Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:14:31 (1841)

1997-12-08 17:14:31# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú óþarfi að hafa þennan hávaða í þessu máli. Það lá fyrir strax frá upphafi eins og hv. þm. hefur viðurkennt að það stóð í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir því að sveitarfélögin væru með. Í viðræðum á milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og fulltrúa verkalýðssamtakanna hins vegar voru báðir aðilarnir sammála um það að þessi samningur væri svo merkilegur og mikilvægur að það væri fyllilega eðlilegt að sveitarfélögin í landinu legðu sitt í púkkið upp á 500 millj. þegar ljóst var að þessi skattalækkun kostaði þegar á allt er litið milli 4 og 5 milljarða.

Það er hins vegar alveg rétt að okkur hefur enn ekki tekist að fá sveitarfélögin í samningum til þess að samþykkja þetta. Þess vegna hefur einum af forustumönnum ASÍ verið sagt hver staða málsins er, það liggur fyrir. Ég tel að ríkisstjórnin hafi fyllilega hreinan skjöld og hún hefur að sjálfsögðu rætt við þann aðila sem við áttum samskipti við í tengslum við kjarasamningana. Það er ekkert verið að fela í þessu máli og ríkisstjórnin mun standa við það að á þessu samningstímabili verða skattarnir lækkaðir eins og til stóð. Það er ekkert verið að ganga á svig við það.

Þetta vildi ég að kæmi fram og ég vil líka að það komi fram að að sjálfsögðu mun verða rætt við alla aðila en eins og hv. þm. Ágúst Einarsson veit, þá var hugmyndin sú að sveitarstjórnirnar kæmu inn með þessa fjármuni. Það var ekkert falið hvorki fyrir þinginu né forustumönnum Alþýðusambandsins og í reynd vissu þeir og tóku þátt í því að beina þessum erindum til forráðamanna sveitarfélaganna og þeir hljóta þess vegna að hafa skilning á því ef lengri tíma þarf til að semja við sveitarfélögin í landinu til að þau geti keik staðið með því samkomulagi sem gert var á vinnumarkaðinum og er mikilvægt fyrir alla Íslendinga, líka þá sem starfa í sveitarfélögum.