Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:46:34 (1736)

1997-12-05 12:46:34# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:46]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta frv. ber nokkuð sérkennilega að þar sem eitt helsta efni þess er falið í ákvæði til bráðabirgða en það ákvæði var lagt fram sem sérstakt þingmál á síðasta þingi. Í þessu ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að núgildandi sveitarfélagaskipan framlengist upp til jökla.

Það þarf að hafa skýrt í huga að í frv. er ekki á nokkurn hátt að kveða á um eignarhald á landi, ekki eignarhald sveitarfélaganna eða neitt þess háttar, heldur er kveðið á um í þessu tiltekna ákvæði að sveitarfélögin fari með viðamikið vald sem tengist þessum svæðum, fari með stjórnsýsluvald, m.a. á sviði skipulagsmála, umhverfismála, heilbrigðismála og fleiri þátta sem falla undir verkefni sveitarfélaga. Aðferðin í frv. er fráleit að mínu mati, herra forseti. Það er ekki eðlilegt að tiltölulega fámennur hópur þjóðarinnar fari með skipulagsmál, stjórnsýslu og ákveði reglur um nýtingu eða vernd þessa landsvæðis sem þjóðin telur til sameignar. Við erum að tala um 40% af Íslandi. Svæðið sem frv. tekur til er um það bil 40%, 42% svo að nákvæmt sé orðað. Að svo mikilvægir þættir fari algerlega í umsýslu um það bil 4% þjóðarinnar er ekki eðlilegt.

Það er ekki sanngjarnt að þessi fámenni hópur, þ.e. núverandi sveitarfélög, fái heimild til nýtingar sameiginlegs lands eins og felst í frv. Þetta er alveg sama aðferðin, herra forseti, og við höfum víða annars staðar í þjóðfélagi okkar, tengist t.d. umræðunni um fiskimið. Þar búum við við kerfi þar sem tiltölulega fáum er úthlutaður nýtingarréttur á sameign þjóðarinnar. Án þess að ég ætli að fara nánar út í það vil ég vekja sérstaka athygli á ákveðnu samhengi hér á milli.

Hæpið er að sveitarfélögin sem fá þetta aukna verkefni búi yfir þeirri sérþekkingu á sviði skipulagsmála, heilbrigðismála, byggingarmála, vistfræði, náttúruvernd, ferðamálum og mengunarmálum. Þetta er ekki sagt neikvætt gagnvart sveitarfélögum landsins en mörg þeirra sem fá það verkefni, sem lagt er upp með í frv., eru einfaldlega vegna smæðar, og jafnvel þó að þau sameinist og stækki nú eitthvað, ekki í stakk búin til að vinna að þessum málaflokki eins og vel væri.

Frv. tengist vitaskuld fyrirhugaðri löggjöf um þjóðlendur sem hefur verið nefnt en hæstv. forsrh. greindi frá því að það yrði lagt fram óbreytt á þessu þingi fyrir utan gildistökuákvæði. Kjarni þess frv. er að íslenska ríkið er lýst eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum, þ.e. í þeim hluta landsins sem er utan einkaeignar. Þetta er mjög mikilvæg löggjöf og er studd af okkur jafnaðarmönnum.

Þau landsvæði sem munu falla í flokk þjóðlendna hafa að stærstum hluta verið nýtt sem afréttur og sérstök nefnd verður skipuð sem á að skera úr um mörk.

Í þessu þjóðlendufrv. er kveðið á um að leyfi forsrh. þurfi til nýtingar vatns- og jarðhitaréttinda, svo og nýtingar hvers kyns jarðefna í þjóðlendum. Hann gefur leyfi til afnota á landi, til hagnýtingar á þessum réttindum. Sveitarstjórnir munu veita leyfi til nýtingar lands innan eins árs eða skemmri tíma, annars þarf leyfi forsrh. Þetta upplegg og þessi stefna var staðfest í orðum hæstv. forsrh. hér áðan. Það er alveg augljóst á þessu að hugsunin í þjóðlendufrv. og löggjöfin sem félmrh. er að mæla fyrir stangast á. Það var raunverulega staðfest í orðum hæstv. forsrh. áðan þegar hann dró upp meginþætti þjóðlendufrv. og greindi sérstaklega frá forræði forsrn. í þeim málaflokkum sem tengjast ákvæðinu til bráðabirgða. Það var augljóst af málum hæstv. forsrh. að hann túlkaði að sú stefna sem væri í þjóðlendufrv. gengi lengra en stefna ríkisstjórnarinnar og lagði meira að segja upp með það að nefndin yrði að sinna samræmi hér á milli.

