Landafundir Íslendinga

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 19:19:03 (1710)

1997-12-04 19:19:03# 122. lþ. 35.8 fundur 12. mál: #A landafundir Íslendinga# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:19]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. utanrmn. fyrir afgreiðsluna á þessu máli, till. til þál. um að minnast landafunda Íslendinga. Tillagan var svona til upprifjunar:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta hefja undirbúning að því að minnast landafunda Íslendinga árið 2000. Þess verði einnig minnst sérstaklega með viðeigandi hætti í Brattahlíð í Grænlandi og í Haukadal í Dalasýslu að Íslendingar námu land í Grænlandi með Eirík rauða í fararbroddi.

Forsætisráðuneytið hafi forustu um þessi verkefni.``

Tillögunni var vísað til hv. utanrmn. sem fékk á sinn fund, eins og fram kom í máli hv. þm. Geirs H. Haarde, Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsrn., og Helga Ágústsson, ráðuneytisstjóra í utanrrn. Það kom fram að í rauninni er þegar hafinn að nokkru leyti sá undirbúningur sem tillagan gerði ráð fyrir og í máli ráðuneytisstjóra forsrn. voru nefnd margvísleg verkefni sem væri verið að fjalla um og hið sama er að segja um þær upplýsingar sem fram komu hjá ráðuneytisstjóra utanrrn. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og við hæfi, að mínu mati, að tillagan sé afgreidd eins og hér er gert ráð fyrir, þ.e. að utanrmn. lýsir ánægju sinni með þann undirbúning sem þegar er hafinn og með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram komu í máli ráðuneytisstjóranna þá leggi nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, enda eru þau verk þegar hafin að nokkru leyti sem lögð eru til í tillögunni.

Í grg. nál. utanrmn. eru nefnd nokkur verkefni, en í áliti nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að styðja þarf kynningarverkefni í Norður-Ameríku en einnig má benda á hugmyndir um endurreisn Eiríksbæjar í Dalasýslu og Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð á Grænlandi og áform um Vínlandssafn í Búðardal, auk annarra verkefna og hugmynda.``

Ég ætla aðeins, herra forseti, að fara yfir þessi verkefni, hvernig ég tel þau standa í einstökum atriðum án þess að gera það í allt of löngu máli.

Að því er varðar spurninguna um samstarf við Bandaríkjamenn og jafnvel Kanadamenn um það hvernig landafundanna verður minnst í Norður-Ameríku, má segja að þær hugmyndir sem þar eru á döfinni eigi ekki síst rætur að rekja til heimsóknar forseta Íslands til Bandaríkjanna á sl. ári og reyndar víðar en til Bandaríkjanna, til Vesturheims, og sérstaklega kannski til undirtekta Bandaríkjaforseta undir þær hugmyndir sem forseti Íslands setti fram í viðtölum sínum við forseta Bandaríkjanna.

Mér er kunnugt um að utanrrn. hefur í huga að taka sérstaklega utan um þetta mál og sinna því sérstaklega með afgerandi hætti, án þess að ég telji út af fyrir sig rétt að greina frá því öllu nákvæmar í hverju það er fólgið. En það er ljóst að áhugi á málinu er mikill í utanrrn.

Að því er varðar endurreisn Eiríksbæjar í Dalasýslu og Vínlandssafn í Búðardal sem hér er nefnt, þá er þess að geta að erindi um þessi mál liggja fyrir fjárln. Alþingis nú vegna þess undirbúnings sem þegar hefur verið unninn í Dalasýslu í þessum efnum, og ég veit ekki betur en þar sé farið fram á einhverja fjármuni á árinu 1998 í þessu skyni. En hér er auðvitað um að ræða nokkurra ára verkefni þannig að engin ástæða er til að gera ráð fyrir því að því verði lokið á næsta ári. En ég hygg að þetta mál sé þegar til meðferðar í hv. fjárln.

Að því er varðar Grænlandsverkefnið eða Brattahlíðarverkefnið þá ætla ég aðeins að geta þess að til viðbótar við Þjóðhildarkirkjuna í Brattahlíð á Grænlandi sem hér er nefnd, hefur verið talað um að reisa þar á ný bæ sem líkist eins og kostur er hinum upphaflega bæ Eiríks rauða. Gert er ráð fyrir því að bæði þessi hús verði opnuð gestum og gangandi á árinu 2000. Mér hafa nú nýlega borist um það upplýsingar að formaður grænlensku landstjórnarinnar og grænlenska landstjórnin hafa ákveðið að beita sér sérstaklega í þessu verkefni, hafa ákveðið að setja í það fjármuni strax á árinu 1998, síðan 1999 og 2000. Og það er einnig um það að ræða að Færeyingar eru með það á dagskrá hjá sér hvernig þeir geti tengst þessu verkefni í Brattahlíð.

Málið liggur þannig að við gerum ráð fyrir því í næstu viku að fá nánari upplýsingar um stöðu þessara mála í Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins, þar sem við munum fara yfir þetta í einstökum atriðum og ég reikna með að í framhaldi af því munum við snúa okkur til réttra aðila um stuðning við það verkefni af hálfu Íslands á árunum 1998, 1999 og 2000.

Ég tel að staða málsins sé eðlileg og það er mikilvægt, að mínu mati, að utanrmn. hefur afgreitt málið eins og sem hér er gert. Það er stuðningur við vinnu fjárln. og það er stuðningur við vinnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Menn hafa rætt talsvert um að það verði nokkuð viðburðaríkt þetta ár, árið 2000, það verði eiginlega ekki þverfótað fyrir stórviðburðum, eins og kunnugt er, það verði kristnitökuhátíð, Reykjavík verður ein af níu menningarborgum Evrópu, það verða afmæli mikilvægra stofnana eins og t.d. Þjóðleikhússins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og sjálfsagt fleiri aðila. Það er sem sagt bersýnilegt að heilmikið verður um að vera á árinu 2000, hvort sem það er nú hið eiginlega aldamótaár eða ekki, sem á nú vonandi eftir að hefja miklar deilur um í þessari stofnun, ef ég þekki hana rétt, áður en öldin er öll, þ.e. hvort það er árið 2000 eða 2001. En alla vega er ljóst að með þessari afgreiðslu er verið að leggja af stað af hálfu Alþingis í því að taka sæmilega myndarlega á þessu verki og ég endurtek þakkir mínar til hv. utanrmn. fyrir það hvernig hún hefur afgreitt málið af sinni hálfu.