Sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 10:41:07 (1716)

1997-12-05 10:41:07# 122. lþ. 36.12 fundur 312. mál: #A sóknargjöld, kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla# (millifærsla gjalda) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[10:41]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um sóknargjöld o.fl, lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu og lögum um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl.

Fjárhagsleg afkoma kirkjugarðanna hefur versnað verulega undanfarin missiri og hafa tekjur þeirra skerst um meira en 40% frá 1990 vegna lækkunar á kirkjugarðsgjöldum og afnámi aðstöðugjalds auk þess sem kirkjugarðslögin frá árinu 1993 skylda kirkjugarða til að greiða kostnað af prestsþjónustu við útfarir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að auka tekjur kirkjugarðanna.

Við árlega hækkun sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda skal leggja til grundvallar þá hækkun sem orðið hefur á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga tvö næstliðin tekjuár á undan. Samanburður frá Þjóðhagsstofnun leiðir í ljós að þessi hækkun nam 6,3% á milli tekjuáranna 1995 og 1996. Ef hins vegar er tekið tillit til þess að iðgjöld til lífeyrissjóða verða í auknum mæli dregin frá tekjum til skatts mælist hækkun tekjuskattsstofnins 7,6%. Með frv. þessu er lagt til að sóknargjöld hækki um 6,3% en kirkjugarðsgjöld um 7,6% auk þess sem þau hækki um fjárhæð sem nemur 1,3% af hækkun sóknargjalda. Þannig er lagt til að sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld hækki mismikið án þess þó að heildarhækkun verði meiri en gildandi lög gera ráð fyrir. Með þessari breytingu verða tekjur kirkjugarða auknar um 15,3 millj.

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma standa nú frammi fyrir því að þurfa að fjölga kirkjugörðum en slíku fylgir mikill stofnkostnaður. Til að draga úr fjárhagsvanda þeirra er lagt til að Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma verði undanþegnir greiðslu lögboðins framlags í Kirkjugarðssjóð árin 1998 og 1999. Við þetta mun ráðstöfunarfé Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma aukast um 15 millj. hvort árið.

Þá er lagt til að sóknarnefndum verði gert að senda Ríkisendurskoðun ársreikninga sína og að ákvæði laganna um sóknargjöld og kirkjugarðslaganna verði samhljóða í þeim efnum. Er einnig lagt til að Ríkisendurskoðun verði heimilt að kalla eftir upplýsingum og athuga gögn ef ástæða þykir til að kanna tiltekin atriði sérstaklega.

Herra forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.