ekki verður bætt nema sveitarfélögin hvert fyrir sig taki ákvörðun um að bæta það sérstaklega. Hugsanlega verður þessi viðbótarkostnaður í leigu umfram húsaleigubætur bættur hjá sumum sveitarfélögunum en ekki öðrum. Allt er í óvissu um það hvort framkvæmdir verða þannig að verulega sé verið að þyngja húsnæðiskostnað hjá fjölda láglaunaheimila í landinu. Við erum þar að tala um heimili sem eru með undir 1 millj. kr. til framfærslu á ári eða kannski um 80 þús. kr. á mánuði. Málið er því í fullkominni óvissu á þessari stundu. Í fyrsta lagi af því að ekki hefur verið samið um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga vegna þessara breytinga og í annan stað vegna óvissunnar um hvort húsaleigubætur verði skattlagðar áfram. Verði hins vegar ákveðið að skattleggja ekki húsaleigubætur þá hækkar húsnæðiskostnaður fjölda þeirra sem nú eru í leiguíbúðum sveitarfélaga engu að síður verulega frá því sem nú er eða á bilinu frá 4--10 þús. kr. á mánuði nema, enn og aftur, hvert og eitt sveitarfélag fyrir sig ákveði að bæta það sérstaklega umfram upphæð lögfestra húsaleigubóta sem ákveðin verði með reglugerð af ráðherra. Þetta eru stórir annmarkar á annars mjög góðu frv. sem ég hlýt að vekja athygli á og vil ég skýra þetta nánar.

Í áfangaskýrslu starfshóps um framtíð húsaleigubóta frá apríl 1997 kemur fram að gera megi ráð fyrir því að heildarniðurgreiðslur Reykjavíkurborgar vegna allra leiguíbúða getur numið allt að 240 millj. kr. á ári. Það mat er sett fram af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga að kostnaður við leiguíbúðir á öllu landinu umfram leigutekjur sé um 446 millj. kr. Þannig greiða sveitarfélögin niður leiguna í sínum leiguíbúðum um 446 millj. kr. Niðurgreiðslunni á nú að hætta, hækka leiguverð upp í raunkostnað en greiða húsaleigubætur í staðinn. Og ég vil vísa til bls. 13 í greinargerðinni en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef gengið er út frá því að fjórðungur þeirra sem nú búa í félagslegum leiguíbúðum sé með of háar tekjur til að þeir eigi rétt á húsaleigubótum er eðlilegt að miða við að viðbótarkostnaður við að fella allar félagslegar leiguíbúðir undir lög um húsleigubætur verði um 300 millj. kr. á ári en þá er miðað við að bæturnar séu undanþegnar skatti.``

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Með öðrum orðum er reiknað með að fjórðungur þeirra sem nú búa í félagslegum leiguíbúðum falli ekki undir lög um húsaleigubætur eða að um 1.100 manns þurfi nú að greiða raunkostnað í leigu. Og hvað þýðir það? Algeng leiga í tveggja herbergja leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg er nú um 12--14 þús. kr. Raunkostnaður vegna þessarar leiguíbúðar er 26--32 þús. kr. á mánuði. Útgjöld þessa fólks vegna leigukostnaðar mundi ríflega tvöfaldast. Hér er væntanlega verið að tala um hópinn sem hefur tekjur eitthvað umfram viðmiðunarmörk húsaleigubóta sem er frá 1,2 millj. kr. í 2,4 millj. kr. Engu að síður getur verið að ræða í mörgum tilvikum um hóp sem er verulega skuldsettur og á í miklum fjárhagserfiðleikum sem nú þarf að taka á sig helmingi hærri húsaleigu, ég vek athygli á því, helmingi hærri húsaleigu, eða allt að um 15 þús. kr. á mánuði. Vel getur því verið að þessi hópur, kannski nálægt 1.100 manns, sé jafnilla settur og þeir sem fá húsaleigubætur en í stefnir að þurfi nú að taka á sig tvöfalt hærri leigugreiðslur en þeir nú bera. Sumir mundu kannski segja: ,,Þetta eru einhverjir einstaklingar sem eru búnir að vera lengi inni í félagslega kerfinu, eru í góðum efnum og það þarf ekkert að greiða niður húsaleiguna hjá þeim.`` En það er ekki hægt að alhæfa slíkt yfir allan hópinn vegna þess að þetta getur verið að stórum hluta til einstaklingar eða fjölskyldur sem rétt skríða yfir tilskilin tekjumörk og af því að þeir gera það er niðurgreiðslunni á íbúðunum hjá þeim hætt, þeir fá engar húsaleigubætur og það þýðir, virðulegi forseti, að leigan hjá þeim verður tvöfölduð.

