Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:34:50 (1730)

1997-12-05 12:34:50# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:34]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Austurl., Jóni Kristjánssyni, fyrir viðbrögðin. Ég skil það svo að það hafi fyrst og fremst verið talsmenn Reykjavíkur sem hafi viljað hafa lögtryggingu fyrir því að mega kallast borgarstjórn. Mér finnst það mikið efamál svo ekki sé meira sagt hvort það sé nauðsynlegt að undirbyggja slíkt með lögum frekar en ýmislegt annað á sama tíma og menn eru að koma hér almennum ákvæðum á varðandi þessi heiti. ,,Orður og titlar og úrelt þing`` segir einhvers staðar og mér finnst að menn þurfi að taka tillit til þess að það á ekki heima í löggjöf um sveitarstjórnir. Það er eitt stjórnsýslustig. Það á að vera eitt meginheiti fyrir hvern þátt máls og síðan heimildir fyrir þá sem vilja nota orður og titla eða sérnafngiftir sem byggja á hefð og ekkert er nema gott um að segja, ef menn vilja varðveita það. En það er ekki til að auka skilning á sveitarstjórnarstiginu. Það er nefnilega kostur að menn átti sig á því að Mjóifjörður og Reykjavík standa nákvæmlega jafnfætis að því er varðar stjórnsýsluna sem stjórnsýslustig, nákvæmlega jafnfætis.

Varðandi sýslumörkin þá var því vikið að mér á leið í ræðustól af vísum manni, virðulegur forseti, að sýslna væri getið í stjórnarskrá og auðvitað ber að skoða það. En það er margt mjög óljóst í meðferð varðandi sýslur og þær voru lagðar af með lögum, hafa ekki haft lagastoð síðan 1986 að mér sýnist.