Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:47:01 (1850)

1997-12-08 17:47:01# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:47]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hæstv. fjmrh. benti á, að komi hér á markað bílar sem knúnir eru mengunarlausum orkugjöfum þá kann það að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs vegna vegagerðar. Hins vegar megum við ekki líta fram hjá því að líklega er miklu mikilvægara fyrir þjóðina í heild sinni að standa við alþjóðlegar skuldbindingar varðandi losun gróðurhúsaefna eins og hæstv. umhvrh. mun væntanlega lýsa yfir í dag í Kyoto og fram kom í stefnuræðu hæstv. forsrh. við setningu Alþingis í haust.

Ég leyfi mér hins vegar að draga mjög í efa þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., byggða á upplýsingum frá Toyota, um að nokkrir áratugir muni líða þar til vetnisbílar verði almennir. Ég tel mig hafa upplýsingar frá öðrum bílaframleiðendum, hvað svo sem Toyota líður, um að menn eru komnir mun lengra. Má þar nefna BMW, Daimler Benz, Chrysler og fleiri slíkar verksmiðjur sem eru komnar með tilraunabíla og byrjaðar að framleiða bíla knúna hreinu vetni í smáum stíl og eru í rauninni ekkert annað en rafmagnsbílar en orkugjafinn er vetnið. Þannig er full ástæða til þess fyrir hæstv. áhyggjusaman fjmrh. að taka fullt mið af því þar sem þessir bílar munu birtast hér og munu reyndar einhverjir vera á leið til landsins.

En ég vil ítreka það sem ég nefndi um hybrid-bíla. Það er sérstök skilgreining á bílum sem fara í fjöldaframleiðslu þegar árið 1999 og ég tel fulla ástæðu til þess að hv. efh.- og viðskn. taki það sjónarmið í umfjöllun sinni á þessu máli því að hybrid-bílarnir eru almennt taldir millistig hins hefðbundna sprengihreyfils og vetnisbíls.