Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:36:43 (1848)

1997-12-08 17:36:43# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:36]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. sem virðist í sjálfu sér lítið og að því er virðist líka skemmtilegt af viðbrögðum hv. þm. að ræða, en ég vildi gera sérstaklega að umtalsefni 2. gr. frv., þá sem hæstv. fjmrh. vísaði til en hún orðast svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þá eru ökutæki sem eru eingöngu knúin mengunarlausum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni, undanþegin gjaldskyldu.``

Ég vek sérstaka athygli á þessu því að með þessu er mörkuð afskaplega mikilvæg stefna, þ.e. þetta virðist við fyrstu sýn vera smámál en er í rauninni stórmál eins og hæstv. fjmrh. ýjaði reyndar að í skeytum sínum að hæstv. sagmrh.

Með þessu ákvæði er í rauninni verið að staðfesta þann vilja að nýta mengunarlausa og innlenda orkugjafa í samgöngutækjum þjóðarinnar. Þetta er með öðrum orðum hvatning til þess að nota vistvæn ökutæki og vistvæna orkugjafa og hlýtur að vera af hinu góða. Ef ákvæðið verður að lögum er verið að gera ökutækin sem eru mengunarlaus eða knúin mengunarlausum orkugjöfum samkeppnisfærari við hefðbundin ökutæki með hefðbundnum orkugjöfum.

Í þessu sambandi, herra forseti, er rétt að hafa í huga hvers vegna það er mikilvægt. Sú umræða hefur reyndar farið fram og er rétt að minna á það enn einu sinni að þriðjungur af gróðurhúsaáhrifum og gróðurhúsaútblæstri hérlendis stafar af ökutækjum. Þess vegna er mikilvægt að ráðast á þær syndir sem allra fyrst og með þessu ákvæði er verið að ýta undir nýtingu slíkra vistvænna orkugjafa.

Nú kunna einhverjir að spyrja sem svo hvort þetta sé raunhæft, hvort svokallaðir vetnisbílar eða bílar knúnir rafhreyfli verði algengir á götum landsins. Er því til að svara þó að vissulega heyrist úrtöluraddir og svartsýnisraddir að það er margt og flest sem bendir til þess að þróunin hjá bílaframleiðendum um heim allan sé svo hröð m.a. vegna ástands í umhverfismálum að slíkir bílar verði fjöldaframleiddir á allra næstu árum. Þannig liggur fyrir yfirlýsing frá Daimler Benz verksmiðjunum að strax árið 2004 muni þeir ætla sér að framleiða 40 þúsund bíla knúna vetni á svokölluðum efnarafölum eða ,,fuel cells`` og strax árið eftir eða árið 2005 gera þeir ráð fyrir framleiðslu á 100 þúsund slíkum bílum. Svipaða sögu má rekja frá öðrum bílaframleiðendum sem segir okkur að það kann að vera mun styttra en margur hefur talið í nýtingu slíkra bifreiða hérlendis og því ber að taka fagnandi því ákvæði sem ég gerði að sérstöku umtalsefni í 2. gr. frv.

Þá vil ég jafnframt, herra forseti, benda á það að samkvæmt úttekt frá umhverfisráðuneyti Bresku Kolumbíu í Kanada kemur fram að árið 1995 störfuðu í Vancouver-borg um það bil 400 manns við framleiðslu á efnarafölum eða ,,fuel cells`` en samkvæmt áætlun úr sömu skýrslu er gert ráð fyrir að árið 2005 eða 10 árum síðar verði 6.000 starfandi við þennan iðnað, þ.e. framleiðslu á efnarafölum. Það er breyting á 10 árum úr 400 manns upp í 6.000. Ástæða þess er ósköp einföld. Það er bílaiðnaðurinn sem kallar á efnarafala og hafa þegar verið gerðar pantanir hjá Kanadamönnum af heimsþekktum bílaframleiðendum. Þetta segir sitt um þróunina. Hún er mun hraðari en menn gerðu í raun ráð fyrir og ástæðan er einföld. Það er ástand umhverfisþáttar í heiminum í dag.

Herra forseti. Um leið og ég fagna þessu ákvæði leyfi ég mér að víkja að lokaorðum greinargerðinnar þar sem ég lýsi vonbrigðum. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Niðurfellingin [þ.e. niðurfellingin á gjöldum, vörugjaldi á mengunarlausum bílum] nær samkvæmt orðalagi ákvæðisins ekki til ökutækja sem eru knúin bæði mengunarlausum og mengandi orkugjafa.`` Þessa lagaskýringu tel ég vera afskaplega varhugavert að hafa inni og mælist mjög eindregið til þess af hæstv. fjmrh. að hann fallist á það sjónarmið að þessi túlkun ætti að hverfa því að samkvæmt þessu ákvæði mundi það ekki gilda um svonefnda hybrid-bíla en núna 10. des. mun Toyota t.d. markaðssetja slíkan bíl hjá sér og árið 1999 munu a.m.k. fjórir stórir bílaframleiðendur hefja fjöldaframleiðslu á svonefndum hybrid-bílum. Skilgreiningin á þeim mun vera sú að þeir eru knúnir sprengivél en sú sprengivél framleiðir rafmagn sem knýr þá áfram og má segja að hér sé um að ræða millistig á milli bensínbíla og vetnisbíla sem taldir eru að leysi hinn hefðbundna sprengihreyfil af hólmi. Í ljósi þess að þessi tegund bíla er að koma á markað tel ég afskaplega mikilvægt að almenningur sé hvattur til þess að kaupa þá enda eyða þeir fjórfalt minna af eldsneyti en hefðbundnir bílar. Með því að láta þetta ákvæði gilda um hybrid-bíla er verið að lækka þá í kaupverði til almennings eða í söluverði um 500--600 þús. kr. og 500--600 þús. kr. lækkun á slíkum bílum hlýtur að vera hvatning til almennings um að fjárfesta í vistvænni bílum en almennt tíðkast. Ég ítreka að menn telja almennt að hybrid-bílarnir séu millistig þar til vetnisbílar leysi þá af hólmi og því teldi ég eðlilegt að þetta ákvæði yrði fellt niður og hefði viljað heyra viðbrögð hæstv. fjmrh. við því.

Ég ítreka að lokum, herra forseti, fögnuð yfir því sem fram kemur í 2. gr. um að vörugjöld af ökutækjum sem knúin eru mengunarlausum orkugjöfum verði felld niður. Þar með er verið að hvetja almenning til þess að fjárfesta í vistvænum ökutækjum og við leggjum okkar af mörkum til þess að draga úr gróðurhúsamengun hér á landi.