Íslenskur ríkisborgararéttur

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 10:32:45 (1715)

1997-12-05 10:32:45# 122. lþ. 36.11 fundur 311. mál: #A íslenskur ríkisborgararéttur# (afgreiðsla umsókna o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[10:32]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Með frv. þessu eru lagðar til nokkrar veigamiklar breytingar á núgildandi lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Veigamestu breytinguna má telja þá sem lögð er til með breytingu á 2. gr. laganna en þar er lagt til að börn sem erlend ógift kona eignast með íslenskum ríkisborgara fái íslenskan ríkisborgararétt föðurins þegar tilteknum skilyrðum er fullnægt, þ.e. ef barnið er fætt hér á landi öðlast það íslenskan ríkisborgararétt þegar fyrir liggur að faðir þess er íslenskur og barn sem fætt er erlendis getur öðlast íslenskan ríkisborgararétt að ósk íslensks föður þess þegar fullnægt er ákvæðum um faðerni þess.

Eins og ákvæði 2. gr. er í dag getur barn sem íslenskur ríkisborgari eignast með erlendri konu ekki fengið íslenskan ríkisborgararétt að lögum nema þau séu í hjónabandi. Þessi staða mála hefur sætt talsverðri gagnrýni af hálfu feðra sem ekki geta veitt börnum sínum fæddum utan hjónabands ríkisborgararétt sinn og sömuleiðis hefur þetta sætt gagnrýni af hálfu þeirra aðila sem gæta jafnréttismála.

Þá er lagt til í 3. gr. frv. að núgildandi 2. gr. a verði breytt þannig að auðveldara verði að afla íslensks ríkisfangs fyrir ættleidd börn. Samkvæmt tillögunni er lagt til að nægjanlegt sé að annað þeirra hjóna sem ættleiða sé íslenskur ríkisborgari en ekki bæði eins og nú er. Eins er lagt til að það sé ekki skilyrði að ættleiðendur og barnið séu búsett hér á landi. Hins vegar er það skilyrði að ættleiðingin sé gerð með leyfi íslenskra stjórnvalda eða hljóti staðfestingu þeirra sé ættleiðing veitt erlendis. Þá er lagt til að miðað verði við að barnið sé yngra en 12 ára í stað þess að nú sé miðað við 7 ára aldur þess.

Í 4. gr. núgildandi laga er þeim sem öðlast hefur íslenskt ríkisfang við fæðingu en misst hefur ríkisfangið vegna töku erlends ríkisfangs heimilað að fá ríkisfangið að nýju með tilkynningu til dómsmrn. en þó því aðeins að hann sanni að hann missi við það erlenda ríkisfangið. Miðað við þá framkvæmd sem verið hefur verið veitingu ríkisborgararéttar með lögum til þeirra sem hafa haft íslenskan ríkisborgararétt og misst hann virðist ekki tilefni til að halda við þetta skilyrði. Er því lagt til að 2. málsl. 4. gr. falli niður.

Í 8. gr. laganna er ákvæði sem mælir svo fyrir að íslenskur ríkisborgari sem fæddur er erlendis og ekki uppfyllir tilgreind skilyrði um dvöl hér á landi missi íslenska ríkisfangið þegar hann verður 22 ára. Í ljós hefur komið að þetta ákvæði veldur því að þeir Íslendingar sem fæddir eru erlendis hafa margir hverjir lent í vandræðum sökum þess að íslenskur ríkisborgararéttur þeirra hafi fallinn niður án þess að þeir hafa haft tækifæri til þess að afla sér annars ríkisborgararéttar. Slíkt fyrirkomulag er andstætt þeirri meginreglu að maður missi ekki borgararétt án þess að hafa aflað sér annars. Því er lagt til að við 1. mgr. 8. gr. bætist ákvæði þess efnis að íslenska ríkisfangið falli ekki niður verði maður við það ríkisfangslaus.

Rétt er að geta þess hér að á vegum Evrópuráðsins hefur verið gerður samningur um ríkisborgararétt. Samningur þessi var lagður fram til undirritunar 6. nóvember sl. og var hann þá undirritaður af Íslands hálfu sem og hinna Norðurlandanna. Samningur þessi fjallar um meginreglur varðandi ríkisborgararétt og er þar m.a. kveðið á um að ríkisborgararétt megi ekki taka af mönnum verði þeir við það ríkisfangslausir. Þá er einnig ákvæði í þessum samningi sem miðar við að börn fái ríkisfang foreldra sinna án tillits til hjúskaparstöðu. Tillögur þær sem gerðar eru í 2. og 7. gr. frv. miða að því að auðvelda aðild Íslands að samningi þessum.

