Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:27:17 (1827)

1997-12-08 16:27:17# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. að það er áreiðanlega of lítill sparnaður hér á landi. Það sést á tölum um sparnað að hann þyrfti að aukast svo við getum haldið því jafnvægi sem þó hefur haldist hér í efnahagsmálum á undanförnum árum.

Þó er einn þáttur þessa máls sem minnast ber á og það er að aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er með þeim hætti að ætla má að sparnaður aukist eftir svona 10--15 ár ef efnahagsleg hegðan fólks verður álíka á Íslandi og í nágrannalöndunum. Í ljós kemur að fólk á ákveðnum aldri sparar frekar, leggur frekar fyrir, en þeir sem yngstir eru. Auðvitað er ekkert hægt að spá um þetta en maður verður að binda vonir við að smám saman aukist sparnaður.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að ef allir nytu þess sem hér er til umræðu, tveggja prósentustiga sem eru skattalækkun, þá væri þessi skattalækkun upp á 0,8--0,9%. (Gripið fram í.) Ég heyri að hv. þm. er vaknaður og ég biðst afsökunar á því að hafa valdið mönnum ónæði en við erum að tala hér um skattamál.

Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er eðlilegt að beita skattalögum til að ná fram auknum sparnaði. Það gera margar þjóðir en ég tek líka undir það sem hann sagði að það er ekki víst að þetta sé eina skynsamlega leiðin en hún er að því leyti skynsamleg í stöðunni að hún leysti tiltekið vandamál á þann hátt að ég held að flestir séu ánægðir með.

Í öðru lagi spurðist hv. þm. fyrir um það hvað liði endurskoðun á vísitöluákvæðum skattalaganna og ef ég man rétt, þá var samþykkt á síðasta þingi ályktun þessa efnis. Ég hygg að þar hafi verið að verki hv. þm. Ágúst Einarsson og fleiri, er það ekki rétt með farið? Ég sé á hv. þm. að svo er. Þar var gert ráð fyrir að farið yrði í þessa endurskoðun.

[16:30]

Í raun og veru er um séríslenskt fyrirbrigði að ræða. Menn tókust á við verðbólguna hér á landi með því að gera hana áhrifalausa í íslensku þjóðfélagi. Það var gert með alls konar með vísitölutengingum. Við höfum nú verið að hverfa frá þessum vísitölutengingum sem allra víðast. Það hefur gengið misvel eins og menn þekkja því að jafnvel sömu mennirnir sem krefjast þess að þetta fari út úr skattkerfinu heimta það kannski inn þegar um er að ræða bætur fullorðins fólks svo ég taki dæmi um það hvernig tvískinnungurinn getur verið í þessum efnum.

En til þess að svara fyrirspurninni vil ég segja frá því að verið er að ganga í það núna að setja af stað starf til að vinna þetta verkefni. Ég tek undir það með hv. þm. að kominn er tími til að endurskoða þetta séríslenska fyrirbæri, jafnvel þótt ýmsir hv. þm. og ráðherrar, sem störfuðu hér fyrr á öldinni, geti í raun og veru sagt að það sé kraftaverk sem þeir hafa komið inn í lög á sínum tíma. Vissulega gerðu þessar verðbreytingafærslur okkur kleift að vinna við þau skilyrði sem við bjuggum við þegar verðbólgan var sem mest. Kosturinn frá fjmrn. séð við að gera þessa breytingu er að það má gera ráð fyrir að það væri hægt að lækka skatthlutföll um leið og breytingin ætti sér stað. En það er svo önnur saga sem sögð verður síðar þegar og ef frv. verður flutt um þetta efni.

Loks spurði hv. þm. um skattalækkun ríkisstjórnarinnar og áform um næstu áramót. Því er til að svara að í tengslum við kjarasamningana var ákveðið, og það var kynnt samningsaðilum, að lækka skatta á ákveðnu bili yfir samningstímabilið um 4%. Það var jafnframt tekið fram að það væri ætlast til þess að sveitarfélögin legðu fram sem næmi 500 millj. kr. annaðhvort í formi skattalækkunar eða með þeim hætti að taka á sig útgjöld sem væru útgjöld ríkisins. Strax var haft samband við sveitarfélögin og þau tóku vel í það að ræða þessa hugmynd en samþykktu þó ekki að taka á sig þessa byrði en sögðu að þau væru tilbúin til að ræða þetta með öðrum fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Einmitt þessa dagana er verið að ganga frá samkomulagi við sveitarfélögin. Það getur auðvitað gerst ef ekki næst samkomulag við sveitarfélögin um að þau leggi fram sinn hlut að það verða gerðar einhverjar breytingar á skattalögum þess vegna. Því get ég ekki svarað nákvæmlega á þessari stundu en ef á þyrfti að halda að fresta því þá kynni að vera að það þyrfti að hnika til sem samsvarar 0,4% á milli ára en lækkunin kæmi að sjálfsögðu fram á samningstímabilinu. Ég vil bara taka fram að akkúrat þessa stundina eru menn að ljúka samningum milli ríkis og sveitarfélaga og þetta ætti að verða ljóst síðar í dag eða jafnvel á morgun.