Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 11:47:19 (1725)

1997-12-05 11:47:19# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:47]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að koma hingað því að ég þarf að koma til hans ákveðnum spurningum sem munu koma fram síðar í máli mínu. En það sem ég ætla fyrst að fjalla um í frv. þessu eru ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir því að stjórnsýsla á hálendi Íslands öllu og þar með talið á jöklum uppi eins og kom áðan fram hjá hæstv. félmrh. falli í hendur sveitarfélaga og er þar verið að ráðstafa stjórnsýslu á 40% landsins. Að mínu viti er það nokkuð undarleg lagasetning að taka svo stórt mál og gera það að ákvæði til bráðabirgða í sveitarstjórnarlögum. Ég sé ekki hvaða nauður rak hæstv. ráðherra til þess að halda þannig á málinu að setja þetta, sem er sennilega eitt stærsta mál sem hefur komið inn á þing er sveitarstjórnarmál varðar, í sérstakt bráðabirgðaákvæði í frv. Ég vil, herra forseti, gagnrýna þann málatilbúnað alveg sérstaklega fyrir utan efnistriði málsins sem ég kem að hér á eftir.

Eins og ég segi er þetta hluti af mjög stóru máli, þ.e. af eignarhaldi og umsýslu á hálendi Íslands. Það mál á sér langa sögu í þinginu því að það var að mig minnir í lok 7. áratugarins sem þáv. þingmaður úr Alþfl., Bragi Sigurjónsson, flutti fyrst inn á Alþingi till. til þál. um að almenningar og afréttarlönd utan eignarmarka einstaklinga yrði lýst alþjóðareign. Slíka tillögu hafa þingmenn Alþfl. flutt á mörgum þingum síðan í ýmsum myndum. Hún hefur aldrei náð samþykki þrátt fyrir að í a.m.k. tveimur dómum Hæstaréttar hafi verið skorað á Alþingi að setja lög sem tækju af öll tvímæli um það efni. Það var fyrst í dómi Hæstaréttar frá árinu 1969 þar sem fjallað var um eignarrétt að Nýjabæjarafrétti en þar hafði héraðsdómur dæmt Skagfirðingum eignarrétt á afréttinum í samræmi við afsal frá 1464. Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu eins og segir í dóminum orðrétt, með leyfi forseta:

,,Að yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar sem eigi styðjist við önnur gögn nægja eigi til að dæma öðrum hvorum aðila eignarrétt til öræfa landsvæðis þessa.``

Hæstiréttur hefur aftur fjallað um sambærilegt mál, gerði það árið 1981 um eignarréttarkröfu ríkissjóðs að Landmannaafrétti. Í niðurstöðum Hæstaréttar segir orðrétt, með leyfi forseta að ,,Alþingi hafi ekki sett lög um þetta efni þó það hafi verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um málefnið`` og er þá átt við almenn lög um eignarrétt að almenningum og afréttarlöndum. Hæstiréttur hefur því tvisvar kallað eftir því að Alþingi setti lög sem tækju á vafaatriðum í þessum efnum vegna þess að sú regla gildir ekki í íslensku réttarfari eins og t.d. í norsku að það sem enginn á eigi kóngurinn, þ.e. ríkið eigi það sem enginn geti sannað eignarrétt sinn á. Hæstiréttur hefur komist að annarri niðurstöðu hér á Íslandi, þ.e. að hvorki ríkið né einstaklingar geti gert þá eignarréttarkröfu sem gerðar hafa verið bæði varðandi Nýjabæjarafrétt og Landmannaafrétt og skorar á Alþingi að setja lög sem taki af þau tvímæli. Þrátt fyrir ítrekaðan tillöguflutning á Alþingi hefur Alþingi samt sem áður aldrei orðið við þeirri áskorun fyrr en fyrst í fyrra þegar hæstv. forsrh. lagði fram frv. á Alþingi sem samið var af nefnd, sem skipuð var að mig minnir árið 1984, þar sem tekin eru af öll tvímæli um þetta efni og tekin sú afstaða að land sem enginn geti sannað eignarrétt sinn á skuli teljast ríkiseign. Þetta er einhver merkasta lagasetning sem fram hefur komið á hinu háa Alþingi um langan tíma og er þess að vænta að hæstv. ráðherra flytji það frv. aftur á þessu þingi þó það sé ekki komið enn. Hins vegar varðar bráðabirgðaákvæðið í því frv. sem við erum að ræða nú þetta mál og hefði verið full ástæða til þess, herra forseti, að halda svo á málum af stjórn þingsins að þetta frv. yrði ekki rætt vegna bráðabirgðaákvæðisins fyrr en þjóðlendufrv. væri komið fram. Við stjórnarandstæðingar höfum ekki farið þess á leit en hins vegar höfum við farið þess á leit að hæstv. forsrh. komi til þess að svara nokkrum spurningum um málið því að það fer ekki hjá því að þetta hangir saman, bráðabirgðaákvæðið í frv. sem er til umræðu og hið stóra frv. hæstv. forsrh. um þjóðlendur.