Ef nú er stefnt með þessu frv. að hætta niðurgreiðslum á leiguíbúðum og færa leiguna upp í raunkostnað en greiða þess í stað húsaleigubætur, hvað þýðir það þá? Það mat er sett fram í skýrslu sem kom fram á vordögum að til þess að ná raunkostnaði við leiguíbúðir hjá Reykjavíkurborg þurfi húsaleiga að hækka um 78--91%. Auk þess sem fjórðungur leigutaka fellur hugsanlega út og fær hvorki niðurgreiðslu á húsaleigu né húsaleigubætur nema sveitarfélögin sjálf taki ákvörðun um annað, þá sýnist mér á dæmum sem ég hef undir höndum að í mörgum tilvikum verði einnig um að ræða að húsaleigubætur hjá þeim sem á annað borð eiga rétt á þeim, nái ekki að mæta að fullu niðurgreiðslu á leiguíbúðum sem nú verður hætt. Ég get tekið dæmi.

Einstætt foreldri með 780 þús. kr. árstekjur sem greiðir nú tæpar 15 þús. kr. í leigu vegna tveggja herbergja íbúðar, mun standa uppi með 9.700 meiri útgjöld á mánuði vegna leigu þrátt fyrir húsaleigubætur ef þær verða skattlagðar og aukin útgjöld upp á 4.400 kr. á mánuði ef þær verða ekki skattlagðar. Allt er það síðan háð ákvörðun hvers og eins sveitarfélags fyrir sig, þ.e. hvort það tekur ákvörðun um að þeir hópar sem nú fá niðurgreidda húsaleigu og eru innan viðmiðunarmarka verða jafnsettir á eftir.

Ég get tekið annað sláandi dæmi. Það er af mörgu að taka í þessu sem ég er hér með. Hér er einstaklingur sem er með árstekjur 990 þús. kr. rúmar. Hann greiðir núna í leigu 11.197 kr. Leigan á þessari íbúð verður nú færð upp í raunkostnað og verður þá 32.283 kr. Eftir að hann hefur fengið húsaleigubætur greiddar, stendur hann uppi með 16 þús. kr. mun frá því sem nú er --- þó hann fái húsaleigubætur greiddar sem mér skilst að eigi að vera þær sömu á næsta ári og nú. Ef þær eru ekki skattlagðar, þá mun hann standa uppi með 12.600 kr. mun engu að síður, 12.600 kr. mun, hærri leigu sem hann þarf að greiða nema að sveitarfélögin, og það er alls óvíst, taki ákvörðun um að bæta honum upp þennan sérstaka mismun og það liggur ekkert fyrir um það. Vera má að Reykjavíkurborg geri það. En mun Akureyri gera það? Hvernig verður framkvæmdin á þessu?

Herra forseti. Við erum að fjalla hér um afkomu tekjulægstu hópanna í þjóðfélaginu, því að hverjir eru það sem hafa fengið húsaleigubætur? Nálega 60% þeirra sem nú fá húsaleigubætur eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar og námsmenn. Og það er ekki boðlegt að skilja framkvæmdina eftir í óvissu eftir að lögin hafa verið samþykkt e.t.v. með þeim afleiðingum fyrir afkomu fjölda láglaunaheimila í landinu sem ég hef hér lýst, bæði að fjórðungur þeirra sem nú er í niðurgreiðsluhúsnæði dettur hreinlega út, fái ekki niðurgreitt húsnæði, fái ekki húsaleigubætur og þeir sem á annað borð fá húsaleigubætur gætu staðið eftir með aukin útgjöld, aukinn mun, og alls óvíst er hvort sveitarfélög bæti þeim það umfram það sem húsaleigubæturnar eiga að gera.

