Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:27:53 (1692)

1997-12-04 18:27:53# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson vill tryggja sjálfstæði sveitarfélaga. Ég er honum sammála um það. En ég er hins vegar sammála því sjónarmiði sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að líta beri á þessa löggjöf og réttinn til húsaleigubóta sem réttindalöggjöf, sem löggjöf til að tryggja réttindi einstaklingsins og það eigi ekki að vera háð geðþóttavaldi sveitarstjórnanna hvort einstaklingarnir og fjölskyldurnar njóta þessara réttinda. Jafnvel þó við viljum að íhaldið sýni sitt rétta andlit þar sem það er við völd, þá viljum við jafnframt tryggja hag og rétt þeirra sem eru svo ólánssamir að búa við slíkt stjórnarfar. Ég vil líta á þennan rétt á svipaðan hátt og aðrar greiðslur í millifærslukerfinu sem eru til að jafna kjörin, t.d. barnabætur og húsnæðisbætur. Ég lít svo á að húsaleigubætur eigi að vera sams konar og húsnæðisbæturnar eða vaxtabæturnar öllu heldur, að þetta sé stuðningur við fólk sem er að afla sér húsnæðis og að ekki eigi að gera þann greinarmun sem hefur verið gerður eftir því hvaða eignarform fólk velur sér eða hafnar í. Sumir eiga ekki annarra kosta völ en að vera í leiguhúsnæði. Aðrir gera það að eigin vali. Þótt ég sé hv. þm. sammála um að að efla beri sjálfstæði sveitarfélaga þá er ég ósammála honum um að það eigi að taka til þessara réttinda.