Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 17:21:35 (1682)

1997-12-04 17:21:35# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[17:21]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Styrkur hins opinbera til öflunar húsnæðis er í mjög mörgu og mismunandi formi. Það kemur eiginlega best fram í töflu á síðu 9 í frv., töflu B, sem sýnir okkur að einhverju leyti þann styrk sem veittur er. Hann er í fyrsta lagi í formi húsaleigubóta, svo eru það vaxtabæturnar, svo er það kostnaður vegna leiguíbúða í eigu hins opinbera og svo er það niðurgreiðsla lána í Byggingarsjóði verkamanna. Hér vantar inn í ábyrgðir vegna húsbréfakerfisins sem ríkissjóður veitir, ríkisábyrgð á öllum pakka húsbréfanna og það vantar líka inn í Byggingarsjóð ríkisins. Þannig að þetta er ekki allur pakkinn sem hið opinbera styrkir við öflun húsnæðis.

Þessir styrkir eru í mjög mörgu og mismunandi formi. Það eru í fyrsta lagi vaxtabætur sem eru háðar því að menn skuldi og borgi vexti. Svo eru það leigubætur sem eru háðar því að menn leigi, vaxtaniðurgreiðsla í félagslega kerfinu sem ekki nokkur leið er að henda reiður á og svo er það ríkisábyrgðin í húsbréfakerfinu. Ákaflega erfitt er að henda reiður á öllum þessum bótum. Það er ekki hægt að segja að þessi maður fái 10 þús. kall á mánuði, 20 þús., 50 þús. eða 100 þús. kall á mánuði. Það er mjög erfitt. (KHG: Það er ríkisábyrgð í bankakerfinu líka. Gleymdu því ekki.) Já, já.

Herra forseti. Afleiðingin af þessu er: Í fyrsta lagi skuldsetning heimila. Vaxtabótakerfið gerir ráð fyrir að menn skuldi. Þeir fá ekki vaxtabætur öðruvísi. Vaxtabæturnar miðast við 7% af því sem þeir skulda þannig að eftir því sem þeir skulda meira þeim mun meiri vaxtabætur geta þeir fengið. Og það eru meira að segja dæmi um það að hátekjufólk geti fengið vaxtabætur, fólk með mjög háar tekjur. Ég kem með dæmi um það á eftir. Auk þess skekkir þetta vexti. Það skiptir ekki máli fyrir fólk á vissu tekjubili og eignabili hvort það borgar 7% vexti eða 5% vexti. Það skiptir bara ekki máli. Ríkið borgar vextina í rauninni í gegnum vaxtabæturnar.

Önnur afleiðing er hækkun á verði félagslegra íbúða. Þar sem lán til félagslegra íbúða bera 1% vexti stundum þá skiptir minna máli hvað þær kosta. Þetta hefur valdið því að menn hafa bruðlað óhóflega í byggingu félagslegra íbúða. (KÁ: Bara sums staðar.) Bara sums staðar, já. En þær hafa sums staðar orðið mjög dýrar vegna þess að niðurgreiðsla vaxta veldur því að það skiptir ekki máli hvað þær kosta.

Afleiðingin af húsaleigubótakerfinu er dálítið merkileg, það er hækkun leigu. Alls staðar þar sem það hefur verið tekið upp erlendis hefur sýnt sig að leigan hefur hækkað. Ég ætla að nefna dæmi. Segjum að hv. þm. væru nú orðnir lágtekjufólk, fallnir af þingi, og stæðu til boða íbúðir í Fossvoginum, annars vegar Kópavogsmegin og hins vegar Reykjavíkurmegin. Íbúðin í Kópavoginum kostar 35 þús. kr. Þær eru nákvæmlega eins. Þær liggja nákvæmlega eins við félagslegri þjónustu. Það er nákvæmlega jafnlangt á vinnustað. Þetta eru algjörlega sambærilegar íbúðir, jafnstórar. Önnur kostar 35 þús. kr., sú í Kópavoginum, og hin kostar 50 þús. kr., sú í Reykjavík, en þar koma húsaleigubætur upp á 20 þús. kall. Hvora mundu hv. þm. velja? Að sjálfsögðu íbúðina í Reykjavík sem kostar 50 þús. kall af því hún kostar í reynd ekki nema 35 þús. kr. Hver skyldi nú fá húsaleigubæturnar? Að sjálfsögðu húseigandinn, sem leigir íbúðina á 50 þús. kall í staðinn fyrir að hann fær ekki nema 30 þús. kr. af íbúðinni hinum megin við mörkin. Þannig að það er hægt að færa rök fyrir því að húsaleigubætur hækki leigu og renni í vasa húseigenda. (KHG: Og vaxtabætur hækka vexti.) Já, vaxtabætur hækka vexti. Það er hárrétt og auka skuldsetningu. Og svo eru allir voðalega hissa á því að heimilin stórauka skuldsetningu sína. (KHG: Og barnabætur, hvað?) Þær geta fjölgað börnum og til þess eru þær oft og tíðum settar, t.d. í Þýskalandi. Í Þýskalandi var ákveðið að borga fyrir börn, þ.e. fæðingu barna, til þess að örva fæðingar. (KÁ: Þetta gildir nú ekki hér.) Nei, nei, sem betur fer gildir þetta ekki alveg hér.

