Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 13:56:38 (1742)

1997-12-05 13:56:38# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson fjallaði nokkuð í máli sínu um eignarréttarmál og nefndi Alþfl. í því sambandi. Það er rétt að Alþfl. hefur komið að þeim málum og haft sjónarmið sín þar. Alþb. hefur hins vegar gengið lengra í þessum efnum með því að leggja til beinar tillögur í tvo áratugi um það að eignarréttaryfirráð verði ákveðin með stjórnarskrá á svæðum sem menn tala almennt um sem miðhálendi landsins. Fyrir þinginnu liggur sérstakt frv. um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins flutt af Ragnari Arnalds og okkur fleiri þingmönnum Alþb. um þetta. Svipað frv. hefur margoft veri flutt í þinginu.

Hv. þm. nefndi þá hugsun að sérstakt auðlindaráðuneyti yrði stofnað. Það kemur vissulega til álita. Ég held hins vegar að það væri ráð áður en að því kæmi að setja á fót sérstaka deild auðlindamála innan umhvrn. Það er ekki flókin aðgerð skipulagslega séð, auðlindadeild sem safnaði upplýsingum og héldi utan um rannsóknir á sameiginlegum auðlindum okkar, ekki síst lífrænum auðlindum okkar og færi með þau efni. Ég held að menn eigi að líta miklu meira til umhvrn. í þessum efnum, m.a. varðandi þjóðlendur og meðferð þjóðlendna. Ég er ekki hrifinn af þeirri hugsun að forsrh. landsins verði þar yfirbjóðandi og ég er ansi hræddur um að það bjóði upp á margháttaða togstreitu ef allt annar aðili en fer t.d. með skipulagsmál í landinu ætti að fara með málefni sem tengjast auðlindum væri að grípa inn í þar með ákvörðunum. Ég vara hv. þm. a.m.k. fyrir fram að setjast á sama hest og ríkisstjórnin í þessum málum, eða hæstv. forsrh., því að ég er ekki búinn að sjá að það frv. um þjóðlendur leysi efnin í öllum greinum og að því er þetta varðar.