Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:19:00 (1843)

1997-12-08 17:19:00# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:19]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Í yfirlýsingunni frá í vor og í öllum gögnum málsins stendur að útsvar eigi að lækka um 0,4% eða tekjuskattur eigi að lækka um samsvarandi tölu. Það stendur ekki í yfirlýsingunni að fallist sveitarfélögin ekki á þessi 0,4%, þá detti þau dauð niður. Í yfirlýsingunni lofar ríkisstjórnin því að tryggja þessi 0,4% burt séð frá afstöðu sveitarfélaganna. Það er ómerkilegt að mínu mati að ætla að skjóta sér á bak við það að sveitarfélögin neita að gera það sem ríkisstjórnin fyrirskipar þeim eins og um er að ræða í þessu máli. Ég held að nauðsynlegt sé að kalla hlutina réttum nöfnum í umræðunni og hafa þau orð sem rétt eru. Það er bersýnilegt að ríkisstjórn Íslands vill ganga á bak við þau fyrirheit sem hún gaf sjálf, ekki bara fyrir hönd sveitarfélaganna heldur líka fyrir hönd sjálfrar sín. Það ýtir undir að maður velti því fyrir sér hvort skynsamlegt er að gera samninga í mörg ár við ríkisstjórn sem í litlu bregst með þeim hætti sem hér er verið að tala um.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að þegar samningarnir voru gerðir fyrr á árinu þá velti ég því fyrir mér hvort það væri skynsamlegt að standa að öllu leyti að hlutunum eins og gert var í svo langan tíma og ég taldi og tel að tryggingarnar í þeim samningum hafi að mörgu leyti verið veikar. Því miður, herra forseti, verð ég að segja að mér finnst að þau svik sem eru í uppsiglingu bendi til þess að sú tortryggni hafi átt við rök að styðjast.