Herra forseti. Tengingin við tekjur og eignir vantar algjörlega í frv. Það stendur ekkert í frv. sjálfu hvernig tengingu við tekjur og eignir skuli hagað. Það er reyndar sagt að 25% af eignum umfram 3 milljónir skuli líta á sem tekjur en ekki hvernig tekjurnar koma inn í húsaleigubæturnar. Það er aftur á móti falið í grg. um bráðabirgðaákvæði II, á síðu 17. Þar kemur í ljós að 2% af árstekjum dragast frá mánaðargreiðslu húsaleigubóta sem þýðir að 24% af árstekjum dragast frá árshúsaleigubótunum. Þetta eru einir hæstu jaðarskattar sem til eru, þ.e. ef tekjurnar fara yfir 125 þús. kr. á mánuði þá minnka húsaleigubæturnar um 240 kr. fyrir hvern þúsundkall sem fólk hefur meira í tekjur. Þetta eru náttúrlega geysilega miklir jaðarskattar. Og ég geri ráð fyrir að þessi útlistun í grg. á bráðabirgðarákvæðinu gefi mynd af því hvernig menn muni hugsa þetta í framtíðinni.

Það er dálítið merkilegt með tekjuákvæðin að tekjur barna undir 20 ára koma ekki inn í myndina, t.d. ef sonur fer á sjó og er hátekjumaður á skuttogara, þá koma þær tekjur ekki inn í tekjuhugtakið. Ég skil ekki af hverju. Eins ef maðurinn er í námi, þá má hann hafa tekjur nánast eins og hann vill með náminu, það kemur ekki inn tekjuhugtakið. Í andsvari áðan nefndi ég að bætur almannatrygginga, að þær krónur eru einhvern veginn heilagri en þær krónur sem menn fá fyrir að skúra gólf þannig að þær teljast ekki með. Þessar upphæðir deyja út við 212 þús. kr., þ.e. fólk sem er með meira en 212 þús. kr. á mánuði, þ.e. fjölskyldan, fær engar húsaleigubætur.

Síðan er það merkilegt með eignirnar. Ef meiningin er sú að hafa 24% jaðarskatt þarna og 25% af eignum umfram 3 milljónir teljist tekjur þá þýðir það að það er 6% eignarskattur af þeim hluta eigna sem fara yfir 3 milljónir sem þýðir að viðkomandi tapar eigninni á 17 árum. Þetta eru hæstu eignarskattar sem til eru sem mér er kunnugt um.

Herra forseti. Bæturnar sem koma fram í grg. um bráðabirgðaákvæði II eru nokkuð félagslegar en þó andsnúnar hjónabandinu. Þannig eru bæturnar t.d. 7 þús. kr. fyrir fjölskylduna, hvort sem það er einn aðili, einstætt foreldri eða hjón. Þau fá jafnmikið. Það virðist eiga að vera jafndýrt fyrir tvo að búa eins og einn. Síðan koma þarna 4.500 kr. fyrir fyrsta barn, 3.500 kr. fyrir annað barn og 3.000 kr. fyrir hvert barn eftir það. En það verður ekkert barn eftir það vegna þess að þá eru menn komnir upp í hámarkið. Þannig að fjölskylda með fjögur börn fær hámarkið, 21 þús. kr., þ.e. jafnmikið og fjölskylda með þrjú börn. Þá geri ég ráð fyrir að menn séu með leigu yfir 45 þús. kr. Þannig verður það sennilega að minnsta kosti hjá stórum fjölskyldum. Menn fá 3 þús. kr. fyrir muninn á milli 20 þús. og 45 þús. kr. En 12% af þeirri leigufjárhæð kemur líka inn í bæturnar.

[17:30]

Ef við hugsum okkur að par ætli að fara að leigja íbúð þá margborgar sig fyrir þau að skilja og leigja hvort sína íbúðina því þá fengju þau hvort um sig 7 þús. kr. og svo geta þau skipt börnunum á milli sín. (KÁ: Það þarf að hafa dágóðar tekjur til þess að standa undir því.) Það má líka gera ýmislegt svona á pappírnum eins og hv. þm. er kannski kunnugt. Það er misnotkun á kerfinu. Það felst misnotkun á öllum kerfum í því þegar fólk þykist hafa skilið. Ef hv. þm. kannast ekki við það þá býr hún á einhverri annarri plánetu.

