Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 13:52:48 (1740)

1997-12-05 13:52:48# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:52]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mig undrar dálítið orð hv. 11. þm. Reykn. þar sem hann segir að það eigi ekki að snúa þessu upp í baráttu dreifbýlis gegn þéttbýli eins og ég hafi verið að gera. Ég minntist ekkert á það. Ég tel að það eigi að skipa þessum málum í þágu allrar þjóðarinnar og þau frumvörp sem í vændum eru eigi að gera það, frv. um þjóðlendur og frv. um eignarrétt á auðlindum í jörðum og fleira. Það er þessi prósentureikningur sem hv. þm. er að æfa í ræðustól, eins talnaglöggur og hann er, sem snýr þessu upp í slíkt þrátefli sem mér finnst miður. Ég hef ekki minnst á dreifbýli eða þéttbýli. Ég tel að þetta sé vantraust á þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli og ég bendi á að meiri gerjun er í stjórnsýslu sveitarfélaga en í stjórnsýslu ríkisins. Sveitarfélögin eru að styrkjast og verða sterkt stjórnsýslustig og ríkisvaldið mætti gjarnan taka sér þann sóknarhug til fyrirmyndar. Þess vegna vil ég segja að ég skil ekki þegar hv. þm. segir í öðru orðinu að þetta sé ekki vantraust á sveitarfélögin og segir svo í hinu orðinu að þau séu ekki í stakk búin og vanbúin til að vinna að þessum málaflokkum.