Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 17:20:00 (1681)

1997-12-04 17:20:00# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[17:20]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að hægt sé að túlka það af máli hv. þm. að honum finnist bara hreinlega ekkert að þó að fjórðungur fólks, 1.100 manns, sem hefur fengið niðurgreidda leigu í félagslega kerfinu, detti út sisona og að leigan hjá þessu fólki fari að tvöfaldast, (PHB: Hátekjufólk.) kannski úr 12--15 þús. kr. upp í 30--32 þús. kr. ,,Hátekjufólk``, segir hv. þm. Hvernig getur hv. þm. fullyrt það að hér sé um hátekjufólk að ræða? Hér getur verið um að ræða fólk, fjölskyldur, barnmargar fjölskyldur, sem rétt skríður yfir þessi tekjumörk sem eru gagnvart húsaleigubótum og þeim sem fá íbúðir hjá borginni. Á virkilega með einu pennastriki að ýta þessum hóp í burtu og taka af fólkinu niðurgreiðsluna sem það hefur fengið með lágri leigu hjá sveitarfélögunum og láta það standa úti í kuldanum og að það fái engar húsaleigubætur. Um hvorki meira né minna en 15--20 þús. kr. skerðingu gæti verið að ræða hjá þessu fólki sem gæti verið fjórðungur af launum þess. Og ég er hrædd um að það heyrðist eitthvað í hv. þm. ef allt í einu yrði kippt upp úr vasa hans fjórðungi af þeim tekjum sem hann hefur.