Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:35:25 (1765)

1997-12-05 15:35:25# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:35]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan tel ég að þingið hafi tekið ranga ávörðun þegar ákveðið var að setja málið í þann farveg sem það nú er í, þ.e. í samvinnunefndina um svæðisskipulagið. Ég er búin að lesa forsöguna að verulegu leyti. Það frv. sem Eiður Guðnason lagði fram á sínum tíma fellur mjög vel að þeim hugmyndum sem ég hef í dag um hvernig þessi mál eigi að vera, hvað réttast væri að gera. Eins og hér er búið að rekja var hins vegar ekki vilji til þess, það var enginn pólitískur vilji til þess, því miður. Því er alveg hugsanlegt að það hefði verið skárra í þeirri stöðu, í staðinn fyrir að gera ekki neitt, að setja málið þó í þann farveg sem það er í núna. Hugsanlega hefði það verið skárra, ég skal ekki leggja mat á það. Maður hefur alla vega heyrt þau rök. Vegna þess að skipulags- og byggingarmál voru í algerum ólestri uppi á miðhálendinu hefur þingmönnum sjálfsagt þótt þetta skárra. Ég held að við ættum að staldra við núna og reynda að gera okkar besta í því að vernda miðhálendið til framtíðar og það er ég að reyna að gera með ræðu minni. Ég reyni að segja nákvæmlega frá mínum skoðunum, en ég vil að þetta svæði sé ein heild og ég held að ef við lítum á allar hliðar, þá sé það það eina rétta. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir standa að þessu frv. og ég er með minni rödd hér að reyna að hafa einhver áhrif þar á. Ég skal ekki segja til um hvort það takist.