Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:54:29 (1699)

1997-12-04 18:54:29# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Sökum tímaskort komst ég ekki til þess að svara því sem hv. 13. þm. Reykv. spurði mig um. Ég tel að ekki sé verið að skerða eða fella brott og það er ekki hugsunin í þessu. Sjálfsagt er að athuga það í nefndinni hvort frekari varnagla þurfi. Bætur almannatrygginga eiga ekki að skerða.

Ef 550 íbúar í leiguhúsnæði sveitarfélaga eru vel stæðir þá er það gott. Þeir hafa væntanlega farið þar inn illa stæðir. En sem betur fer getur ræst úr fyrir fólki og það er bara mjög gott og þá þarfnast það ekki sérstakrar hjálpar. Það er eðlilegra að beina aðstoðinni til þeirra sem virkilega þurfa á henni að halda.

Hv. þm. spurði hvort ég mundi knýja þetta frv. fram ef ekki næðist samkomulag um fjármálaleg samskipti. Ég tel að nú séu yfirgnæfandi líkur, sem betur fer, til þess að viðunandi samkomulag náist sem við getum gengið frá og ég treysti því að áður en 2. umr. fer fram um málið, verði það komið.