Augljóst er að hæstv. forsrh. stóð ekki að baki félmrh. við túlkun á því frv. sem er til umræðu, þvert á móti. Ekki var hægt að skilja orð hæstv. forsrh. öðruvísi en svo að þessu frv. hæstv. félmrh. og annarri löggjöf verði breytt til að það samræmist frv. um þjóðlendur. Við erum eina ferðina enn, herra forseti, að upplifa það að forsrh. tekur frumkvæðið, tekur fram fyrir hendur á ráðherrum í ríkisstjórn sinni. Þetta fer að verða regla frekar en hitt. Auðvitað verðum við að bíða úrvinnslu málsins en ekki var hægt að skilja hæstv. forsrh. öðruvísi en svo yrði unnið að málinu.

Mjög sérkennilegt við þetta mál er líka að það skuli vera laumað inn í frv. í ákvæði til bráðabirgða. Þannig var, herra forseti, að þingflokkur Sjálfstfl. vissi ekki um þetta ákvæði í miðri viku að það væri inni í því frv. sem væri fyrirhugað að ræða hér í gær. Það kom greinilega fram í samtölum við þingmenn Sjálfstfl. og ráðandi menn í þeim þingflokki að þeir höfðu ekki áttað sig á þessu samhengi. Auðvitað er þetta mjög sérkennilegt mál og sýnir kannski betur en margt annað hvernig vinnubrögðum er háttað í ríkisstjórninni.

Það er líka mjög mikilvægt að hafa í huga skýringarnar við ákvæðum til bráðabirgða þar sem er vitnað mjög í samvinnunefnd sem hefur verið að vinna að þáttum í þessu skipulagi með hvaða hætti skuli vera staðið að þessu. Það má gagnrýna að þetta skuli vera byggt á framtíðarsýn fulltrúa 12 sveitarfélaga og 2/3 hlutar þjóðarinnar koma ekki að því borði. Vitaskuld, herra forseti, er til vansa að menn ætli sér að kveða á um svo mikilvægan þátt eins og felst í hugmyndum félmrh. í ákvæði til bráðabirgða, að menn sýni þessu mikilvæga máli sem tengist 40% af landinu ekki meiri virðingu en svo við að búa því til betri lagaumgjörð en setja það í ákvæði til bráðabirgða. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Þessi frumvörp samrýmast ekki. Benda má á að samspil landnýtingar og náttúruverndar er náttúrlega hápólitískt mál sem snertir landið allt og því eðlilegt að mun fleiri komi að því máli en einungis er gert ráð fyrir hér.