Í Morgunblaðinu hefur dr. Gunnar G. Schram, prófessor í umgengnisrétti við lagadeild Háskóla Íslands, m.a. fjallað um þessi mál. Hann segir orðrétt um þær ráðagerðir sem felast í frv. hæstv. félmrh., þ.e. ákvæði til bráðabirgða í því frv., með leyfi forseta:

,,Kjarni þessara ráðagerða er sá að allt miðhálendið, sem nú er að mestu almenningur og einskis manns land, skuli hvað alla stjórnsýslu snertir falla undir nokkur af sveitarfélögum landsins. Hér er þeirri spurningu varpað fram hvort þetta sé skynsamleg stefna.

Miðhálendið er geysilega víðfeðmt, nær yfir rúmlega 40% af flatarmáli landsins eins og það er venjulega skilgreint. Þær náttúrugersemar og einstöku óbyggðir sem þar er að finna eru ein af mestu auðlindum landsins, þær eigindir sem gera Ísland svo einstakt í augum hins erlenda ferðamanns jafnt sem okkar Íslendinga. Mikill hluti miðhálendisins er hvorki í eigu ríkisins, sveitarfélaga né einstakra bænda, svo sem allmargir hæstaréttardómar hafa staðfest á undanförnum árum. Hér væri hin rétta stefna sú að lýsa því yfir í löggjöf að miðhálendið væri sameign þjóðarinnar allrar og þar með þær dýrmætu náttúruperlur sem þar er að finna. Samhliða ætti að gera meiri hluta þess að þjóðgarði sem tryggði að þar sæti í framtíðinni í öndvegi sjónarmið náttúruverndar og almannaréttar.``

Þetta er nú verið að gera, þ.e. frv. hæstv. forsrh. um þjóðlendur tekur af tvímæli um eignarhaldið. Það fjallar um að ríkið, almannavaldið, skuli teljast eigandi hálendisins utan þeirra marka sem einstaklingar geta sannað eignarhald sitt á.

Frv. það sem félmrh. mælir fyrir fjallar ekki um eignarhaldið heldur um það hver skuli fara með skipulagsmál og stjórn skipulagsmála, þar á meðal náttúruverndar, umhverfisverndar, hver skuli sjá um að bregðast við ef almannavá verður á viðkomandi svæði o.s.frv. Gunnar G. Schram segir síðan í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Af þessum ástæðum felst mikið óréttlæti í þeirri fyrirætlan að útiloka mikinn meiri hluta þjóðarinnar frá öllum ákvörðunum um landnýtingu og stjórnsýslu á miðhálendinu. Það er gert með núverandi tillögum því þar munu engan hlut eiga að máli allir þeir sem búa á suðvesturhorni landsins, auk Vestfirðinga. Auk þess má mjög draga í efa að þau 40 sveitarfélög sem ætluð eru öll völd á miðhálendinu séu í stakk búin til þess að fara með þá stjórnsýslu. Þar er ekki síst um að ræða ákvarðanir um skipulagsmál, byggingarmál og heilbrigðismál. Mörg þessara sveitarfélaga eru fámenn og hafa, þrátt fyrir góðan vilja, ekki yfir þeirri sérþekkingu á þessum sviðum að ráða sem nauðsynleg er og hér getur skipt sköpum. Auk þess býður þessi skipting 40% landsins greinilega upp á ágreining og deilur milli sveitarfélaganna innbyrðis um staðar- og valdmörk á miðhálendinu sem líklegar eru til að æra óstöðugan og standa allri starfsemi þar fyrir þrifum svo dæmin hafa raunar þegar sannað. Hér yrði með öðrum orðum ein helsta íþrótt Íslendinga, landamerkjadeilurnar, hafin í æðra veldi. Hætt er við að skynsamleg landnýtingarsjónarmið og náttúruvernd lytu þar í lægra haldi.``