Herra forseti. Ég hvet til að þessi þáttur málsins verði skoðaður sérstaklega í félmn. Ég fæ ekki séð að það gangi að skerða rauntekjur fjölda láglaunaheimila í landinu um 10--20 þús. kr. á mánuði sem er margföld sú fjárhæð sem fólk fékk í kjarabætur í nýliðnum kjarasamningum. Ég tek fram að með þessum orðum er ég ekki að gagnrýna félmrh. sérstaklega heldur einungis að vekja athygli á því að í framkvæmd gætu þessi lög þýtt verulega tekjuskerðingu hjá fjölda láglaunaheimila í landinu sem stjórvöldum, sveitarfélögum og Alþingi, ber skylda til að koma í veg fyrir áður en frv. verður afgreitt. Lausnin á því máli hlýtur að vera sú að leysa þetta í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga þannig að hægt sé að greiða hærri húsaleigubætur en nú er gert og með skattfrelsi húsaleigubóta. En hver verður niðurstaða þess máls? Við vitum það hreinlega ekki vegna þess að það er nú skilið eftir í óvissu og uppnámi hvernig fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga verður háttað eftir þessa breytingu og hvernig sveitarfélögum verður bætt þetta.

Það hefur komið fram hjá fulltrúum sveitarfélaga að þeir telja á því verulegan mun hvort þetta verði bætt með beinum tekjutilfærslum yfir til sveitarfélaga eða hvort um verkefnatilflutning verði að ræða vegna yfirtöku sveitarfélaga á húsaleigubótakerfinu vegna þess að það getur verið erfitt að finna verkefni sem mun koma jafnt niður á sveitarfélögunum.

Ég vil minna á að þegar lögin um húsaleigubætur tóku gildi var gert ráð fyrir því að hlutur ríkisins í húsaleigubótum væri 400 millj. kr. en samkvæmt frv. og áliti fjmrn. sem fylgir með því er einungis gert ráð fyrir að hlutur ríkisins við þessa breytingu á lögunum verði um 200 millj. En þegar við lögðum upp með húsaleigubæturnar, þá átti ríkið að leggja fram 400 millj. kr. á ári. Nú er þetta komið niður í 200 millj. Samt erum við að víkka út húsaleigubótakerfið og taka inn í húsaleigubótakerfið félagslegar leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Það kostaði ekki svo lítið á sínum tíma að fá fjmrn. til að samþykkja að framlag ríkisins skyldi vera 400 millj. kr. á ári sem að vísu kostaði nokkra fækkun á félagslegum íbúðum, en samið var um tímabundna fækkun á þeim niður í 400 íbúðir árlega. En hver er staðan nú?

Í yfirliti frá fjmrn. með frv. er gert ráð fyrir að fastsetja framlagið í 200 millj. kr. og félagslegu íbúðirnar eru komnar niður í 170 á ári. Þessi skerðing á framlögum ríkisins til húsaleigubóta og fækkun á félagslegum eignaríbúðum um meira en helming gengur auðvitað ekki á sama tíma og verið er að útvíkka verulega húsaleigubæturnar og fella undir kerfið allar leiguíbúðir sveitarfélaga. Mér kæmi ekki á óvart þó sveitarfélögin muni mótmæla þessu harkalega og það gangi erfiðleika að semja við sveitarfélögin um niðurstöðu eins og ríkið er að bjóða þeim upp á vegna þess að auðvitað mun þetta bitna á þeim sem leigja íbúðir, auðvitað mun það gera það. Þeir gætu staðið uppi með það að þurfa að greiða helmingi hærri leigu en þeir gera nú.

Ég hlýt líka að vekja athygli á því, eins og reyndar kemur fram í áliti fjmrn. með frv., að með því að færa leiguverð félagslegra íbúða upp í raunkostnað og auka skatttekjur ríkis og sveitarfélaga sem þá kemur til viðbótar þeirri skerðingu sem ég áðan nefndi aukast skatttekjur ríkisins um allt að 40 millj. kr. og útsvar til sveitarfélaganna um 25--30 millj. kr. Og vegna hvers? Vegna þess að láglaunafólk sem áður fékk mikið niðurgreidda íbúð en engar húsaleigubætur fær nú enga niðurgreiðslu en húsaleigubætur í staðinn sem það fer nú að greiða skatta af, nema það takist að breyta þeirri ákvörðun að greiða þurfi skatta af húsaleigubótunum. Ofan á þá skerðingu sem ég nefndi hér áðan þarf því það fólk sem hefur verið í leiguíbúðum sveitarfélaga og hefur fengið hana niðurgreidda, nú að þiggja húsaleigubætur í staðinn sem það þarf að greiða skatta af. Og það er einmitt þess vegna, eins og ég lýsti í upphafi míns máls, að það er brýnt að afgreiða samhliða þessu frv. ákvæði um skattfrelsi húsaleigubóta enda engin sanngirni í því að þeir sem eiga íbúðir fái skattfrjálsar 3.300 millj. í vaxtabætur en af 200--300 millj. kr. húsaleigubótum sem þeir verst settu í þjóðfélaginu fá, þurfi að greiða skatt. Maður spyr hvort jafnræðisregla skattalaga sé ekki brotin með þessu.

