Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 16:19:47 (1784)

1997-12-05 16:19:47# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[16:14]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ósköp fór nú lítið fyrir þessu svari, hæstv. félmrh. Kjarni málsins er sá að þjóðlendufrv. er mikilvægt vegna þess að þar er verið að eyða óvissu um eignarhald á hálendinu og auðlindum þess, óvissu sem Alþingi hefur látið eiga sig árum og áratugum saman. Meginþráðurinn í því frumvarpi er skýr. Að skera úr um og eyða óvissu um eignarhald og reyndar um nýtingu og framkvæmd í öllum meginmálum. Hvað vakir fyrir hæstv. félmrh. þegar hann færir umdæmi sveitarfélaga upp í jökla? Með því er hann auðvitað að reyna að skapa óvissu um framkvæmdina. Tökum dæmi: Upp kemur stórt mál í þjóðfélaginu. Það getur varðað annaðhvort kröfur um meiri háttar nýtingu, við skulum segja á fallvötnum sem fæli í sér jarðrask, vegalagningu, línulagnir og tæki yfir málefni mjög margra sveitarfélaga. Sveitarfélögin eru að sjálfsögðu ráðandi innan sinna marka um skipulagsmálefni en kannski væri líklegra en ekki að upp kæmi ágreiningur milli þeirra innbyrðis. Hvað væri verið að bjóða upp á? Boðið væri upp á fullkominn skipulagsglundroða og stjórnsýsluglundroða og hefðbundnar íslenskar deilur um það hver eigi nú að ráða hverju. Að vísu er í þjóðlendufrv. kveðið á um það að forsrh. hafi á málum tök þannig að hann kveði úr um allt nema minni háttar framkvæmdir. En þá spyr maður: Til hvers er hæstv. félmrh. að þessu? Annars vegar er verið að reyna að eyða óvissu sem er mjög þarft mál. Hins vegar er viljandi eða óviljandi verið að að skapa óvissu og glundroða í stjórnsýslu landsins með ófyrirsjáanlega hættulegum afleiðingum.

[16:21]