Ég held að það þurfi ekki mörgum orðum við það að bæta sem prófessorinn hefur hér sagt. Nákvæmlega þetta er að gerast. Með ákvæði til bráðabirgða í frv. hæstv. félmrh. er ekki verið að hnekkja því meginatriði í þjóðlendufrv. forsrh. að hálendi Íslands skuli teljast alþjóðareign. Það er verið að ganga á svig við það með því að gera ráð fyrir því að aðeins örfá sveitarfélög, sem mig minnir að hafi um 4% íbúa þjóðarinnar innan sinna vébanda, skuli fara með jafnmikilvæg mál og umdeild eins og umhverfismál, skipulagsmál og nýtingarmál. Hvað þetta varðar stangast það á við ákvæði í frv. hæstv. forsrh. eins og við sáum það í fyrra á Alþingi um þjóðlendur því þar er gert ráð fyrir því að meginstjórnsýsluhafinn sé aðeins einn, þ.e. forsrn. en hins vegar er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin komi inn í myndina þannig að það þurfi bráðabirgðaleyfi þeirra til nýtingar lands og landréttinda innan þjóðlendnanna.

Í greinargerð frv. sem lagt var fram í fyrra er þetta hins vegar skýrt svo að lagt er til að forræðaráðstöfun lands og landgæða innan þjóðlendna verði skipt milli forsrh. og sveitarfélaganna en fylgt sé þeirri stefnu að ekki sé ástæða til þess að forsrh. þurfi að koma að veitingu leyfa til skammtímaráðstöfunar á landi svo sem til eins sumars heldur eigi í því tilviki að vera nægilegt að fá leyfi viðkomandi sveitarstjórnar enda gert ráð fyrir því að forsrh. setji á grundvelli 2. mgr. 4. gr. almennar reglur um veitingu slíkra leyfa. Þannig er þetta útskýrt, virðulegi forseti, í greinargerð með þjóðlendufrv.

Ef hæstv. forsrh. flytur þjóðlendufrv. sitt óbreytt, eða mikið til óbreytt frá því sem hann flutti það í fyrra, er þar með auðséð að ákvæði því til bráðabirgða í frv. því sem við hér ræðum, um valdsvið sveitarstjórnanna á hálendi landsins annars vegar og ákvæði í þjóðlendufrv. hæstv. forsrh. um að forsrh. skuli fara með stjórnsýsluna að meiri hluta til, stangast á. Ákvæðin ganga ekki saman eins og frá þeim er gengið og því eru spurningar mínar til hæstv. forsrh. þessar:

1. Hvenær er þess að vænta að frv. um þjóðlendur verði lagt fram?

2. Verður þeim atriðum í þjóðlendufrv., þ.e. um að hálendi Íslands sem teljist alþjóðareign undir stjórn forsrh. eins og kveðið er á um í frv. sem okkur var sýnt í fyrra, með einhverjum hætti breytt? Ef svo er ekki, heldur standi eins og þau stóðu í fyrra, er þá ekki hæstv. forsrh. þeirrar skoðunar eins og ég að ákvæði til bráðabirgða í því frv. sem við ræðum nú stangist í verulegum atriðum á við þau efnisatriði sem ég lýsti áðan sem voru í frv. hæstv. forsrh. um þjóðlendur?