Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:23:41 (1688)

1997-12-04 18:23:41# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:23]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst ræða hv. þm. býsna athyglisverð og gott að sjónarmið sveitarfélaganna komi inn í þessa umræðu. Hv. þm. hefur reynslu af starfi þar. En ég er litlu nær um það hvað hann vill gera í nákvæmlega þessu máli. Það gilda lög um húsaleigubætur í landinu sem þýða það að sveitarfélögin hafa geta valið um það hvort þau greiða slíkar bætur eða ekki og við vitum, eins og hér kemur fram, að á þessu ári hafa 39 sveitarfélög greitt húsaleigubætur. Þau eru líklega eitthvað um 160 talsins. Það er reyndar erfitt að fylgjast með því þessar vikurnar hversu mörg sveitarfélög eru á landinu því að þeim fækkar stöðugt. Skildi ég það rétt að hv. þm. vildi þá hafa það kerfi áfram eða er hann að leggja til að það verði alfarið á valdi sveitarfélaganna sjálfra að ákveða hvort þau greiða húsaleigubætur og hvernig? Getur hv. þm. skýrt nánar hvaða leið hann vill fara í þessu máli?