Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 11:05:57 (1724)

1997-12-05 11:05:57# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Nefnd hefur verið að störfum við endurskoðun sveitarstjórnarlaga. Í henni voru Jón Kristjánsson alþm., sem var formaður nefndarinnar, Húnbogi Þorsteinsson, ráðuneytisstjóri í félmrn., Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, Sesselja Árnadóttir, deildarstjóri í félmrn. og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Einnig sat fundi nefndarinnar Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga.

Mikil reynsla hefur fengist af framkvæmd sveitarstjórnarlaganna frá 1986 og þótti tími til kominn að taka þau til heildarendurskoðunar til að sníða af annmarka og bæta við ákvæðum sem reynslan hefur leitt í ljós að vantað hefur. Sú reynsla er fyrst og fremst fengin frá sveitarfélögunum og félmrn. Nefndin komst að því að skynsamlegt væri að taka kosningakaflann út úr gömlu sveitarstjórnarlögunum, og hann hefur verið lagður fram sem sérstakt frv., að vísu með nokkrum viðbótum og dálítið breyttur og er það frv. nú til meðferðar í félmn.

Miðað við núgildandi sveitarstjórnarlög er breytt nokkuð skipulagi og uppröðun einstakra ákvæða en helstu efnislegu breytingarnar sem lagðar eru til í frv. frá núgildandi lögum eru þessar: Felldur er brott allur greinarmunur sem gerður er á sveitarfélögum eftir fjölda íbúa. Þannig hafa öll sveitarfélög sömu stjórnsýslulegu stöðuna burt séð frá íbúafjölda. Ákvæði laganna eru rýmkuð varðandi nafngiftir sveitarfélaga sbr. 4. gr. og í tengslum við það er gert ráð fyrir að sveitarstjórnir ákveði heiti sveitarstjórna, byggðaráða og framkvæmdastjóra í samtökum sínum um stjórn og fundarsköp, sbr. 11. gr.

Í II. kafla frv. er leitast við að gera ákvæði varðandi sveitarstjórnarfundi skýrari, m.a. ákvæði varðandi auglýsingu fundanna, hæfi sveitarstjórnarmanna, tölvuskráningu fundargerða og varamenn í sveitarstjórnum.

Kaflanum um fjármál sveitarfélaga er breytt nokkuð í því skyni að samræma betur fjárhagslegt uppgjör sveitarfélaganna og skýra nánar hlutverk endurskoðenda og skoðunarmanna og setja fram úrræði svo að unnt sé að bregðast fyrr við alvarlegum fjárhagsvanda sveitarfélags ef sveitarstjórn hefur ekki um það frumkvæði. Einnig er felld brott heimild fyrir sveitarstjórnir til þess að veita einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem hún metur gildar.

Nú er sannleikurinn sá, herra forseti, að mörg sveitarfélög hafa lent í miklum vanda út af ábyrgðarveitingum. Lánastofnanir hafa verið harðskeyttar að krefja um ábyrgð sveitarfélags og sveitarstjórnarmenn hafa í mörgum tilvikum látið undan þrýstingi. Nefndin varð sammála um að taka þennan kaleik frá sveitarstjórnarmönnum og það mun hafa verið gert í samráði eða eftir tilmælum sveitarstjórnanna sjálfra en á hinn bóginn varð nefndin einhuga um þetta atriði og því stendur það í þessu frv. Ég vil hins vegar biðja hv. félmn. að athuga þetta atriði gaumgæfilega, hvort ekki gæti verið óhjákvæmilegt að hafa einhverja smugu til þess að sveitarfélag gæti gengið í ábyrgð. Mér finnst ákvæðið eins og það er í frv. kannski óþarflega fortakslaust. En á hitt vil ég leggja áherslu að það ber að fara ákaflega varlega með ábyrgðir ef veittar eru.