Ég vildi gjarnan, herra forseti, fá fram álit félmrh. á hugsanlegri framkvæmd þessara laga sem ég hef hér lýst við það að færa leiguverð félagslegra íbúða upp í raunkostnað og spyr hvort hann deili með mér áhyggjum af því að hætta sé á tekjuskerðingu fjölda heimila við þessa breytingu nema til komi viðbótarframlag af hálfu ríkisins eða sveitarfélaga til að hækka verulega greiðslu húsaleigubóta umfram það sem verið hefur til að mæta því að hætt verði niðurgreiðslu á leiguíbúðum sveitarfélaga.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort við þessa breytingu verði hætt að taka tillit til húsaleigukostnaðar í tryggingakerfinu eins og nú er gert í sérstakri uppbót á tryggingabætur. Verulega stór hópur elli- og örorkulífeyrisþega fær sérstaka uppbót á sinn lífeyri m.a. vegna húsaleigukostnaðar. Mun ríkisvaldið líta svo á að fella eigi þennan þátt út úr tryggingakerfinu þegar sveitarfélögin taka alfarið yfir húsaleigubæturnar? Ef svo er þá mun málið líta enn verr út fyrir elli- og örorkulífeyrisþega en ég hef áður lýst.

[17:15]

Ég vil spyrja um það sem kemur fram í 8. gr. frv. Í núgildandi lögum er talað um að tryggingabætur eigi ekki að hafa áhrif í þá veru að skerða húsaleigubætur en nú er þetta skýrt þannig að átt sé við bætur almannatrygginga. Samkvæmt samkomulagi því sem gert var 1994 átti hvorki að skerða rétt bótaþega Tryggingastofnunar til greiðslna né heldur barnabætur samkvæmt ákvæðum skattalaga. Ég spyr einkum um barnabæturnar. Þýðir þessi breyting að fellt hefur verið út orðið tryggingabætur en tekið upp orðið viðmiðun við bætur almannatrygginga að verið sé að fella niður að barnabætur hafi ekki áhrif á húsaleigubætur?

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort bein afleiðing þess að fækka lánum til félagslegra eignaríbúða hljóti ekki að vera að fjölga þurfi verulega leiguíbúðum og ef svo er verður tekið tillit til þeirrar aukningar í því fjárhagslega uppgjöri sem nú fer fram milli ríkis og sveitarfélaga vegna breytinga á húsaleigubótakerfinu þegar það flyst alfarið til sveitarfélaganna? Fækkun á félagslegum eignaríbúðum hlýtur að kalla á að fjölga þurfi stórlega leiguíbúðum sem þýðir meiri útgjöld vegna húsaleigubóta og verður tekið til þess í fjárhagslegu uppgjöri ríkis og sveitarfélaga. Nefna má einnig að þeir fólksflutningar sem eiga sér stað frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hljóta að kalla á fjölgun félagslegra íbúða, bæði leigu- og eignaríbúða. Hefur eitthvað verið hugað að þessum þætti nú við meðferð þessa máls?

Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frv. og (Forseti hringir.) þann áfanga sem nú virðist vera í augsýn, að sveitarfélögin öll fari að greiða húsaleigubætur, þá vænti ég þess að hann hafi skilning á því að skoða þurfi vel, í meðförum þingsins, alla framkvæmd málsins og að hann leggi sitt af mörkum til að fjöldi heimila í landinu verði ekki verr settur eftir þessa lagasetningu en fyrir hana. Um það hljótum við að vera sammála.