Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:26:57 (1747)

1997-12-05 14:26:57# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:26]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Tilefni þess að ég bað um andsvar eru þau ummæli hv. þm. að ef frv. verður sniðið eins og það liggur fyrir og eins og ég hef tekið undir og reyndar flutt sérstakt mál um að einfalda jafnt ákvæði varðandi heiti sveitarfélaga og starfsmenn sveitarfélaga sé verið að gera íslenskt mál fátækara. Þetta er mikill misskilningur. Þvert á móti er verið að opna fyrir miklu meiri fjölbreytni og möguleika, bæði varðandi nafngiftir sveitarfélaga og ef svo vill, þá einnig stöðuheiti ef menn svo kjósa. Hins vegar er verið að reyna að draga lagarammann skýrt og gera hann tiltölulega einfaldan þannig að sá sem er í forsvari fyrir sveitarstjórn sé oddviti. Hvort menn kjósa síðan í samþykktum t.d. sveitarfélagsins og Reykjavíkur að kalla oddvitann borgarstjóra ætti að vera þeirra mál. Að vísu er gerð tillaga um að lögbjóða það hér. Ég vara við því. Eins um sveitarstjórann sem framkvæmdastjóra sveitarfélags, hvort hann heitir síðan samkvæmt samþykkt borgarstjóri eða bæjarstjóri eða eitthvað annað. Það er ekki ástæða til þess að vera að lögbjóða svona. Það hefur t.d. ekki verið gert í hreppunum gömlu. Það er ekki verið að lögbjóða að sá sem hefði það mikilvæga verkefni að hreinsa hunda bæri ákveðið starfsheiti svo að dæmi sé tekið. Það er ekki verið að lögbjóða það en menn hafa þessi starfsheiti eftir sem áður. Nú opnast möguleiki á því að lenda úr þeim vítahring í sambandi við nafngiftir sveitarfélags sem fylgdu gildandi lögum og voru að leiða menn í algerar ógöngur að þurfa að hengja aftan við nafn sveitarfélags ákveðnar endingar, kaupstaður eða bær, sem hefur því miður leitt til skrípanafna sem mörgum sveitarstjórnum líður illa að þurfa að bera þykist ég vita. Nú geta menn valið miklu ríkara. Austur á landi standa menn frammi fyrir að velja nöfn á stærri sveitarfélög sameinuð á héraði og á fjörðum, hvort þeir kalla það í efra eða í neðra. Það gæti vel komið til greina að það verði teknar upp gamlar og gildar nafngiftir í þá veru þó að ég sé ekki að leggja neitt sérstakt til um það hér.