Frádrátturinn er aftur á móti mjög ófélagslegur. Hann er óháður stærð fjölskyldunnar. Hann er háður heildartekjum fjölskyldunnar. Nú er það þannig að þegar börn bætast við þá þarf fólk að vinna meira annaðhvort með því að skúra á kvöldin eða annað slíkt og tekjurnar aukast og þá eru bæturnar skertar um 24%. Bæturnar eru skertar jafnmikið fyrir litla fjölskyldu, þ.e. einstætt foreldri með barn, eins og fyrir stóra fjölskyldu, hjón með fjögur börn, sem gerir það að verkum að fólk sem er með sæmilega mikið af börnum og báðir aðilar vinnandi getur ekki fengið húsaleigubætur vegna þess að það verður að hafa sæmilegar tekjur til að ala önn fyrir allri þessari barnahjörð að frádrátturinn keyrir húsaleigubæturnar niður. Þetta finnst mér vera ófélagslegt. Auk þess er þetta andstætt hjónabandinu. Ég held að menn eigi frekar að stuðla að hjónabandinu en hitt.

Herra forseti. Ég hef reynt að bera þetta saman við vaxtabæturnar. Mér finnst mjög eðlilegt að þetta sé borið saman við vaxtabæturnar. Það er enginn samanburður á þessum tveim kerfum í þessu frv. Mér finnst það mjög mikilvægt. Það á hvorki að hvetja menn til þess að leigja né til þess að eiga. Ríkisvaldið á ekki að vera að garfa í því hvort menn vilji eignast íbúðir eða leigja þær. Alls ekki. En það er töluvert mikill munur á þessum tveimur kerfum.

Þá ætla ég að koma með dæmi um hátekjufólkið. Við skulum hugsa okkur hjón sem eru með 600 þús. kr. á mánuði og ég ætla að vona að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir samþykki með mér að það séu nú tiltölulega háar tekjur. Hjón með 600 þús. kr., ég ætla að vona að það sé hátekjufólk. Þau skulda 9,5 millj. kr. og borga 650 þús. kr. á ári í vaxtagjöld sem eru 7% af þessari upphæð. 6% af tekjunum eru 432 þús. kr. þannig að þau fá mismuninn, 218 þús. kr. í vaxtabætur. Þetta hátekjufólk fær 218 þús. kr. í vaxtabætur eða 18 þús. kr. á mánuði. Þetta fólk fær 18 þús. kr. á mánuði. Þannig er vaxtabótakerfið. Ef þau skulduðu minna, t.d. 6,5 milljónir þá fá þau ekki neitt. Og hvað skyldi gerast? Nú, þau auðvitað reyna að skulda, að sjálfsögðu, til að fá sínar vaxtabætur, 18 þús. kr. á mánuði. Þetta kerfi vaxtabóta er alveg handónýtt, hvetur menn til skulda og gerir fólk ónæmt fyrir upphæð vaxta og það er mjög skaðlegt.

Í vaxtabótakerfinu er mjög erfitt að sjá hvernig skerðingar koma til en þar er greinilegt að það er 6% skerðing af tekjum en 24% í húsaleigubótakerfinu. Það er því verulega miklu meiri skerðing í húsaleigubótakerfinu en vaxtabótakerfinu. Eign skerðir allt að 8% umfram 5 milljónir í vaxtabótakerfinu en 6% umfram 3 milljónir í húsaleigubótakerfinu, mjög gróft séð. Svo virðist því vera að vaxtabótakerfið sé að mörgu leyti hagstæðara en húsaleigubótakerfið.

Síðan er eitt kerfi í viðbót, þ.e. félagslega íbúðakerfið og það er það alvitlausasta vil ég fullyrða. Ef hjón með tvö börn eru með 205 þús. kr. á mánuði þá fá þau heila íbúð með mjög lágum vöxtum og helmingurinn af lánunum er gefinn með vaxtaniðurgreiðslu og sú gjöf er skattfrjáls. Menn geta fengið 4 milljónir gefnar á þann hátt, skattfrjálst, sem þýðir fyrir aðra sem þurfa að þéna þessar 4 milljónir u.þ.b. 7 milljónir fyrir skatt. Þetta er gefið sem forgjöf. En hjón sem eru með 210 þús. kr., þ.e. 5 þús. kr. meira, fá ekki neitt. Þetta eru langhæstu jaðarskattar sem til eru en eru að sjálfsögðu háðir markaðsvöxtum á hverjum tíma af því þetta er vaxtaniðurgreiðsla.

