Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:00:16 (1726)

1997-12-05 12:00:16# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:00]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að forsrh. mundi endurflytja frv. um þjóðlendur algjörlega óbreytt frá því sem það var lagt fram fyrir þingið í fyrra að öðru leyti en því að gildistökuákvæðum er breytt sem leiðir af eðli máls. Að öðru leyti verður frv. lagt fram strax eftir helgi algjörlega óbreytt.

Það er rétt að taka fram þannig að það sé ekki misskilið að þjóðlendufrv. byggir á því að landinu öllu sé skipt í sveitarfélög og slíkar línur séu dregnar þannig að það er engu að síður nauðsynlegt að það sé gert á einhvern tiltekinn hátt þannig að frv. um þjóðlendur, ef að lögum verður, fái notið sín. Ég tel mjög mikilvægt að frv. til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, verði hér samferða frv. hæstv. félmrh. í gegnum þingið.

Það er mat þeirra lögmanna sem að samningu þjóðlendufrv. komu að það eigi ekki að þurfa að skarast að málin verði afgreidd. Nefndirnar munu þá bera frv. saman og fara yfir það sérstaklega. Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður sem hefur komið að málunum hefur gefið það álit að þau ákvæði sem eru innan frumvarpanna núna eigi ekki að þurfa að standa í vegi fyrir því að hvorutveggja málin megi fram ganga. Þetta þarf þá bara að skoðast nákvæmlega í þinginu.

Sveitarfélögunum eru eins og hv. þm. nefndi, falin ýmis verkefni, þrátt fyrir þjóðlendufrv., á vettvangi þeirra laga. En þar er þó í meginatriðum um að ræða forræði til bráðabirgða innan árs. Ef lengra er gengið þarf forsrn. að koma að málinu.

Þjóðlendufrv. byggist beinlínis á því að sveitarfélög og sveitarfélagamörk séu alls staðar til staðar í landinu. Til að mynda segir í 3. gr. þess frv. sem var kynnt í fyrra og verður lagt fram að nýju, með leyfi forseta:

,,Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki forsætisráðherra.``

Þannig að á því er byggt að sveitarfélagamörk séu til staðar á svæðinu öllu. Ég tel þetta frv. um þjóðlendur, sem ég ætla nú ekki að fara að mæla fyrir hér og brjóta þar með væntanlega þingsköpin, sé tímamótafrv. sem muni eyða þeirri óvissu, leysa úr málum sem Hæstiréttur, eins og hv. þm. gat um réttilega, hefur æ ofan í æ gert kröfu til að höggvið sé á, leysi afgerandi úr þeim vanda.

Málið hefur verið lengi í undirbúningi. Það var fyrirrennari minn, Steingrímur Hermannsson, sem beitti sér fyrir vinnu við þetta frv. og bestu menn hafa að því komið. Fyrst dr. Gaukur Jörundsson og eftir að hann hvarf til annarra starfa kom að málinu Gunnlaugur Claessen ríkislögmaður, nú hæstaréttardómari, Magnús Sigurðsson bóndi á Gilsbakka, Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, Allan Vagn Magnússon borgardómari, nú héraðsdómari. Að þessu máli hefur því verið unnið mjög faglega og á vandaðan hátt enda er málið afskaplega flókið eins og hefur komið í ljós svo greinilega í hinum fjölmörgu dómum og deilumálum sem fyrir rétti landsins hafa farið.

Þannig að frv. verður lagt fram óbreytt. Það er mat lögmannanna að það eigi ekki að þurfa að koma í veg fyrir að frv. félmrh. geti fengið eðlilega meðferð hér í þinginu.