Síðan er eitt atriði í frv. sem hefur orðið nokkurt fjaðrafok um. Það er lagt til að landið allt skiptist í sveitarfélög, ekki eingöngu byggðin og afréttir eins og er í gildandi sveitarstjórnarlögum frá 1986. Það er ekki einungis fjallað um þetta atriði í ákvæði til bráðabirgða heldur er það einnig samkvæmt 1. gr. Í sveitarstjórnarlögunum, nr. 58/1961, segir í 1. mgr. 1. gr.:

,,Ríkið skiptist í sveitarfélög, sem ráða sjálf málefnum sínum, undir yfirstjórn ríkisstjórnarinnar [félagsmálaráðuneytisins], samkvæmt því sem lög ákveða.``

Í núgildandi sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986, er notað orðalagið ,,byggðin í landinu skiptist í sveitarfélög sem stýra sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.`` Um svæði utan byggðar er fjallað í 3. mgr. 3. gr. gildandi laga og hljóðar ákvæðið svo:

,,Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarrétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags. Ef íbúar fleiri en eins sveitarfélags eiga upprekstrarrétt í afréttinn og ekki næst samkomulag um til hvers þeirra hann skuli teljast sker ráðuneytið úr.`` Samkvæmt gildandi lögum er því byggðinni í landinu skipað innan staðarmarka sveitarfélaga ásamt afréttum.

Nú er staðreyndin sú að hér um bil allt hálendið skiptist í afrétti að undanteknum jöklunum þannig að þessi fyrirhugaða breyting á sveitarstjórnarlögum færir sveitarfélögunum engin réttindi né leggur á þau skyldur sem þau hafa ekki nú þegar nema hvað jöklana varðar en það er hins vegar nauðsynlegt vegna vaxandi nýtingar jöklanna til ferðaþjónustu og ferðamennsku að þar sé einhver stjórnsýsla og einhver hafi skyldur til að framfylgja skipulags- og byggingarlögum og heilbrigðiseftirliti og að mínu mati er eðlilegast að fela það aðliggjandi sveitarfélögum. Ástæða er til að undirstrika að það er ekki á nokkurn hátt verið að færa sveitarfélögunum aukin réttindi eða umsvif hvað varðar eignarréttarlega stöðu eða umráð.

Eins og þegar hefur komið fram verður flutt stjfrv. um þjóðlendur á næstu dögum og efni þess er að lýsa hálendið eign ríkisins og þeir sem telja sig eiga þar lendur verða að sanna það fyrir dómi. Miðað við ríkjandi skoðanir hæstaréttardómaranna má búast við að mestallt hálendið verði lýst eign ríkisins. Einnig er væntanlegt stjfrv. um eignarhald á auðlindum í jörðu þar sem þjóðareign er rækilega ákveðin. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins hefur verið að störfum og vinnuhópur undir forustu umhvrn. og með fulltrúum frá dóms- og kirkjumrn. og félmrn. fékk það hlutverk að skilgreina stjórnsýslumörk á milli einstakra sveitarfélaga en á nokkrum stöðum voru mörkin óljós eða ágreiningur um þau. Sá ágreiningur hefur nú verið leystur nema á einum stað, þ.e. í Þórsmörk, en vonir standa til að hann leysist áður en langt um líður. Lögð hefur verið fram tillaga um skipulag hálendisins. Sú tillaga hefur vakið deilur og það er reyndar ekki óeðlilegt því að hagsmunir eru margvíslegir. Virkjunaraðilar vilja sem rýmst réttindi til umsvifa. Ferðabisnessinn vill hafa sem mest svigrúm og náttúruverndarmenn vilja friða sem mest. En þær deilur snerta á engan hátt endurskoðun sveitarstjórnarlaganna.

[11:15]

Það er rétt að undirstrika að ný sveitarstjórnarlög hindra á engan hátt stofnun þjóðgarða á hálendinu enda eru allir núverandi þjóðgarðar og friðlönd innan staðarmarka sveitarfélaga. Ég tel að hálendi Íslands sé okkur ákaflega dýrmætt og þess vegna ber okkur að umgangast það með aðgát og virðingu. Þar hafa því miður verið unnin óbætanleg hervirki í sambandi við virkjanir og mannvirkjagerð og vonandi berum við gæfu til að forða slíkum slysum í framtíðinni og ég held að það sé mjög brýnt að sveitarstjórnarmönnum séu ljósar skyldur sínar og ábyrgð í þessu efni.

Herra forseti. Ég mun ekki orðlengja þetta miklu meira. Frv. fylgir ítarleg greinargerð sem menn geta glöggvað sig á og ég tel að allar þær breytingar sem lagðar eru til séu mjög til bóta frá gildandi lögum. Það er mjög aðkallandi að rýmka ákvæðin um nafngiftir sveitarfélaga. Þær hafa jafnvel í einstökum tilfellum orðið til þess að fresta sameiningu sveitarfélaga eða torvelda sameiningu sveitarfélaga. Hér er farin miklu frjálslegri leið en er í núgildandi lögum og það tel ég vera mjög til bóta.

