Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:44:18 (1735)

1997-12-05 12:44:18# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:44]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum væntanlega sparað okkur langar orðræður varðandi frv. sem ekki liggur hér fyrir en væntanlega kemur fljótlega og þá efni til að ræða það. En ég vek athygli á því að málið er nú flóknara heldur en mér finnst hv. þm. túlka það m.a. samkvæmt frv. sem lá fyrir í fyrra þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki forsætisáðherra. Rísi ágreiningur um veitingu leyfa samkvæmt þessari málsgrein sker forsætisráðherra úr honum.``

Þannig er þetta orðað í frv. frá því í fyrra og ég sé ekki út af fyrir sig að það sé nein kúvending í þessu frá þeirri meginstefnu sem liggur í skipulagslöggjöfinni og því frv. sem hér liggur fyrir. Því miður er það nú svo að þó að verulegur hluti af miðhálendi Íslands yrði úrskurðaður ríkiseign og með þeim íhlutunarrétti og því valdi sem forsrh. eða einhver annar ráðherra --- ég held að það ætti nú að vera umhvrh., ráðherra skipulagsmála --- hefði, þá er langt frá því að tryggð séu þau sjónarmið sem margir bera fyrir brjósti, þ.e. verndunarsjónarmið, náttúruverndin og þau atriði. Það er mjög langt frá því, því miður, að tryggt sé það sjónarmið að þau þurfi að fylgjast að. Menn skulu hafa það ríkt í huga. Þess vegna skiptir máli að það skipulag sem nú er til umsagnar og þau sjónarmið mörg ágæt, verndunarsinnuð sjónarmið sem er að finna í þeirri tillögu, nái fram að ganga og menn styðji við þau á þessu stigi máls hvernig svo sem réttarstaðan verður síðar.