Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:02:16 (1685)

1997-12-04 18:02:16# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir lokaorð hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur að ég er sáttur við meginhugsunina í þessu frv. Hér er margt sem á að færa í lög sem er eðlilegt og jákvætt að formi og innihaldi. Það hefur verið gagnrýnt að húsaleigubætur skuli ekki ná til landsins alls. Mörg sveitarfélög hafa ekki boðið upp á húsaleigubætur. Þær hafa einvörðungu náð til innan við 60% þegnanna og einnig er á það að líta að þær hafa ekki tekið til alls húsnæðiskerfisins, ekki til hins félagslega. Að sjálfsögðu er gott að það skuli lögleitt.

Hins vegar ber að líta á þetta mál í stærra samhengi og skoða samspil fleiri þátta, t.d. þann ásetning sveitarfélaga að markaðsvæða leigugjaldið í félagslegum leiguíbúðum, færa leiguna þar upp eins og ákvarðanir hafa þegar verið teknar um í ýmsum sveitarfélögum. Það þarf að skoða málið í því samhengi vegna þess að endanlega erum við náttúrlega að leita leiða til að bæta kjör leigjenda. Það hlýtur að sjálfsögðu að vera markmiðið með þessum lagabreytingum. En sé það rétt, sem ég reyndar efast ekki um, því miður, sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í umræðunni, að kjör margra leigjenda og þar á meðal lágtekjufólks úr röðum leigjenda muni versna við þessar breytingar allar saman. Þá er ég ekki að horfa til frv. eins eða þessara fyrirhuguðu lagabreytinga heldur annarra ráðstafana einnig. Ef það er rétt að kjörin muni versna þá er ekki um annað að gera en fresta þessari framkvæmd. Þær ákvarðanir þurfa þá að taka til sveitarfélaganna einnig. Þau þyrftu einnig að endurskoða sínar ákvarðanir varðandi kjör leigjenda í félagslegu húsnæði.

Í greinargerð með þessu frv. kemur fram, eins og bent var á, að fjórðungur þeirra sem nú búa í félagslegum leiguíbúðum sé með of háar tekjur til að eiga rétt á húsaleigubótum. Hér er um að ræða um 500 einstaklinga. Ef fram fer sem horfir, að leigan verði hækkuð og keyrð upp, þá munu kjör þessa hóps versna. Þetta er alvarlegt en það sem er alvarlegra er að kjör lágtekjufólksins munu einnig versna og þar erum við að tala um mjög miklar upphæðir. Nefndar voru 15--16 þús. kr. í hverjum mánuði nema viðkomandi sveitarfélag geri ráðstafanir til að koma til móts við þessar fjölskyldur með einhverjum öðrum hætti. Það er að sjálfsögðu opin leið að þau geri það en fyrir því höfum við enga vissu. Við höfum enga vissu fyrir því að þau geri það og menn munu spyrja: Verður komið til móts við viðkomandi einstaklinga og fjölskyldur í Reykjavík? Við vitum það ekki. E.t.v. yrði það gert. Hvað þá með önnur sveitarfélög? Mundu þau gera slíkt hið sama? Þessum spurningum er ósvarað og mér finnst ófært að ráðist sé í breytingar á lögum, meðan þessum spurningum er enn ósvarað. Mér finnst það ófært.

Það er ljóst að á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar verða þessi mál skoðuð í því nýja ljósi sem hér hefur verið varpað á þau í umræðunni hér í dag. Verkalýðshreyfingin hefur ályktað mjög eindregið í þá veru að húsaleigubætur yrðu teknar upp. Það hefur á liðnum árum verið gert mjög eindregið af hálfu BSRB og í seinni tíð hafa húsaleigubætur verið einarðlega studdar af hálfu Alþýðusambandsins. Á nýlegum sambandsstjórnarfundi ASÍ sem haldinn var 24. og 25. nóvember var ályktað um húsaleigubætur og segir þar m.a., með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi til laga um húsaleigubætur sem nú liggur fyrir Alþingi er tekið á tveimur mikilvægum atriðum til styrktar leigjendum. Annars vegar er öllum sveitarfélögum gert skylt að greiða húsaleigubætur og hins vegar að bæturnar nái til alls íbúðarhúsnæðis í leigu, án tillits til eignarforms þess. Þrátt fyrir þessar fyrirhuguðu lagabætur verða húsaleigubætur eftir sem áður skattlagðar sem lækkar raungildi bótanna umtalsvert en þó einkum hjá þeim tekjulægstu. Sambandsstjórnarfundur ASÍ skorar á Alþingi að taka inn í hið nýja frv. ákvæði um að húsaleigubætur verði eftirleiðis ekki skattlagðar.``

Hér er vísað sérstaklega til hinna tekjulægstu. Ég er hræddur um að hnykkt hefði verið á þessari ályktun ef menn hefðu gert sér grein fyrir því samspili sem hér hefur verið rakið, að þessar breytingar kynnu að leiða til alvarlegrar kjaraskerðingar hjá tekjulágu fólki.

BSRB hefur einnig ályktað um húsaleigubætur. Á 38. þingi BSRB var eftirfarandi ályktað, með leyfi forseta:

,,BSRB telur brýnt að ríki og sveitarfélög komist að niðurstöðu varðandi húsaleigubætur þannig að leigjendum verði ekki lengur mismunað eftir búsetu. Leigjendur í félagslega íbúðakerfinu eigi kost á húsaleigubótum og skattlagning þeirra verði afnumin.``

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, þá hefur fyrra atriðinu í þessum ályktunum verið náð með þessu lagafrv. en þó að ekki sé við lagasmíðina sem slíka að sakast þá veldur samspilið á milli þessara breytinga annars vegar og ákvarðana í sveitarfélögum um að hækka leigu í félagslegu leiguhúsnæði upp í raunkostnað, útreiknaðan raunkostnað eftir einhverjum formúlum, alvarlegri tekjuskerðingu. Ég vil lýsa því yfir að ég mun beita mér fyrir því á vettvangi samtaka launafólks að þessi mál verði nú þegar í stað tekin til rækilegrar skoðunar.