Þetta var um húsnæðiskerfið á Íslandi og ekki er það einfalt. Það er ekki hægt að segja það.

Herra forseti. Í Reykjavík fá 3.300 fjölskyldur að meðaltali 10 þús. kr. á mánuði í húsnæðisbætur. Þetta kostar 250 milljónir --- það kemur fram í grg. --- eða 2.500 kr. á hvern íbúa Reykjavíkur eða 10 þús. kr. á allar fjögurra manna fjölskyldur í Reykjavík. Þetta er kostnaður við þetta kerfi og að sjálfsögðu verða menn að átta sig á því að einhverjir borga brúsann. Þetta er greitt af hinum sem ekki fá. Þannig að menn þurfa að hafa það í huga.

Svo er í þessu frv., sennilega frá gamalli tíð, furðuleg ákvæði eins og t.d. það að menn megi ekki leigja herbergi, það skal vera íbúð. Námsmenn mega t.d. ekki spara með því að leigja sér herbergi. Þeir skulu leigja sér íbúð. Þá fá þeir húsaleigubætur. Ég skil ekki af hverju og ég mun taka það upp í hv. félmn.

Svo er 15% álag ef menn misnota kerfið en það er ekkert talað um vexti þannig að ef menn bíða nógu lengi með að greiða þá getur það borgað sig.

Herra forseti. Ég mundi vilja sjá húsnæðiskerfi sem sameinar öll þessi kerfi. Húsnæðisstyrk sem væri kannski 15 þús. kr. á mánuði --- þessar upphæðir sem ég nefni eru ekki vísindalega út fundnar en það þyrfti að reikna út --- 15 þús. kr. á mánuði fyrir einstakling, 27 þús. kr. á mánuði fyrir hjón, 4 þús. kr. á mánuði fyrir fyrsta barn og 3 þús. kr. fyrir öll börn sem koma á eftir og að þetta skerðist um t.d. 5% af öllum tekjum upp úr og niður úr, ekki þær sem eru yfir 125 þús. kr. Það yrði félagslega miklu réttlátara því sumt fólk er virkilega með mjög lágar tekjur. Síðan yrðu það t.d. 2% vegna eigna, allra eigna. Þannig fengjum við kerfi sem væri miklu réttlátara og það kerfi vildi ég sjá koma í staðinn fyrir vaxtabæturnar, í staðinn fyrir húsaleigubæturnar og í staðinn fyrir verkamannabústaði og allt félagslega húsnæðiskerfið. Og þessar bætur allar, þ.e. húsnæðisstyrkur, yrðu skilyrtar því að þær færu til greiðslu af lánum eða til greiðslu á húsaleigu þannig að fólk geti ekki fengið með annarri hendinni peninga frá hinu opinbera og skuldað jafnvel á hinum endanum hinu opinbera peninga eins og dæmi eru til um þar sem fólk í félagslega íbúðakerfinu hefur fengið vaxtabætur, hefur aldrei borgað neitt og er með allt í vanskilum en fær svo peninga til að fara í utanlandsferð. Það eru dæmi um þetta, því miður. (KHG: Það fær peninga en ekki endilega til þess að fara í ...) Nei, það fær peninga en peningarnir eru ekki ávísaðir á greiðslu af lánum eða greiðslu á leigu og mér finnst að það eigi að vera skilyrði í svona kerfum, þegar menn eru að byggja upp styrk til öflunar húsnæðis, að féð fari þá til þess húsnæðis sem á að styrkja og ekkert annað. Þetta eru mínar hugmyndir.

Herra forseti. Umræðan um það hvort þetta eigi að vera skattskylt eða ekki er að mínu mati umræða um það hver eru breiðu bökin. Ég sé engan mun á því að einhver sé að skúra og fái peninga fyrir það, 10 þús. kr. á mánuði, eða hvort hann fái vaxtabætur, 10 þús. kr. á mánuði. Ég sé engan mun á því. Ef þetta er breiða bakið sem fellur undir skattlagningu, þá á viðkomandi að borga af því skatt.

Það er svo aftur annað mál að það má vel vera að skattheimtan sé orðin allt of mikil og mönnum finnist þess vegna óeðlilegt að menn séu yfirleitt að borga skatta. Og kannski er persónuafslátturinn of hár, það skyldi ekki vera? Þannig að ég hugsa að vandamálið sé frekar hvað skattkerfið er orðið vitlaust en það að menn eigi að borga skatt af þessum tekjum sem þeir hafa eins og öllum öðrum.