Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:07:48 (1728)

1997-12-05 12:07:48# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:07]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég sé nú eftir hæstv. félmrh. á dyr úr salnum og kann því nú miðlungi vel að hafa ekki hæstv. félmrh. sem viðmælanda.

(Forseti (GÁS): Vill ekki hv. þm. þá gera hlé á ræðu sinni þar til hann kemur til salar?)

Jú, það er velkomið. Á ég að víkja úr ræðustól á meðan, virðulegur forseti.

(Forseti (GÁS): Hv. þm. getur haft þá aðferð sem hann kýs en klukkan verður stöðvuð.)

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga. Það eru auðvitað allnokkur tíðindi að slíkt frv. sé lagt fyrir þingið. Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. sjálft en koma síðan að því atriði sem hér hefur verið rætt af hv. 4. þm. Vestf. og hæstv. forsrh. hefur komið að því máli.

Ég vil í upphafi segja að mér finnst að það sé góðra gjalda vert að hér er komin endurskoðun á sveitarstjórnarlögum og heildstætt frv. komið fyrir þingið um það efni. Ég hef nú ekki haft aðstæður til að fara rækilega yfir það svo sem vert væri vegna þess að ég hafði fjarvist vegna ferðar erlendis síðustu daga og var fyrst að sjá þetta frv. í morgun í þeim búningi sem það er hér rætt og hef þann fyrirvara varðandi málflutning minn að ég mun ekki geta komið að öllum sjónarmiðum sem ég vildi gera um málið. Sjálfur hef ég flutt þrívegis á undanförnum þingum frv. til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem snerta ýmis þau efni sem hér eru tekin inn í þessa endurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Þau ákvæði snerta nafngiftir á sveitarfélögum og heiti á embættismönnum og oddvitum sveitarstjórna, ýmislegt af þeim toga sem ég taldi á þeim tíma að brýnt væri að fá breytingu á og hæstv. félmrh. tók undir það í máli sínu hér að æskilegt væri og brýnt að fá þá breytingu fram. Sjálfur flutti hæstv. ráðherra frv. einmitt um sama efnisatriði sem dagaði uppi á síðasta þingi þótt mitt frv. um hliðstætt efni lægi þá fyrir þannig að ekki er ágreiningur á milli okkar um þetta efni, virðulegur forseti, að þarna þurfi að gera breytingar á. Mér sýnist að frv. hafi að þessu leyti tekið inn flest þau atriði sem fram komu í frv. mínu sem félmn. þingsins hefur farið yfir og hefði sem hægast mátt lögfesta þegar á 120. þingi og spara sveitarstjórnum ýmsar hremmingar sem stafa af gildandi ákvæðum laga um heiti sveitarfélaga og fleira af þeim toga. Við skulum því vona að þetta stefni að einum ósi. Það er hins vegar dálítið athyglisvert varðandi málsmeðferð hér í þinginu að það skuli vera lítið með það gert þó að þingmenn séu að flytja hér mál inn í þingið sem í rauninni ríkir samstaða um og hljóta hina bestu umsögn og bestu meðferð eins og flest af því sem lagt var til í því frv. sem nú liggur fyrir félmn., þ.e. 26. mál þingsins, frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. En ekki skal ég sakast frekar um það efni.

Ég vil þó vekja athygli á því, virðulegur forseti, að um leið og með þessu frv. er aflétt þeim kvöðum sem eru í gildandi löggjöf að sveitarfélög skuli bera tiltekin heiti --- það er sannarlega tími til kominn og hefði fyrr mátt vera --- þá er samt ekki gætt fyllsta samræmis. --- Og enn er hæstv. félmrh. hlaupinn úr þingsal, virðulegur forseti.

(Forseti (GÁS): Forseti leggur til að sami háttur verði hafður á ef hv. þm. kýs svo.

