Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 17:21:58 (1789)

1997-12-05 17:21:58# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[17:21]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér er til umræðu er að mörgu leyti mjög merkilegt að mínu mati og þá sérstaklega þegar frv. sem væntanlegt er um þjóðlendur bætist við. Þá tel ég að hnýttir verði mjög margir lausir endar sem varða lögsögu og eignarhald í landinu öllu, ekki síst á hálendinu sem hingað til hefur verið óljóst mörgum og tímabært að taka á því og þó fyrr hefði verið.

Ég vil í ræðu minni fjalla nokkuð vítt um mál sem varða þetta frv. þannig að ég mun ekki einskorða mig við einn ákveðinn lið en vil þó byrja á þeim lið sem mesta athygli vekur hér en það er 1. gr. frv. Ég tel að þar sé tekið mjög eðlilega á málum með því að afmarka með lögum að sveitarfélögin skipuleggi og hafi stjórnsýslu yfir öllu landinu. Nauðsynlegt er að það sé skýrt í lögunum að sveitarfélögin hafi með þetta að gera því í mínum huga getur enginn annar gert það. Alla vega hefur fram að þessu enginn annar en sveitarfélögin skipulagt land til langs tíma og þá um leið uppbyggingu þess, nýtingu og umgengni um það svo vel fari. Á þetta hafa ýmis samtök eins og ferðamálasamtök og náttúruverndarsamtök bent og að mjög brýna nauðsyn bæri til að skerpa þau lög og reglur sem gilt hafa um þessi mál.

Ég held að það sem hér hefur komið fram, um að sveitarfélögin séu smá og vanhæf vegna fámennis að taka á því að skipuleggja land upp að miðpunkti hálendisins, séu engin rök. Ég hef ekki í alvöru heyrt það í þessari umræðu að menn taki undir þau sjónarmið að sveitarfélögin geti ekki stjórnað skipulagi hálendisins vegna smæðar sinnar. Þau hafa fram að þessu sýnt að þau geta sinnt þessu hlutverki og með aukinni ábyrgð sem á þau hefur verið lögð á undanförnum árum, hafa sveitarfélögin einmitt brugðist við með því að sameinast og þannig skapað stærri og sterkari heildir til þess að geta tekið á þeim miklu verkefnum sem til þeirra hefur verið beint á undanförnum árum. Að því leytinu held ég að sveitarfélögin hafi sjálf afsannað kenningar um að þeim væri ekki treystandi til þess að taka á þessu. Þvert á móti hafi þau sýnt að þau væru til þess fullfær.

Þar að auki er að sjálfsögðu um mjög flókin mál að ræða og varðar það þá skipulags- og byggingarlög þegar skipulagt er land. Þar hafa íbúar ákveðinn rétt, notendur og félagasamtök geta gert athugasemdir við skipulag sveitarfélaga. Það varðar ekki einungis íbúana sem eftir því eiga að fara heldur alla þá sem um það eiga að fjalla eða hlíta síðar. Ég held að við eigum ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessum skipulagsþætti varðandi hálendið.

Ég held að menn misskilji þetta og gleymi líka að það eru fleiri svæði en miðhálendið sem mundu falla undir þjóðlendufrv. Þar erum við að tala um jökla. Ég tek tvö dæmi eins og Snæfellsjökul og Drangajökul sem í mínum huga og eftir því sem ég veit best eru ekki í eigu neinna sérstakra aðila. Sveitarfélögin sem liggja að Snæfellsjökli eiga lendur upp að rótum jökulsins og hafa um áratugi nýtt námur eins og vikurnámur alveg upp að rönd jökulsins. Jökulmörkin hafa síðan breyst þannig að landamerki sveitarfélaganna hafa breyst samkvæmt því. En jökullinn sem slíkur hefur að áliti sveitarstjórnarmanna verið almenningseign eða þjóðareign eins og menn hafa viljað kalla það. Ef við ætluðum að gera sérstakt sveitarfélag um miðhálendið, mannlaust sveitarfélag sem þá væri stjórnað frá ráðuneyti, þá værum við a.m.k. með tvö önnur mannlaus sveitarfélög sem væru þessir tveir jöklar, Snæfellsjökull og Drangajökull. Þannig að þá eru komin þrjú mannlaus sveitarfélög undir sérstökum stjórnsýsluákvæðum sem ég held að sé slæmt. Þess vegna tel ég að sveitarfélögin eigi að standa að því skipulagi sem varðar þessa hluta landsins eins og alla hina.