Vitnað hefur verið til álitsgerðar Tryggva Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns um að þessi frumvörp stangist ekki á og ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í lagaflækjur en ég vil benda á að ekki ómerkari maður en t.d. prófessor dr. Gunnar G. Schram er gagnstæðrar skoðunar hvað varðar þessi tvö frumvörp. Þau stangast að mati hans á og í meginatriðum skiptir það kannski ekki höfuðmáli nema að því leyti að við þurfum að hafa ljósa stefnu um skipulagsmál og forræðismál á miðhálendinu. Þá er komið að, sem rifjað var upp, hinni ágætu stefnu sem birtist í frv. sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi af þáv. umhvrh. Eiði Guðnasyni en þar var talað um að miðhálendið yrði sérstakt umdæmi að því er tekur til skipulagsmála og byggingarmála og það væri umhvrh. sem færi með yfirstjórn þeirra mála. Þessi stefna var mörkuð mjög skýrt og eins og hefur verið rakið, þá fékk hún ekki pólitískt brautargengi á þeim tíma. Að mínu mati er hún rétt eftir sem áður og það er einmitt út frá þessari hugsun sem þarf að vinna og útfæra frv. um þjóðlendur, að tryggja að miðhálendið sé sérstakt umdæmi. Hvort það sé þá fellt inn í sveitarstjórnarlögin sem sérstakt sveitarfélag og gildi um það sérstakar reglur er vitaskuld hægt að gera en það er þá önnur stefna en kemur hér fram í ákvæði til bráðabirgða því að það er alveg ljóst hver stefna hæstv. félmrh. í þeim efnum er. Hún er sú að framlengja ekki aðeins mörkin með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir heldur að sveitarfélögin fái það stjórnsýsluhlutverk sem þeim að öðru jöfnu eru tryggð í löggjöf. Það er sú stefna sem við erum að andmæla, erum á móti og finnst vera óskynsamleg og getum bent til stuðnings þess að þau ákvæði í þjóðlendufrv. ríkisstjórnarinnar eru miklu nær og reyndar byggð á gömlum hugmyndum okkar jafnaðarmanna. Það frv. er skynsamlega útfært vegna þess að það gerir ráð fyrir að forsrh. fari með yfirstjórn og setji reglur um nýtingu og verndun auðlinda miðhálendisins en jafnframt að staðbundin yfirvöld eins og sveitarfélög komi að málinu með skammtímaráðstafanir. Hér er lagt upp með ákveðið samstarf, ferli gagnvart þeim aðilum sem málið varðar því að vitaskuld, herra forseti, snýst þetta ekkert um það að rýra möguleika sveitarfélaganna að koma að málefnum sem tengjast nágrenni þeirra. Enginn er að tala um það heldur miklu frekar að leggja upp með skynsamlega stjórnsýslu á þessum stóru svæðum sem eru sameign þjóðarinnar.

Það væri e.t.v., herra forseti, hægt að varpa fram þeirri hugmynd vegna þess að ég dró samasemmerki milli þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar á miðhálendinu og annarra auðlinda sem eru í sameign, að það ætti e.t.v. að hugsa út frá því að hafa sérstakan stjórnsýsluaðila sem sé með málefni sameiginlegra auðlinda okkar. Það gæti þess vegna verið sérstakt ráðuneyti sem hefði umsjón og stjórnsýsluhlutverk á þáttum sem snerta miðhálendið. Það geta verið þættir sem snerta vatnsorku, jarðvarma og aðra slíka þætti og í því sambandi má benda á frumvörp okkar jafnaðarmanna sem voru lögð fram á síðasta þingi sem snerta útfærslu á virkjunum og öðrum sameiginlegum auðlindum í jörðu hvort sem það er jarðvarmi eða aðrir þættir.

Þetta ráðuneyti eða auðlindaráðuneyti, ef við köllum það svo, ætti þá vitaskuld að hafa umsjón með fiskimiðunum líka og ýmsum þeim náttúruperlum sem eru í eigu allrar þjóðarinnar. Það væri e.t.v. ekki fráleitt, herra forseti, að við hugsuðum okkur sérstakan stjórnsýsluaðila sem fyrir hönd landsmanna færi með allar þær auðlindir og skipulag þeirra og stjórnun þar sem þarf að gæta að sameign okkar. Þetta getur einnig tengst þeirri umræðu sem er vaxandi bæði hérlendis og erlendis varðandi gjaldtöku gagnvart auðlindum í umhverfismálum en slík hugsun gagnvart skattlagningu hins opinbera hefur fest rætur mjög víða erlendis og sú umræða er reyndar að hefjast hér.

(Forseti (GÁS): Forseti biður forláts. Við það var miðað að gera hlé á fundinum kl. 1 og að honum yrði fram haldið kl. 13.30 en þá hefst hann með atkvæðagreiðslu. Forseti telur hyggilegt að halda sig við tímann 13.30 þar sem þingheimi hefur verið tilkynnt um þá atkvæðagreiðslu. Nú liggur fyrir að tveir hv. þingmenn hafa beðið um andsvar við ræðu hv. þm. og vill forseti fara þess á leit við hv. þm. að hann fresti ræðu sinni og haldi áfram eftir atkvæðagreiðslu kl. 13.40.)

Það er sjálfsagt að verða við því, herra forseti.