Vil ég vekja, virðulegur forseti, athygli á 11. gr. frv. þar sem enn er að finna agnúa sem ég tel að þurfi að fjarlægja úr frv. sem kemur í veg fyrir þá heildarsamræmingu sem nefndin sem undirbjó frv. hefur staðið fyrir, þ.e. að rýmka til um rétt sveitarfélaga varðandi nafngiftir og að draga upp mynd af sveitarfélögum í landinu sem heildstæðu stjórnsýslustigi en ekki að vera að koma í veg fyrir þá sýn til mála með sérákvæðum um hreppa eða kaupstaði eða borgir og bæi, hvað menn vilja kalla þetta, út frá íbúafjölda. Það er stefna sem hægt er að taka undir, jákvæð stefna, en því er ekki fylgt eftir í 11. gr. frv. þar sem farið er að kveða á um í lögum samkvæmt þeirri tillögu sem þar má lesa um heiti sveitarstjórna með mismunandi hætti. Er nokkur ástæða, virðulegur forseti, og ég beini því einnig til hæstv. ráðherra, til þess að vera að lögbjóða um heiti sveitarstjórna sérstaklega eftir því hvort að talist hefur bær, hreppur eða eitthvað annað? Það er agnúi á þessu máli og því þarfa samræmingarstarfi sem nefndin hefur skilað af sér og hæstv. ráðherra hefur flutt hér inn. Er nokkur ástæða til þess að kveða á um í lögum að í Reykjavík --- og hér stendur Reykjavíkurborg. Heitir hún ekki Reykjavík bara höfuðborgin hérna --- nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn? Þarf að kveða á um slíkt í lögum? Þarf að kveða á um það í lögum að sveitarstjórnin nefnist bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn? Þetta er fáránlegt og alveg sérstaklega í ljósi þeirrar hreinsunar sem gerð hefur verið á öðrum sviðum varðandi þessi efni. Sveitarstjórnir er hið almenna sameinandi heiti fyrir sveitarstjórnir og annað á ekki að lögbjóða.

[12:15]

Árið 1986 þegar lög um sveitarstjórnir voru síðast endurskoðuð var ekki nógsamlega tekið tillit til þess greinarmunar sem var, þangað til, á sveitarfélögum vegna tilvistar sýslna í landinu sem þá voru afnumdar --- þær voru afnumdar með þeirri lagabreytingu --- Þá var hægt að stíga skrefið. Það var ekki gert og hér erum við að fikra okkur áfram til að draga upp heildarmynd af þessu stjórnsýslustigi.

Ég fagna því að í 14. gr. frv. er talað bara um oddvita sveitarstjórnar og að stöðuheiti oddvita sveitarstjórna megi ákveða í samþykktum stjórnar sveitarfélagsins. Það er gott. Það er ekki verið að flokka þetta eftir forseta borgarstjórnar eða bæjarstjórnar. Þetta er bara oddviti og það er ágætt nafn, fínt íslenskt heiti sem öllum er sómi af að að bera. Það þarf ekkert meira til. En ef sveitarstjórnir svo kjósa að hengja eitthvað annað á sína starfsmenn þá geta þeir gert það í samþykktum. Þetta er rétt stefna.

Virðulegur forseti. Sama er að segja um framkvæmdastjóra sveitarfélags. Það er bara framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og það þarf ekki annað nafn á hann en framkvæmdastjóra og það er sameinandi fyrir allt stjórnsýslustigið. En ég sá, virðulegur forseti, í þessu frv. á einum stað að getið var sýslna og þá er reyndar komið að því atriði sem rétt er að fjalla nú um það sem ég á eftir í minni ræðu, þ.e. ákvæði til bráðabirgða sem hér hefur þegar nokkuð verið rætt. Þar er að finna mjög sérkennilegt ákvæði í ljósi þess að sýslur eru ekki lengur til í landinu þó að þær lifi góðu lífi í umræðum manna á meðal og jafnvel í málsmeðferð opinberra stofnana eins og Skipulags ríkisins og í þeirri tillögu að hálendisskipulagi sem liggur fyrir. Þar er flokkað eftir sýslum þó að sýslur séu ekki lengur til. Hér stendur í ákvæði til bráðabirgða:

,,Gengið skal út frá að staðarmörk sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendi Íslands, verði framlengd inn til landsins. Sama gildir um staðarmörk sveitarfélaga á jöklum. Skal miðað við sýslumörk þar sem það á við, en heimilt er að víkja frá þeim með samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna.``

