Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:40:22 (1733)

1997-12-05 12:40:22# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:40]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Allt er á sínum stað sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um þetta efni nema kannski að því leyti til varðandi þjóðlendufrv. að þar er náttúrlega ekki ljóst og verður ekki ljóst um alllangan tíma þar til dómar hafa gengið eða þar til mál hafa skýrst varðandi eignarréttinn, hvar heimildir þess ráðherra byrja, hvort það er forsrh. eða annar ráðherra sem fer með það, þ.e. íhlutunarrétturinn varðandi skipulagsmál og þau ákvæði sem vikið er að í frv. um þjóðlendur eins og það lá fyrir þinginu í fyrra. Ég held að það geti orðið allsnúið efni að ganga frá skipulagsþættinum á meðan og það sé mjög brýnt að þingið vinni úr því máli þannig að það verði sem skýrast. Ég er sammála hv. þm., virðulegur forseti, um það að vonandi verður það sem stærsti hluti af hálendinu sem flokkast undir að vera þjóðlenda, þ.e. ríkiseign, og sú hefur verið stefna Alþb. sem hefur viljað koma ákvæðum um þau efni inn í lög og stjórnarskrá. En þetta er ekki fullljóst.

Eftir stendur líka að ákvæði frv. um þjóðlendur, eins og það var kynnt á síðasta þingi, er mjög sérkennilega fram sett í ýmsum efnum að því er snertir íhlutunina og samskipti sveitarstjórna sem þar eru nefndar --- þar er jú stefnan að landinu sé skipt í sveitarfélög --- og allsbjóðanda sem ræður yfir væntanlegum þjóðlendum.