Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 18:56:11 (1700)

1997-12-04 18:56:11# 122. lþ. 35.3 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[18:56]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Er það virkilega svo að hæstv. félmrh. líti á fólk sem nú dettur kannski út úr kerfinu, 550 manns, sem vel stætt þó það kannski rétt skríði yfir tekjumörkin í húsaleigubótakerfinu hjá sveitarfélögum til þess að fá félagslegar leiguíbúðir? Hvaða tekjumörk erum við að tala um? Við erum að tala um 1,2 millj. í árstekjur og upp í 2,4 því þá fellur það niður. Við erum kannski að tala um fjögurra til sex manna fjölskyldur. Er það virkilega svo að hæstv. ráðherra telji að þetta sé vel stætt fólk, sem þurfi enga niðurgreiðslu og hann hafi engar áhyggjur af þó að við framkvæmd þessara laga sé það sett út á kaldan klaka. Og að teknar séu frá þessu fólki bætur sem nema kannski 15--20 þús. kr., sem er kannski 20--25% af ráðstöfunartekjum þess á mánuði. Mér finnst þetta vægast sagt mjög sérkennilegur málflutningur og trúi varla mínum eigin eyrum ef ráðherrann telur þetta vera allt í lagi. Þá hef ég náttúrlega ekki miklar vonir til þess að ráðherrann beiti sér fyrir því að sveitarfélögin fái eðlileg framlög til sín við þessa breytingu sem ætti að lágmarki að vera 400 milljónir þegar verið er að víkka út kerfið. Það á að svelta þau og láta þau kannski ekki fá nema 200 milljónir. Og því sé ég ekki að þau verði í stakk búin til þess að bæta fólki upp þennan mismun.

Ég spái því, herra forseti --- ég tala nú ekki um ef verkalýðshreyfingin fer að skoða þetta mál eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér áðan --- að það muni heyrast í fólki hér úti í þjóðfélaginu ef framkvæmdin verður eins og ég hef hér lýst, að það sé verið að rífa af fólki 15--20 þús. kr. á mánuði sem það hefur til framfærslu heimila sinna. Og að það komi þá ekki við kjör þessa fólks sem ráðherra segir hér að sé vel stætt og liggur í hans orðum að þurfi ekkert að hjálpa. Ja, svei.