Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:29:57 (1693)

1997-12-04 18:29:57# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:29]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við erum að tala um grunnréttindi og réttindalöggjöf þá dugir ekki það eitt að skapa hér fjármagn til þess að greiða húsaleigubætur. Þá verður löggjöfin einnig að taka til þess að hæfilegt framboð sé af leiguhúsnæði fyrir þá sem það kjósa. Og hvernig ætlar hv. þm. að gera það? Það er ekki eingöngu nóg að segja: ,,Húsaleigubætur verða greiddar.`` En viðkomandi aðili sem vill gjarnan nota sér þennan valkost hvað varðar íbúðarhúsnæði getur það ekki vegna þess að framboðið er ekkert. Og þá á sama hátt, af því að við erum að tala hér um grunnréttindi sem ég skal fyllilega taka undir að mörgu leyti að hér er um að ræða, þá verðum við líka að láta það, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, ná yfir félagslega íbúðarhúsnæðið og gera sveitarfélögum þar, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, að hafa tiltekið framboð í félagslega íbúðakerfinu, af kaupleiguíbúðum, af verkamannabústöðum í gamla kerfinu, af almennum leigíbúðum á hendi sveitarfélaganna og af leiguíbúðum á almennum markaði. Þá skulum við líka fara alla leiðina í þessari leit okkar í því að tryggja rétt vinnandi fólks til þess að hafa fullnægjandi þak yfir höfuðið. Ég skal með glöðu geði taka þátt í tilraunum til þess. En á meðan það er ekki þá er dálítið erfitt að taka einn þátt út úr. Það eru mín viðmið. En maður lifandi, virðulegi forseti, ég skal fyrstur allra verða til þess að reyna að tryggja þennan grunnrétt fólks. En hann skal þá vera jafnaður um landið allt.