Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 16:10:08 (1778)

1997-12-05 16:10:08# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[16:10]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram á fundinum að kjördæmissamtök framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi töldu sérstaka ástæðu til þess að taka þetta mál upp og álykta gegn stefnu hæstv. ráðherra og auðvitað gera menn það ekki að gamni sínu. En það ætti að verða til þess að hæstv. ráðherra væri það ljóst að jafnvel í hans flokki er ekki sátt um þetta mál. Hann segir að það sé af hinu góða að bæði orkugeirinn og ferðamálageirinn séu óánægðir með málið. Telur hann að það sé þá af því góða að kjördæmissamtök framsóknarmanna í Reykjaneskjördæmi séu líka óánægð með málið? Eru það meðmæli með málinu að mati hæstv. ráðherra?

Hæstv. ráðherra talaði áðan um það sem hæstv. forsrh. sagði í morgun. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að hæstv. forsrh. sagði í morgun að hann legði áherslu á að þjóðlendufrv. og þetta frv. yrðu samferða í gegnum þingið þannig að menn gætu samræmt þau. Hæstv. forsrh. leggur með öðrum orðum ekki til að frv. verði afgreitt sérstaklega eins og hæstv. félmrh. leggur það fram.

Í öðru lagi tók hæstv. forsrh. fram að í þjóðlendufrv. væri gert ráð fyrir því að vald sveitarfélaga í skipulagsmálum væri aðeins til bráðabirgða og að þeim væri ekki ætlað að taka ákvarðanir nema til bráðabirgða. Einnig minntist hann sérstaklega á að þær ákvarðanir væru við það miðaðar að þær stæðu ekki nema í eitt ár. Það liggur því alveg fyrir, herra forseti, hvaða skilaboð hæstv. forsrh. er að senda alþingismönnum.