Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:41:59 (1769)

1997-12-05 15:41:59# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:41]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel vera um svo stórt mál að ræða þegar við ætlum að skipuleggja miðhálendið að það sé mjög óæskilegt að skipta því á milli þessara 40 sveitarfélaga. Það var megininntakið í minni ræðu. Út á það gengur þetta mál. Þetta er ein heild. Og þó sveitarfélögin væru burðugri. Þó þarna byggju allir landsmenn, hver einasti og sveitarfélögin væru færri, þó þau væru fimm, þá væri þetta samt rangt. Það er rangt að skipta miðhálendinu upp.

Varðandi það að höfuðborgarbúar væru að fara þarna upp á miðhálendið á fjórhjóladrifnum farartækjum og eitthvað slíkt, ég gef ekki mikið fyrir þannig röksemdir. En Íslendingar eru almennt að sækja miklu meira upp á miðhálendið en þeir hafa hingað til gert, það er alveg rétt. Áður var torsótt að fara þangað og fáir sem gerðu það, menn fóru frekar annað. En við erum að átta okkur á því æ betur hve mikil verðmæti felast í miðhálendinu og sækjum þangað meira. Ferðamenn sækja þangað einnig og það gerir málið enn þá mikilvægara. Þess vegna er enn þá nauðsynlegra að sátt sé um miðhálendismálið og það sé meiri breidd á bak við skipulagið þar. Það er engin breidd á bak við það að 12 aðilar úr héraðsnefndum sem liggja að miðhálendinu í dag séu að skipuleggja miðhálendið og hafi þar mest vald. Í því er engin breidd.