Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:04:15 (1745)

1997-12-05 14:04:15# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:04]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ættum að geta orðið sammála um að jákvætt sé að þessi mál eru að þokast áfram hvað varðar eignarrétt á miðhálendi og annars staðar. Ég fagna öllum þeim skrefum sem hér hafa verið stigin á undanförnum áratugum, sama úr hvaða flokki tillögurnar hafa komið. Ég ætla ekkert að fara inn í einkaréttarumræðu hvað þann þátt varðar.

Hins vegar vil ég draga það fram að vitaskuld er stækkun sveitarfélaga jákvæð. Þau verða þá betur í stakk búin til að taka á sig fleiri verkefni. Meginþátturinn í gagnrýni minni hefur samt sem áður verið sá að hér er um að ræða slíkt verkefni að það sé óeðlilegt að fela það einstökum sveitarfélögum. Hér væri miklu betra að fara með sérstakt sveitarfélag í þeirri umsýslu og breyta engu þær stækkanir sem eru að verða á sveitarfélögum. Ég kann alþýðuflokkssöguna vel en eitthvað er hún mér ókunnug, að það hafi verið stefna Alþfl. hér fyrr á árum að vantreysta fólkinu til að sjá um þessi mál --- það er rangtúlkun á stefnu flokksins og á ekki við í þessum efnum. Ég held að það sé meginatriði að þessu mikilvæga máli sé fundinn skynsamari farvegur en gert er ráð fyrir í frv. félmrh. Vitaskuld þarf að skoða önnur lög í þessu sambandi og ég veit að ég get treyst á liðsinni hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar til að leggja sitthvað af viti til þeirrar umræðu.