Til hvers er verið að vísa? Á hverju er byggt? Hvar eru lagaleg ákvæði um sýslumörk? Sýslur eru ekki lengur til samkvæmt lögum. Sýslumenn eru embættismenn sem sitja á ákveðnum stað og bera heiti samkvæmt því. Það er enginn sýslumaður Gullbringusýslu til lengur, enda er búið að breyta umdæmamörkum frá því sem var meðan Gullbringusýsla var sýsla. Það er búið að breyta þeim. Það er búið að breyta sýslumörkum í Suður-Múlasýslu og Norður-Múlasýslu, --- reyndar er ekki búið að breyta sýslumörkum heldur umdæmamörkum sýslumanna, vildi ég sagt hafa. Þannig eru hvergi til nein skilgreind sýslumörk í landinu og það er engin fastdregin afmörkun á milli umdæma sýslumanna nema að ráðuneyti dómsmála getur sjálfsagt farið með það svona eftir reglugerð gæti ég ímyndað mér, hvernig með skuli farið. Það er nauðsynlegt að þetta verði tekið til umræðu í nefndinni og ég hafði raunar ætlað mér, virðulegur forseti, að bera hér fram þinglega fyrirspurn til ráðherra varðandi sýslur og þessa notkun á heitum þeirra og tilvísun til þeirra því að það er held ég mál til komið að sé gert. Ég er ekkert á móti því að festar séu sýslur í landinu en þá á að gera það og ekki vera að hringla með það ef menn ætla að miða við slíka afmörkun. Nóg um það, virðulegur forseti.

Ákvæði til bráðabirgða sem hér hefur verið rætt og er greinilega umdeilt mál og ekkert óeðlilegt við það, það snýr að mjög stóru efni, efni sem hefur verið til umfjöllunar á Alþingi síðan 1990 og raunar miklu fyrr. Inn í þetta mál kemur spurningin um eignarráð yfir ákveðnum hlutum landsins, yfir hálendi landsins. Það er sérstakt viðfangsefni annað en viðfangsefni varðandi stjórnsýslumörk. Þó er það svo að vegna þess að af hálfu núv. ríkisstjórnar hafa komið fram mál og eru væntanleg mál inn í þingið sem snerta þetta, þá er mjög eðlilegt að á því sé vakin athygli. Það er alveg réttmætt sem hv. 4. þm. Vestf. hefur sagt að því leyti til, alveg réttmætt, að ekki er samræmi í málafylgjunni af hálfu hæstv. félmrh., og eins og hér hefur verið greint frá, af hálfu hæstv. forsrh. varðandi væntanlegt frv. um þjóðlendur og ég vil leyfa mér að segja, af hálfu hæstv. umhvrh. sem mun nú fjarri góðu gamni, að því er snertir skipulagslöggjöfina. Þarna stangast mál á og það er mjög nauðsynlegt að þingið fari yfir þessi mál í heild og skili frá sér skýrri löggjöf þannig að ekki leiki vafi á því hvers er hvað, hver hin almenna lagalega afmörkun er varðandi valdsvið og að hve miklu leyti valdsviðið tengist eignarhaldi þegar kemur til hálendisins. Þetta þarf að vera skýrt.

