Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:35:35 (1829)

1997-12-08 16:35:35# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði að þetta sem við erum að ræða núna var ekki liður í viðræðum við BSRB og forustu þess. Það er hárrétt. Þetta voru mál sem voru til viðræðu milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og ASÍ-forustunnar hins vegar. Ég vil einnig taka fram vegna þess að hv. þm. hefur stór orð og kallar að menn séu að svíkja fyrirheit að það eina sem hefur komið til umræðu í málinu er að það þurfi að fresta þætti sveitarfélaganna í málinu. Það lá fyrir og var kynnt ASÍ á sínum tíma að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að sveitarfélögin tækju þátt í verkefninu sem næmi um 500 millj. kr. eða svo og við mundum taka upp viðræður við sveitarfélögin. Þetta var forustumönnum ASÍ kunnugt um frá upphafi.

Við skulum gæta að okkur aðeins í þessu máli vegna þess að hér er um það að ræða að bæði sveitarfélögin og ríkið högnuðust á því að hægt var að gera kjarasamninga til langs tíma. Það var gert þannig að það var fullkomlega eðlilegt að sveitarfélögin komi að þessu máli. Ég vil að það komi fram. Ég vil einnig geta þess að í því frv. sem hér er til umræðu erum við að lækka skatta verulega til viðbótar eins og menn hafa réttilega bent á til að leggja drög að því að hægt sé að draga frá tekjum 2% til lífeyrissparnaðar í framtíðinni.