Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:52:41 (1836)

1997-12-08 16:52:41# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:52]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér eru að gerast merkileg tíðindi. Ég hef fyrir framan mig þskj. 880, mál nr. 528 frá í vor. Það er frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Þetta er stjfrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem var lagt fram í kjölfar samninganna í vor. Í þessu frv. segir m.a. í grg., með leyfi hæstv. forseta: ,,Á fundi með forustumönnum stjórnarflokkanna lögðu formenn landssambandanna [þ.e. formenn landssambanda ASÍ] áherslu á að ríkisstjórnin tæki afstöðu til þessara tillagna [þ.e. tillögur í skattamálum] sem fyrst því að aðgerðir í skattamálum voru taldar geta haft úrslitaáhrif á kjarasamningaviðræðurnar.`` Þetta er sá tími þegar verið er að ljúka við kjarasamningagerðina.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir í þessu sama frv., orðrétt úr grg. ríkisstjórnarinnar með stjfrv., með leyfi forseta: ,,Síðar þann sama dag [þ.e. 10. mars 1997] kynnti ríkisstjórnin hugmyndir sínar um aðgerðir í skattamálum fyrir forustumönnum ASÍ. Þær hugmyndir eru í öllum meginatriðum samhljóða tillögunum í þessu frumvarpi að öðru leyti en því að ekki er að svo stöddu gerð tillaga um breytingar á vaxtabótakerfinu.`` Síðan segir:

,,Í yfirlýsingu ríkisstjórnar kemur einnig fram að hún muni beita sér fyrir því að útsvar sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er, eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnað í samráði við sveitarfélögin og voru þær hugmyndir kynntar fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sama dag.``

Þetta segir í grg. með stjfrv. sem hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, talaði fyrir. Síðar segir í þessari tillögu þegar rakin er ferillinn að tekjuskatturinn lækkaði um 1,1% 1. janúar 1997. Það var stjórnarandstaðan sem hjálpaði til við að greiða fyrir því máli í gegnum þingið. Næsta lækkun á að vera um næstu áramót, þá á tekjuskattshlutfallið að lækka um 1,9% til viðbótar. Það er þetta sem hæstv. fjmrh. er að svíkja. 1. janúar 1999 lækkar tekjuskattshlutfallið um 1% til viðbótar. Þetta er ferillinn sem var settur upp af hæstv. ríkisstjórn núna í vor. Á grundvelli þessara skattalækkana voru kjarasamningarnir gerðir. Það er enginn fyrirvari í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að niðurstaða náist í viðræðum við sveitarfélögin því að sveitarfélögin mótmæltu sama dag að ríkisstjórnin væri að úthluta byrðum á þær herðar.

Ekkert í frv. ríkisstjórnarinnar, sem orðið er að lögum segir að fresta eigi hluta 1,9% skattalækkunarinnar um næstu áramót um þessi 0,4%. Ef ríkisstjórnin telur að hún eigi eitthvað ósamið við sveitarfélögin um þátttöku í gerð þessara kjarasamninga getur hún ekki gert annað en að láta núverandi lög standa, að 1,9% skattalækkun komi fram um þessi áramót, því það er eftir einn gjalddagi í viðbót sem er um þarnæstu áramót. Ef ríkisstjórnin telur sig geta með tíð og tíma komist að samkomulagi við sveitarfélögin þá hefur hún tíma til þess í eitt ár. En það sem hún er að gera núna, ef hún gerir þetta, eru bein svik á kjarasamningunum frá því í vor. Þetta eru bein svik, það er ekkert annað orð yfir það vegna þess að verkalýðshreyfingin skrifaði undir samningana og kynnti samningana í aðildarfélögum sínum.

Þetta var umdeilt, sem allir muna eftir. Lykilatriði í þeirri kynningu og því sem forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar lögðu undir, var að þetta kæmi allt til framkvæmda eins og samið var um, þ.e. að staðið yrði við samninga. Það kom aldrei neinn efi fram hjá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem áttu í mikilli baráttu, líka félagslega við hluta af baklandi sínu sem við þekkjum ósköp vel, þá óraði ekki fyrir því að þeir yrðu sviknir við útfærslu skattalækkananna rúmlega hálfu ári eftir að skrifað var undir kjarasamningana. Við skulum ekki gleyma því að þetta voru kjarasamningar sem gilda fram á næstu öld. Vitaskuld treystu menn því að samningar stæðust.

Herra forseti. Maður hefur séð margt af hálfu ríkisstjórnarinnar, hvað hún er blygðunarlaus í því að brjóta samkomulag þegar henni hentar en þetta er það ótrúlegasta. Ég man ekki eftir því, herra forseti, að hafa upplifað svo gróft brot á kjarasamningum sem voru gerðir undir forgöngu ríkisstjórnarinnar, voru tímamótasamningar sem þeir þökkuðu sér í bak og fyrir. Að það skuli vera nýtt þegar fyrsta ákvæðið kemur til framkvæmda því að hitt var afturvirkt frá 1. jan. 1997 sem við hjálpuðum þeim með, að fyrsta ákvæðið í skattalækkunarferlinum sé nýtt til að brjóta þessa kjarasamninga. Og kenna síðan sveitarfélögunum um það sem höfðu mótmælt allan tímann þátttöku í þessari skattalækkun, að þau ætli að hlunnfara launþega í landinu um skattalækkun upp á 0,4%. Það er fyrir neðan allar hellur, herra forseti. Ég hef ekki séð frv. sem hæstv. fjmrh. gaf til kynna að væri hugsanlega að koma inn í þingið en ég trúi ekki að ríkisstjórnin ætli að fara fram með þessum hætti.

Ég vil minna á annað, herra forseti. Í efh.- og viðskn. Alþingis, er núna verið að ganga frá afgreiðslu lífeyrissjóðfrv. Ég spyr hæstv. ráðherra, sem ég sé nú hvergi nálægan, kannski er hann að hlusta, vita ASÍ, aðilar vinnumarkaðarins, um þessar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar? Því þar stóðu aðilar vinnumarkaðarins saman, þeir áttu báðir aðild að þessum kjarasamningi og þeim skattalækkunarferli sem er verið að gera. Ef orð ríkisstjórnarinnar standa ekki lengur en hefur verið gefið í skyn þá þarf líka að skoða aðra þætti, sem tengjast aðilum vinnumarkaðarins, hvort líka sé setið á svikráðum á þeim vettvangi. Það er brýnt, herra forseti, að fá svar við þessum spurningum.