Ég vil þá aðeins koma að því, virðulegur forseti, hver eru hin almennu viðhorf að því leyti sem snertir yfirráðin og stjórnsýsluna sem við erum hér í raun að fjalla um með því að framlengja mörk sveitarfélaga inn til landsins og skipta einnig upp jöklum milli sveitarfélaga. Um þetta hefur Alþingi fjallað mörg undanfarin ár og flestir þeir þingmenn sem hér sitja hafa komið að því, virðulegur forseti, með einhverjum hætti, kannski ekki þeir sem eru nýkjörnir á þessu kjörtímabili. Og þá vísa ég til þess að árið 1990 starfaði á vegum fyrsta umhvrh. okkar í ríkisstjórn, Júlíusar Sólnes, sérstök nefnd sem hafði það verkefni að gera tillögur varðandi stjórnsýslumörk á hálendinu og varðandi afmörkun þess og hversu með skyldi farið. Þetta var kölluð hálendisnefnd. Hún skilaði af sér eftir allmarga fundi tillögu til umhvrn. þar sem það var meginefni að miðhálendi landsins yrði sérstök og sjálfstæð stjórnsýslueining, ekki viðfangsefni sveitarfélaga þannig séð þó ekki væri útilokað að sveitarfélög kæmu að stjórnsýslunni heildstætt. Úr því var ekki skorið. Á grundvelli þessa viðhorfs og þessara tillagna, virðulegur forseti --- og nú held ég að það væri æskilegt að hv. 4. þm. Vestf. væri hér nærri, ég bið um að honum sé gert viðvart því að ég er að víkja aðeins að máli hans jafnframt um þessi efni --- var flutt inn á þingið, 115. þing, frv. um skipulag á miðhálendi Íslands og það byggði á þessu meginsjónarmiði --- þetta er ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hin fyrri og umhvrh. var þá Eiður Guðnason þegar þetta er gert og hæstv. þáv. umhvrh. byggði á þessu meginsjónarmiði --- miðhálendið sjálfstæð stjórnsýslueining. Þetta frv. var rætt hér í þinginu og menn geta kynnt sér þá umræðu. Hún var alllöng og mikil. Ég var með hana hérna. Og þá risu nú heldur betur úfar hér meðal manna og þá fór ekki mikið fyrir samstöðunni í þeirri ríkisstjórn því að upp risu, öndvert þessu meginsjónarmiði, þingmenn úr þáverandi ríkisstjórnarliði, sjálfstæðir þingmenn, og höfnuðu þessari leið eða lögðust mjög gegn henni og þingmenn úr Framsfl. sem sameinuðust með þeim á móti þessari stefnu og frv. komst aldrei einu sinni til nefndar ef ég man rétt. Ég held að umræðunni hafi verið frestað og frv. hafi aldrei til nefndar farið. Þetta mun vera á vorþingi 1992. Síðan bregður þáv. hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason á það ráð að kalla saman fulltrúa sveitarstjórna í landinu haustið 1992. Og hvernig skal orða það, virðulegur forseti, kurteislega. Hæstv. umhvrh. var kveðinn í kútinn eða lét kveða sig í kútinn á þeirri ráðstefnu og kom síðan inn í þingið með annað frv. til skipulags- og byggingarlaga sem byggði á stefnu þeirra sem höfðu náð saman í andstöðunni hér á Alþingi úr Framsfl. og Sjálfstfl. gegn þeirri stefnu að það yrði ein og sérstök stjórnsýslueining á miðhálendinu og farið yrði í þann farveg sem síðan hefur verð unnið eftir og lögfest var með sérstakri breytingu á skipulagslöggjöfinni, mál nr. 455 á þinginu 1992--1993, 116. þingi og það er umhvrh. úr Alþfl. í þáv. ríkisstjórn sem hefur forustu um þetta mál. Og frekar en það ástand héldi áfram að allt þróaðist skipulagslaust á miðhálendi landsins og menn kæmust ekkert áfram með drög að skipulagi þar, þá urðu sammæli um það, í ljósi þess að lokað var leiðum af pólitískum meiri hluta á Alþingi fyrir sérstakri stjórnsýslueiningu á miðhálendinu, hopa í það víg frekar heldur en ekkert yrði að gert og allt þróaðist svona, að fallast á það með bráðabirgðaákvæði við skipulagslöggjöfina sem sú vinna að skipulagi miðhálendisins sem síðan var fylgt hefur farið eftir, skipulag sem nú liggur fyrir. Umsagnarfrestur rennur út 10. desember hafi menn gleymt því.

Og það er svolítið sérkennilegt, verð ég að segja, virðulegi forseti, að talsmenn Alþfl. hér á Alþingi --- ber ég þó fulla virðingu fyrir grunnsjónarmiðinu því að það er hið sama eða svo taldi ég vera á sínum tíma eins og var hjá okkur alþýðubandalagsmönnum og við höfum fylgt sem meginsjónarmiði að það bæri að fara með miðhálendið sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu --- skuli koma með það sem alveg sérstakt gagnrýnisefni hér í þingið að unnið skuli með þessum hætti sem umhvrh. bar hér fram og óskaði lögfestingar á á þeim tíma sem Alþfl. fór einnig með formennsku í umhvn. þingsins. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson var þar formaður.

(Forseti (GÁS): Ef forseti má ónáða hv. þm. (HG: Já, með ánægju.) andartak, ekki vegna þessarar ræðu hér heldur af því ég rek augun í það að klukka þingmannsins er stopp (HG: Þingmannsins? Nei. Hún gengur.) Klukkan í ræðustólnum hefur stöðvast. (HG: Forseta.) Nei, klukka forseta er ágæt líka. En ég vil vekja athygli þingmannsins á því að hann á þrjár og hálfa mínútu eftir af ræðutíma sínum og ber þá ekki að taka neitt mið af þeirri klukku sem er í ræðustól.)

