Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:33:40 (1828)

1997-12-08 16:33:40# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér eru að gerast stórpólitísk tíðindi. Hæstv. fjmrh. lýsir því yfir að menn þurfi að kunna að hnika til, menn kunni að þurfa að hnika til áður lögbundnum og fyrirheitnum skattalækkunum sem voru sagðar vera forsendur kjarasamninga. Þær voru ekki forsendur kjarasamninga við opinbera starfsmenn, þær voru forsendur kjarasamninga við ASÍ. Því var marglýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar og af hálfu hæstv. fjmrh. að um væri að ræða forsendur kjarasamninga. Menn gengu út frá þessum skattabreytingum þegar gengið var til kjarasamninga fyrr á þessu ári. Nú er hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir að til greina komi að svíkja þessi fyrirheit. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur talsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, þeim sem líta á þessi fyrirheit og þessar skattabreytingar, verið skýrt frá þeim áformum ríkisstjórnarinnar um að hún ætli að svíkja það sem áður var lofað?

Ég hef aldrei, hæstv. forseti, verið talsmaður skattalækkana, það hef ég ekki verið. En ég er talsmaður þess að menn standi við gefin fyrirheit og segi satt og rétt frá. Nú er þetta afgreitt eins og hvert annað minni háttar mál sem menn kunni að þurfa að hnika til þegar menn ætla að svíkja fyrirheit sem voru gefin í tengslum við síðustu kjarasamninga.