Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:06:24 (1839)

1997-12-08 17:06:24# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:06]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í frv. til laga sem hv. þm. var að minnast á segir, með leyfi forseta:

,,Í yfirlýsingu ríkisstjórnar kemur einnig fram að hún muni beita sér fyrir því að útsvar sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er, eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnað í samráði við sveitarfélögin og voru þær hugmyndir kynntar fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sama dag.``

Þessu hef ég lýst hér áður og hefur komið fram í mínu máli að rætt var við sveitarfélögin og þau sögðust tilbúin til að ræða þessa hugmynd ásamt öðrum samskiptum á milli aðila. Ég ítreka það sem allir hafa sagt, þau kyngdu þessu ekki, það er alveg ljóst. Þær viðræður hafa farið fram alveg til þessa dags.

Vegna fyrirspurnarinnar um það hvort forustumönnum ASÍ sé kunnugt um þetta, þá vil ég að það komi fram að fulltrúa forustumanna ASÍ hefur verið sagt frá því hvernig staða málsins er, en hún er þannig að sveitarstjórnirnar hafa sagt að þær treysti sér ekki til að gera þetta, a.m.k ekki að svo komnu máli og þess vegna hafi ríkisstjórnin ekki getað á þessari stundu náð fram þeirri ætlan sinni í samningum við sveitarfélögin að þau legðu fram sem næmi 0,4%.

Það hefur líka margoft komið fram í þessu máli og þarf að ítreka enn að verið er að tala um 4% skattalækkun á kjarasamningstímabilinu. Við það verður að sjálfsögðu staðið og ég get endurtekið það fyrir hv. þm. Svavar Gestsson, þó að þessari lækkun yrði hnikað til.

Til viðbótar vil ég segja það að ekki var gert ráð fyrir því í samningum sem gerðir voru á almenna vinnumarkaðnum fyrr á þessu ári að hægt væri að draga 2% frá tekjum vegna lífeyrisiðgjalda en nú hefur ríkisstjórnin samþykkt það í ofanálag og það jafngildir líka meiri skattalækkun ef allir nota það heldur en hér er um að ræða sem gæti hnikast til, ef af því verður. Þegar á heildina er litið verða menn að skoða að á ferðinni er veruleg skattalækkun í prósentum, 4% plús 2% til viðbótar sem hægt er að draga frá tekjum þ.e. í lífeyrissjóðamálinu þannig að áfram er haldið á þeirri braut. Menn verða því að hafa það í huga að verið er að lækka stórkostlega skatta til þess annars vegar að kalla fram aukinn sparnað og hins vegar til að tryggja að heimilin í landinu fái þann kaupmátt tekna sem við vildum að fram gæti gengið. Þetta er ljóst. Endanleg ákvörðun í þessu máli liggur ekki fyrir en aðilum hefur verið kynnt hver staða málsins er.

Það er líka ljóst og hv. þingmenn vita auðvitað --- sumir gefa nú í skyn að þeir séu búnir að vera hér hálfa öldina þegar þeir tala um að eitthvað hafi gerst fyrr á öldinni --- að til þess að svona mál geti gengið fram þarf að breyta lögum þannig að þetta mál hleypur ekkert fram hjá hv. þingmönnum. Þetta er hins vegar vandasamt mál sem ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir að þarf að ræða annars vegar við sveitarfélögin, sem ég vona að allir séu sammála um að þurfi að leggja í þetta púkk, og eins við þá aðila sem stóðu að þeim kjarasamningum sem gerðir voru og ég vona svo sannarlega að verði íslensku þjóðinni til gæfu og gengis á komandi árum. Það var mikilvægt að ná þessum samningum. Skattalækkunin var forsenda kjarasamninganna. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum. Það sem hins vegar hefur gerst og við stöndum frammi fyrir er að sveitarstjórnirnar hafa ekki fengist til þess enn á þessari stundu að samþykkja að leggja til þessarar skattalækkunar sem nemur um 0,4% í lækkun á staðgreiðslunni. (KÁ: Hvað mikið ... ?) Það er verið að tala um 500 millj. og stóð líka í skjalinu sem minnst hefur verið á. Þetta eru öll ósköpin. Þetta eru öll svikin. Það er þetta sem við erum að ræða um í dag og ég held að við verðum að átta okkur á því að þessir löngu kjarasamningar, sá stöðugleiki sem hér ríkir hlýtur að leiða til þess að ekki einungis ríkisvaldið heldur líka sveitarfélögin njóta gagns af niðurstöðunni. Þetta verðum við að hafa í huga. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin. Ef hún verður tekin þarf að (Forseti hringir.) leggja það fyrir Alþingi eins og allir hv. þingmenn vita.

Ég vona, virðulegi forseti, að það sem ég hef sagt svari þeim fyrirspurnum sem hv. þm. kom með og ég leyfi mér að segja að það hefur ekki verið háttur minn og mér finnst það ósanngjarnt að tala um það að ég sýni mönnum einhverja vanvirðingu þó ég hafi þurft mjög nauðsynlega að hlaupa hér innan húss á milli herbergja.