Það eru til ýmsar aðrar leiðir í spilinu sem ætti að skoða og ná sáttum um. Ég geri mér grein fyrir því að þéttbýlisbúum, hér á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu, finnst ekki réttlætanlegt að fámennir hreppar úti á landi ráði þessu. Auðvitað eru það sjónarmið og sjálfsagt að leita leiða til að taka tillit til þeirra. Ég hef ekki heyrt annað á forsvarsmönnum sveitarfélaga og samtökum sveitarfélaga en að þeir séu tilbúnir til þess með því að skipa ákveðna skipulagsnefnd sem yrði bara fyrir hálendið sjálft eða þau mörk sem teldust til þess svæðis sem ekki væri í eigu neins heldur sameign þjóðarinnar ef maður svo mætti orða það. Þar kæmu að þau sveitarfélög sem ættu lögum samkvæmt að hafa skipulag þar ásamt fulltrúum frá höfuðborgarsvæðinu. Þannig gætu komið inn fulltrúar frá Reykjavík og Reykjaneskjördæmum sem yrðu í ákveðinni skipulagsnefnd sem væri að sjálfsögðu skipuð meiri hluta fulltrúa þeirra sveitarfélaga sem lægju að þessum svæðum. Ég tel að sveitarstjórnarmenn vilji reyna að ná sáttum við fólkið hér á höfuðborgarsvæðinu þannig að um þetta geti orðið friður. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn nái sátt um þetta mál.

[17:30]

Varðandi frv. um þjóðlendur þá er, eins og margoft hefur verið bent á, ekki búið að leggja það fram þó svo að það hafi fengið töluverða umræðu. Glöggur maður eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson heldur því fram að ekkert megi gera á hálendinu eftir að það frv. verði að lögum nema til eins árs. Í mínum skilningi lítur það mál þannig út að ekkert megi gera lengur en til eins árs nema með leyfi forsrh. Ef forsrh. gefur heimildir til að skipuleggja land með tilliti til notkunar til 20 ára þá sé það heimilt. Að vera með námurekstur til lengri tíma en eins árs og forsrh. hefur leyft námarekstur í 20 ár þá lít ég svo á að það sé leyfilegt. Ég held að þetta með eitt ár sé fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að þeir sem eigi ekki landið en hafa skipulagsrétt á því séu að misnota það. Og að öðru leyti sé þetta ekkert óeðlilegra en hvað annað sem hægt er að finna og gera tortryggilegt. Ég tel að þessi tvö mál hafi verið mjög snilldarlega vafin saman, þ.e. annars vegar að láta sveitarfélögin sjá um það skipulag sem þau hafa gert hingað til og færa það yfir jökulmörk og þar að auki að tryggja að eignarhaldið, þar sem það er óljóst í dag, verði í höndum þjóðarinnar og þannig verði hægt að skerpa þessar línur sem ég talaði um hér áðan og sætta þjóðina við þá nýtingu sem á hálendinu þarf að vera undir miklu meira skipulagi og eftirliti en verið hefur fram að þessu.

Herra forseti. Ég vil aðeins minnast á 6. gr. sem fjallar um nafngiftir sveitarfélaga. Það hefur verið töluverð íhaldssemi við nafngiftir, þ.e. síðasti liður í nafni sveitarfélaga, svo sem hreppur, sveit, kaupstaður eða borg í því eina tilfelli þar sem um það er að ræða. Byggð er reyndar komið inn líka. Það hefur vafist fyrir mönnum þegar um t.d. sameiningarmál hefur verið að ræða hvernig eigi að tengja menn við sveitarfélög öðruvísi en að hafa eitthvert samheiti. Í sameiningarumræðunum um Snæfellsbæ var kosið um nokkur nöfn og m.a. kom fram nafnið: Undir Jökli. Það vafðist töluvert fyrir mönnum hvernig ætti að heimfæra sig undir því heiti. ,,Ég á heima Undir Jökli.`` Undir jökli þýðir að þú getur átt heima hvar sem er í kringum jökulinn því það eru allir undir jökli í dag samkvæmt þeirri skilgreiningu orðsins. Þetta nær því ansi vítt um svæðið fyrir utan að það er erfitt samkvæmt lögunum að tengja Undir Jökli við bæ. Það gengur ekki upp málfræðilega að tengja þetta byggð, hér er fyrst og fremst verið að hugsa um þéttbýlismyndanir, eðlilegt er að þarna sé eitthvert samheiti þannig að menn átti sig á því hvar viðkomandi bær er í rauninni staðsettur eða hreppur eða byggð. Enda eru þetta gömul orð sem hafa tengst íslensku máli mörg hver í mjög langan tíma. Ég tel því að þarna sé í raun ágæt lausn þó eflaust mætti reyna að finna einhverja fleiri möguleika. En þá finnst mér sjálfsagt að taka það fram í lögunum þannig að það sé nokkur festa í lagasetningu hvað þetta varðar.

