Landafundir Íslendinga

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:15:44 (1709)

1997-12-04 19:15:44# 122. lþ. 35.8 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., Frsm. GHH
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:15]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Utanrmn. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. um að minnast landafunda Íslendinga sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur flutt hér.

Nefndin fékk á sinn fund til þess að ræða þessi mál tvo ráðuneytisstjóra, annars vegar Ólaf Davíðsson úr forsætisráðuneytinu og hins vegar Helga Ágústsson úr utanríkisráðuneytinu og aflaði sér með því upplýsinga um hvernig ætlunin er að standa að því að minnast þessara landafunda árið 2000 af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það er ljóst af þeim upplýsingum sem fram komu í nefndinni að ríkisstjórnin er með ýmislegt á prjónunum í því efni og m.a. mun ætlunin að setja sérstaka nefnd á laggirnar á næstunni til þess að sinna því máli af myndarskap.

Við í nefndinni fögnum því að vinna í þessu efni er hafin með þeim hætti sem raun ber vitni og teljum að það sem fram er komið í því máli sýni að ríkisstjórnin hyggst taka á þessu máli af myndarskap og reisn. Við teljum reyndar eðlilegt að það sé ríkisstjórnin sem hafi forgöngu í þessu máli þó eðlilega komi Alþingi að því í gegnum fjárveitingar og þess háttar og hugsanlega einnig á annan hátt þegar nær dregur.

Við segjum í nál. að við teljum, með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram komu í máli ráðuneytisstjóranna, að þessi mál séu í eðlilegum farvegi nú þegar undir forustu ríkisstjórnarinnar. Við bendum á nokkur verkefni sem hugsanlegt sé að ráðast í. Auk þess að styðja kynningarverkefni af ýmsu tagi í Norður-Ameríku þá er bent á hugmyndir um endurreisn Eiríksbæjar í Dalasýslu og Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð á Grænlandi þar sem jafnframt er reyndar einnig Eiríksbær, þ.e. annar bær Eiríks, og enn fremur bendum við á áform um hugsanlegt Vínlandssafn í Búðardal, auk annarra verkefna og hugmynda sem nefndar hafa verið.

Í ljósi alls þessa og í ljósi þess hvernig þetta mál er á vegi statt leggur nefndin til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar með þessari jákvæðu umsögn sem ég hef hér gert grein fyrir og látum málinu þar með lokið að sinni.

Undir nál. rita allir nefndarmenn sem viðstaddir voru fundinn og í ljósi umræðna áður í nefndinni á ég ekki von á því að þeir sem fjarverandi voru leggist gegn þessari afgreiðslu enda held ég að hér sé á ferðinni mál sem þingmenn allra flokka eigi að geta sameinast um.