Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:50:06 (1774)

1997-12-05 15:50:06# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:50]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti hér mjög athyglisverða ræðu áðan. Hún skýrði frá því að hennar skoðun á málinu væri sú sama og kom fram í frv. Eiðs Guðnasonar þáv. umhvrh. sem ekki náði þingmeirihluta hér á Alþingi m.a. vegna þess að a.m.k. stór hluti af framsóknarmönnum lagðist gegn þeirri lausn. Hv. þm. lýsti því réttilega að við þær aðstæður hefði reynst nauðsynlegt að finna einhverja leið til þess að halda áfram að þróa þá skipulagsvinnu sem þurfti að vinna. Sú leið var ekki besta leiðin en þó alla vega leið sem þokaði málunum áfram, og það er rétt hjá henni. Hins vegar liggur nú fyrir, eins og hún sagði sjálf, að fulltrúar 25% kjósenda Framsfl. eru nú komnir á þá skoðun að það eigi að hverfa til hins fyrra horfs, hverfa til þess horfs sem ekki var þingmeirihluti fyrir á Alþingi árið 1991--1992 og af því tilefni hef ég eina spurningu fyrir hana að leggja. Hv. þm. las upp úr samþykkt framsóknarmanna á Reykjanesi, fjórðungs kjósenda Framsfl., sem væntanlega hefur verið gerð einróma. Er hún þá ekki að mæla fyrir hönd beggja þingmanna flokksins úr kjördæminu þegar hún lýsir því yfir að hún sé ekki sammála þeirri leið sem hæstv. félmrh. hefur valið og telur hún ekki að líklegt sé að flokkssystkini hennar hlusti á raddir fjórðungs kjósenda flokksins?