Í 23. gr. er fjallað um fundargerðir og hvernig fundargerðir megi færa. Samkvæmt þeirri reglu sem nú er í gildi á að færa fundargerðir inn í fundargerðabók. Samkvæmt þessari grein á að heimila að fundargerðir séu færðar inn í tölvu, prentaðar út og undirritaðar samkvæmt því. Ég þekki það frá nokkrum sveitarfélögum að fundir eru teknir upp á segulband. Sums staðar er þetta reyndar sent beint út í útvarpi. Mér finnst ekkert að því að það sé leyfilegt að taka þetta upp á snældu og geyma það þannig þó svo það sé ekki undirritað. Oft hafa menn velkst í vafa um það hvort þetta væri leyfilegt. En þetta hefur þó verið gert. Mér fyndist að það mætti skoða frekar hvernig geymslu snældanna yrði hagað.

Í 24. gr. er talað um að varamenn komi inn eftir röð. Mér finnst gott að hafa það fast að varamenn komi eftir röð en séu ekki kallaðir inn holt og bolt, jafnvel síðasti maður á lista fyrst vegna þess að aðalmanninum datt það helst í hug og sá var á sama máli og aðalmaður í einhverjum ákveðnum málum. Það hefur oft skapað mikinn glundroða hefur mér fundist í pólitísku starfi og er að mörgu leyti algjör óþarfi enda sjálfsagt að fara að þessu eftir föstum reglum en ekki eftir tilfinningalífi einstakra bæjarfulltrúa og hvernig á stendur í bólið hjá þeim. Ég held að þetta sé gott atriði.

Í 73. gr. er eitt mikilvægt atriði sem varðar ábyrgðir sveitarfélaga. Það eru ekki mörg ár liðin síðan sveitarfélögum var bannað að veita sjálfskuldarábyrgðir. Það hafði verið notað mjög ótæpilega þannig að mörg sveitarfélög voru komin í mjög erfiða stöðu. Þá var því breytt þannig að sveitarfélögin máttu ekki veita annað en einfaldar ábyrgðir. Það hefur einnig verið gróflega misnotað í mörgum sveitarfélögum. Ég þekki dæmi þess að allt að 20% af tekjum sveitarfélags hafi farið til að greiða einfaldar ábyrgðir fyrir eitt einstakt fyrirtæki úti í bæ. Það hefur lengi verið samdóma álit mikils hluta sveitarstjórnarmanna að þetta ákvæði ætti að falla úti. Að takmarka þetta enn meir fyndist mér mjög athugandi og mikið álitamál hvort að heimila eigi ábyrgðir fyrir fyrirtækjum sveitarfélaga. Stofnanir sveitarfélaga sumar hverjar eiga fyrirtæki úti í bæ í hlutafélögum jafnvel og mér sýnist ekkert því til fyrirstöðu í frv. að hægt sé að ábyrgjast eitthvað sem sveitarstjórnirnar eiga eins og fyrirtæki. Ég held að það sé miklu skynsamlegra að ganga alla leið núna og banna ábyrgðir sveitarfélaga nema sem varða stofnanir þeirra sjálfra og þar með taka þennan kaleik frá sveitarstjórnarmönnum sem hefur verið þeim dýrkeyptur í gegnum árin. Sveitarstjórnarmenn hafa oft lent í miklum vanda við að meta annars vegar pólitíska stöðu sína ef ekki yrði gengið að kröfum aðila um ábyrgðir og svo hins vegar að gæta þess að skuldbindingarnar lendi ekki á gjaldendum sjálfum sem í flestum tilfellum hafa ekkert um þetta að segja en hafa orðið að sitja uppi með sárt ennið. Þetta hefur oft verið réttlætt með mjög eðlilegum rökum, að mönnum hefur fundist, en þegar upp hefur verið staðið þá hefur því miður oftar en ekki farið illa og sveitarstjórnirnar setið uppi með það að hafa metið stöðuna rangt.

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. félmrh. hefur lýst því hér yfir að þetta mál verði af hans hálfu látið hafa þann framgang í hv. félmn. að þar verði allur sá tími notaður sem til þarf svo hægt sé að leita umsagna um það og bera saman við aðrar lagabreytingar sem eru í farvatninu. Það er einmitt það sem skiptir máli núna, að vanda sig. Af kynnum mínum við hæstv. félmrh. í öðrum málum sem hafa verið í vinnslu félmn. þá kvíði ég því ekki að við náum ekki samkomulagi um það frv. sem endanlega kemur fyrir þingið.