Þá er komið að annarri veigamestu breytingunni sem lögð er til með frv. en hana er að finna í 5. gr. en þar er lagt til að við lögin bætist ný grein þar sem dómsmrh. er heimilað að veita íslenskan ríkisborgararétt útlendingum sem um það sækja að fullnægðum nánar tilgreindum skilyrðum. Hér er því lagt til að í stað þess að allar umsóknir útlendinga um íslenskan ríkisborgararétt séu afgreiddar með lögum um veitingu ríkisborgararéttarins verði ráðherra heimilað að afgreiða þær umsóknir sem uppfylla þau skilyrði sem Alþingi nú setur við veitingu ríkisborgararéttar. Þó er lögð til nokkur þrenging á sumum ákvæðanna frá því sem nú er.

Brtt. þessi byggist á þeirri breytingu sem gerð var á stjórnarskránni með 4. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995, en þá var breytt ákvæði stjórnarskrárinnar um veitingu íslensks ríkisborgararéttar til útlendinga. Í stað þess að segja að útlendingi verði aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum var gerð sú breyting að nú segir að útlendingi verði aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum. Í athugasemdum með frv. til stjórnskipulagabreytinga segir að þessi tillaga sé gerð með það fyrir augum að löggjafanum verði veitt svigrúm til að setja almenn lög um veitingu ríkisborgararéttar í stað þess að setja sérstök lög um að veita tilteknum einstaklingum ríkisborgararétt. Þar segir einnig að eftir þessu orðalagi hefði löggjafinn val um hvor leiðin yrði valin til að veita íslenskan ríkisborgararétt eða geti jafnvel ákveðið að báðum aðferðum verði beitt. Í samræmi við þetta orðalag athugasemdanna er lagt til að 6. gr. laganna verði efnislega óbreytt en orðalagi 1. mgr. breytt og lagt til að þar segi að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum en í 6. gr. laganna segir: ,,Ríkisborgararétt má veita með lögum samkvæmt stjórnarskránni.`` Samkvæmt þessum tillögum yrði þeim sem sækja um ríkisborgararétt veittur ríkisborgararéttur af hálfu ráðherra uppfylli þeir skilyrði laganna að öllu leyti en umsóknir þeirra sem ekki uppfylla skilyrðin verði lagðar fyrir Alþingi. Þannig má nefna sem dæmi að í frv. er gert ráð fyrir því að ráðherra geti veitt ríkisborgararétt þeim sem hingað hafa komið sem flóttamenn og falla undir ákvæði alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna. Aðrir sem telja sig vera hér flóttamenn verða að leita til Alþingis með umsókn sína um íslenskan ríkisborgararétt.

Í 9. gr. frv. er lagt til að endurvakið verði bráðabirgðaákvæði sem sett var með lögum nr. 49/1982, um breyting á lögum um ríkisborgararétt þar sem íslenskum mæðrum barna sem fædd voru í hjónabandi þeirra með erlendum eiginmanni á tímabilinu 1. júlí 1964 til 1. júlí 1982 var heimilað að gefa yfirlýsingu um að þær óskuðu eftir að barnið fengi íslenskan ríkisborgararétt. Með greindum lögum var ákveðið að börn allra íslenskra mæðra öðluðust íslenskan ríkisborgararétt frá móður sinni þó svo að hún væri gift erlendum borgara. Frestur til að gefa slíka yfirlýsingu var til 30. júní 1985 og var ekki framlengdur eftir þann tíma. Það kom í ljós eftir að frestur rann út að allmargar mæður höfðu ekki frétt af þessu lagaákvæði. Hefur þetta vakið óánægju meðal þeirra og á síðasta ári kom slíkt mál til kasta kærunefndar Jafnréttisráðs sem taldi að Ísland hefði ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum við takmörkun á þessari heimild og beindi þeim tilmælum til dómsmrn. að það beitti sér fyrir lagabreytingu sem leiðréttir þann mun sem er á réttarstöðu umræddra barna vegna kynferðis hins íslenska foreldris. Með tilliti til þess er lagt til að nú verði tekið í lögin ákvæði til bráðabirgða sem heimilar börnum sem fædd eru á framangreindu tímabili eða öðlast íslenskt ríkisfang frá móður sinni annaðhvort með því að hún gefi sjálf slíka yfirlýsingu sé barn innan 18 ára aldurs, en einnig að börn sem náð hafa 18 ára aldri geti sjálf gefið slíka yfirlýsingu enda fullnægi þau skilyrðum 8. gr. ríkisborgararéttarlaganna um rétt til að vera íslenskur ríkisborgari.

Herra forseti. Ég hef nú í aðalatriðum gert grein fyrir meginefni þessa lagafrv. og legg til að því verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. allshn.