Ég ítreka enn fremur það sem ég sagði áðan um fjármálakaflann. Sem betur fer hafa flest sveitarfélög tekið sig mjög á á undanförnum 2--3 árum í fjármálastjórn og viðhorfið núna í flestum sveitarfélögum er allt annað en var 1955 þegar ég kom fyrst að þessum málum með þeim hætti sem verið hefur undanfarið. Fjárhagur fjölmargra sveitarfélaga hefur blómgast afar mikið og núverandi sveitarstjórnir hafa sýnt miklu meiri ábyrgðartilfinningu en áður var en þó má bæta um betur. Félmrn. hefur engin tök á því að grípa inn í þó illa sé að fara nema sveitarstjórn æski þess. Hér er fundinn lipurlegur farvegur til þess að stjórnvöld geti gripið inn í ef sveitarstjórn gætir ekki að sér og enn fremur eru miklu skýrari ákvæði um endurskoðun á sveitarstjórnarreikningum og samræmingu á þeim og kröfur um skil á reikningum og því um líkt. Hér er ekki lagt til að breyta lágmarksíbúatölu sveitarfélags. Hún er áfram 50. Þetta er nokkurt álitaefni en ég legg þó áherslu á að menn stilli sig að hækka þessa tölu. Sameining sveitarfélaga hefur gengið ákaflega vel undanfarna mánuði og ég tel að við megum ekki trufla þá þróun. Við höfum náð mjög miklum árangri. Fólkið sjálft finnur að það er skynsamlegra að þoka sér saman og reyna að mynda sterkari sveitarfélög, sterkari félagslegar einingar og þar af leiðir að sveitarfélögin hafa í miklum mæli sameinast. Þeim hefur fækkað um marga tugi síðan ég kom í félmrn. Ég hef varast að beita nokkrum þrýstingi. Við aðstoðum sveitarfélögin ef þau biðja um það við sameiningu. Skuldajöfnunarframlög eru greidd eins og verið hefur og þetta er allt á góðri leið. Þar sem íbúum hefur fækkað niður fyrir 50 þrjú ár í röð þá krefjumst við þess að viðkomandi sveitarfélög sameinist öðrum. Sannleikurinn er nú sá að þegar krafan kemur frá félmrn. hafa menn gjarnan viljað koma með einhverjar undanfærslur og það hefur ekki gengið neitt sérstaklega greitt að sameina þau sveitarfélög sem komin eru niður fyrir lágmarkið.

Það má geta þess til gamans og fróðleiks að þegar hreppaskipan var tekin upp á Íslandi, en það eru líklega ein þúsund ár síðan, var það skilyrði sett að í hreppi skyldu vera hið minnsta 20 bændur sem þingfararkaupi ættu að gegna. Það segir okkur það að í hverju sveitarfélagi skyldu a.m.k. vera 20 bændur sem greiddu eignarskatt eftir þeirra tíma skipulagi og þá má áætla að á hverju heimili hafi verið 5--10 manns, a.m.k. á þeim heimilum þar sem eignarskattur var greiddur og má gera ráð fyrir því að lágmarkskrafan þá um íbúafjölda hafi verið talsvert hærri en 50.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni umræðunni vísað til félmn. til athugunar. Þetta mál þarf ekki að ganga fram fyrr en eftir jól en ég legg áherslu á að það verði sent til umsagnar sem víðast, sveitarfélögin í landinu eða sveitarstjórnarmenn fái tækifæri til þess að gera athugasemdir við þennan gjörning og þar af leiðir að það er mjög mikilvægt að málið verði sent til umsagnar fyrir jól.

Varðandi gildistökuákvæðið með bráðabirgðaákvæðinu tel ég að því verði að sjálfsögðu að breyta þar sem málið verður ekki að lögum fyrr en eftir jól þó að þessi dagsetning hafi verið sett inn þegar verið var að skrifa frv. á sínum tíma.

Ég mun ekki orðlengja þetta meira, herra forseti, en eins og ég sagði legg ég til að málinu verði vísað til félmn.