Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 14:29:33 (1748)

1997-12-05 14:29:33# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:29]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að ég hefði tekið skýrt fram í máli mínu að ég var að tala um 11. gr. þar sem talað er um heiti sveitarstjórna, ekki um nafngiftir sveitarfélaga. Ég er alveg sammála þingmanninum hvað það varðar að mér finnst að sveitastjórnir eigi einfaldlega að ákveða það sjálfar og íbúar að fá að kjósa um það hvaða nafn þeir vilja fá á sitt sveitarfélag. Ég var fremur að óttast að í máli þingmannsins fælist að verið væri að afnema svona fallegt heiti eins og hreppstjóri og menn notuðu eingöngu orðið sveitarstjórnarmaður og sveitarstjórn. En ég get í sjálfu sér tekið undir það. Það má velta vöngum yfir því hvort einhver nauðsyn er á að lögbinda þetta. Það er aftur annað mál og menn ganga svo sem oft allt of langt í lagasetningu hvað það varðar.

Auðvitað er það rétt sem hv. þm. segir að það sem skiptir máli er að ljóst sé hvert stjórnsýslustigið er og hvert er hlutverk sveitarstjórnar o.s.frv. Mér finnst þetta ekki vera stórvægilegt atriði en mér finnst bara sómi að því að við skulum kalla sveitarstjóra Reykjavíkur borgarstjóra og annars staðar eru sveitarstjórar eða bæjarstjórar o.s.frv. Mér finnst bara skemmtilegt að sem mest fjölbreytni sé í þessu en það kann að vera rétt að ekki sé nauðsynlegt að lögbinda þetta.