Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:41:34 (1803)

1997-12-05 18:41:34# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:41]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins fara betur yfir þá fullyrðingu mína að ráðuneytið hafi vanrækt eftirlitshlutverk sitt. Ég vil benda á að því ber að fylgjast með fjárreiðum sveitarfélaga allt frá því fjárhagsáætlun er gerð. Það er ákveðið ferli og er lýst í lögunum hvernig eigi að standa að því í sveitarstjórn að taka ákvarðanir um fjárfrekar framkvæmdir. Síðan kemur ferli þegar sveitarfélag lendir í fjárþröng og loks þegar það er enn alvarlegra og það ræður ekki við stöðu sína og er skipuð yfir því fjárhaldsstjórn. Félmrh. er ætlað allt frá frumstigi og til loka að vera eftirlitsaðili á hverjum þætti, stig af stigi. Þetta hefur því miður verið mjög í skötulíki. Félmrn. hefur lítið gert til þess að gera kröfur á sveitarfélögin um að þriggja ára áætlun sé marktækt plagg. Það hefur ekki fylgst með því eða fylgt því eftir að ákvæði 77. gr. gildandi laga um hvernig standa eigi að því að taka ákvarðanir um fjárfrekar framkvæmdir, að því hafi verið framfylgt. Því hefur ekki verið framfylgt svo mér sé kunnugt um og það hefur ekki verið gripið í taumana í fjárhag sveitarfélaga jafnvel þótt bersýnilegt hafi verið að fjárhagur þeirra væri slíkur að þau gætu engan veginn ráðið við skuldbindingar sínar. Þarna hefur verið farið eftir mjúkri leið sem ráðuneytið hefur mótað í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga sem hefur haft það að markmiði að komast í lengstu lög hjá afskiptum ráðuneytisins. Og það hefur leitt það af sér að víða um land --- ég vil helst ekki nefna dæmi um einstök sveitarfélög --- hefur fjárhagurinn farið gjörsamlega úr böndunum sem hefur svo aftur komið niður á þjónustu við íbúana og því sem sveitarfélögin eiga að vinna.