Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:05:21 (1758)

1997-12-05 15:05:21# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:05]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í umræður um fiskveiðimál í þessu sambandi og hef ekki tíma til þess í stuttu andsvari. Fullyrðingar hv. þm um skipulagsvald sveitarfélaganna á miðhálendinu eru mjög óljósar. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa skipulagsvald t.d. á afréttum. Um það er ekki deilt og það er verið að skýra þessi ákvæði. Mér er fullljóst að þetta er umdeilt ákvæði, en menn mega ekki gleyma því að aðgangur þjóðarinnar að þessu máli er tryggður. Síðan er ljóst að það á að halda áfram og kveða nánar á um þjóðlendur og eignarrétt þeirra svæða sem ekki eru undir eignarréttarákvæðum þannig að meginatriði þessa máls liggja ljós fyrir.

Það kom reyndar fram í ræðu hv. 4. þm. Austurl. að hann var ósammála því að fela forsrn. yfirstjórn þessar mála, þjóðlendna og vildi fela það umhvrn. ef ég tók rétt eftir í ræðu hans. Það er sjónarmið út af fyrir sig en hins vegar breytir það ekki eðli málsins. Menn ætla sér að skýra stjórnsýslumörk og í framhaldi af því skýra eignarrétt almennings á miðhálendinu. Þessi grundvallaratriði verða menn að hafa í huga þegar menn ræða þetta mál.