Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:32:40 (1729)

1997-12-05 12:32:40# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:32]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. kom að tveimur atriðum sem ég vildi gera örlitla grein fyrir. Það er varðandi 11. gr., heiti sveitarstjórna. Það varð um þetta málamiðlun í þeirri nefnd sem undirbjó frv. og ég get sagt það alveg hreinskilnislega að málamiðlunin varð vegna þess hve mönnum er annt um heitið ,,borgarstjórn Reykjavíkur``. Ég tel að nefndin verði að taka þetta til athugunar. Það var þá ekki farið í það úr því að samkomulag náðist ekki um að breyta ákvæðum um nöfn annarra sveitarstjórna. En ég tel sjálfsagt að þetta verði skoðað í nefndinni en hygg að þau sjónarmið munu koma inn að borgarstjórn Reykjavíkur haldi sínu nafni og það er það sem nefndin féllst á.

Varðandi sýslumörkin þá er það alveg rétt og ég gerði mér grein fyrir því að sýslur eru ekki lengur til og ef það er hægt að skýra þessi ákvæði í meðförum nefndarinnar, þá er gott eitt um það að segja. Það sem er átt við þarna eru umdæmamörk sýslumanna og þau fylgja víðast hvar gömlu sýslumörkunum en það er að sjálfsögðu hlutverk nefndarinnar sem fær þetta til meðferðar, félmn., að fara yfir þetta ákvæði og lesa það saman við þá löggjöf sem í gildi er.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fara út í það stóra mál sem ræðumaður gerði hér að umræðuefni í meginhlutanum af sinni ræðu. Ég er hér á mælendaskrá á eftir og get þá gert grein fyrir minni afstöðu til þeirra mála.