Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:43:45 (1770)

1997-12-05 15:43:45# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:43]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þm. og ég var sammála þingmanninum í nánast öllu sem hún sagði um að það er mjög mikilvægt að vanda alla vinnu við skipulag sem og ,,nýtingu`` miðhálendisins. En deilan stendur um það hver eigi að bera ábyrgð á skipulaginu og ég fékk ekki svar við því hvenær sveitarfélag verður burðugt til þess að sinna þessari skyldu sinni.

Ég er sammála hv. þm. um að vanda þurfi mjög til þess að skipuleggja miðhálendið. Við erum að sameina sveitarfélög og hæstv. félmrh. hefur verið þvílíkur lukkunnar pamfíll að nú eru þau mál farin að ganga. Við höfum sameinað sveitarfélög til að gera þau öflugri, styrkari og hæfari til þess að sinna þessari skyldu. Það er aðalatriði málsins og ég er ekki tilbúinn að taka undir með hv. þm. um að ekki beri og ekki sé hægt að treysta sveitarfélögunum til þess að sinna þessu verki. Skipulagsmistök verða ekki og eru ekki neitt hlutfall af stærð eða íbúafjölda viðkomandi sveitarfélaga. Það er fjarri lagi. Í mörgum litlum sveitarfélögum hefur verið unnið vel og skynsamlega að skipulagsmálum og ég treysti þeim fullkomlega til þess.