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ábendinguna. Mín innbyggða klukka hafði sagt mér það nákvæmlega að þannig stæði á að það væri um það bil þrjár og hálf mínúta eftir og ég hafði einmitt byggt mál mitt upp samkvæmt því.

Virðulegur forseti. Þetta er staða málsins og mér finnst að það skorti mjög verulega á það í umræðu á Alþingi og í umræðunni úti í þjóðfélaginu að menn hafi gert sér grein fyrir því hvernig menn hafa verið að taka á málum hér á undanförnum árum allar götur síðan 1990 í sambandi við það efni sem hér liggur fyrir því að það er alveg ljóst að þegar hæstv. þáv. umhvrh., Eiður Guðnason, ber sitt frv. fram og það er lögfest þá er grunnhugsunin að baki, og það get ég sýnt fram á hér rækilega, sú að landinu verði skipt upp milli sveitarfélaga. Það er grunnhugsunin þar að baki. Annars hefði þetta skipulagsferli aldrei verið sett svona og það var beinlínis vísað til þess að væntanleg skipulagslöggjöf sem var lögfest hér á Alþingi tæki við þar sem heimildir skorti samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu sem lögfest var þarna. Þannig gengu menn frá þessu máli hér sl. vor með samþykkt á skipulags- og byggingarlögum Ef ég man rétt, var frá því gengið einróma hér á Alþingi. Menn verða að horfast í augu við það hvað við höfum verið að gera burt séð frá því þó við séum ekki sammála grundvallarstefnunni. Síðan kemur ríkisstjórnin með málið í þeim búningi sem hæstv. félmrh. leggur hér fyrir og það er sannarlega gagnrýni vert að ekki skuli fylgjast að frv. um þjóðlendur og þau frumvörp sem hér eru og að það skuli skarast, svo að ekki sé meira sagt, rekast á jafnvel í mikilvægum efnum, málsmeðferðin og skírskotun þess frv. sem hér er og þeirra ákvæða sem við þekkjum úr frv. um þjóðlendur á síðasta þingi. Það gerir það. Hvar er það tíðkanlegt að forsrh. geti gengið inn í skipulagsheimildir og kvaðir sveitarfélaga sem eru skýrar samkvæmt skipulagslögum og við höfum lögfest hér? Það verður að breyta skipulagslöggjöfinni að sjálfsögðu til samræmis ef það á að verða sjónarmiðið og sem mér sýnist að eigi hér stuðning margra og mér finnst alveg sjálfsagt að athugað verði.

Ég vara hins vegar við þeirri bjartsýni sem mér fannst koma fram í máli t.d. hv. 4. þm. Vestf. að allt miðhálendið verði í krafti hugsanlegra laga um þjóðlendur orðið að þjóðareign eða almenningseign. Vonandi sem mest, en ég er ekki búnn að sjá að það nái til þess og þá er eftir vandinn að greina á milli hvernig með skuli farið. En þessi málsmeðferð að forsrn. eigi að grípa inn í og sveitarstjórnir hafi aðeins heimild til ársins til ráðstöfunar og ellegar þurfi þær að leita til forsrn., ekki til ráðuneytis skipulagsmála er einkennileg. Það má vera til forsrn. eða þess sem fer með eignarrétt ríkisins, að leitað sé til þeirra. Þetta er satt að segja mjög kynlegur grautur sem verið er að leggja hér fyrir þingið.

Virðulegur forseti. Margt mætti fleira um þetta stóra mál segja. Það er auðvitað gífurlega þýðingarmikið að ná saman um hvernig með skuli farið varðandi skipulag á miðhálendinu. Það er gífurlega þýðingarmikið mál og við náðum því þó í sambandi við skipulagslöggjöfina að tryggja það að allur almenningur á Íslandi, og það var breyting frá því frv. sem hæstv. ráðherra bar hér fram, hvar sem hann byggi, hefði rétt til að gera athugasemdir við skipulagstillöguna um svæðisskipulag miðhálendisins. Vonandi hafa margir nýtt þann rétt og klukkan gengur til 10. desember ef menn vilja koma þar að athugasemdum.