Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:05:28 (1857)

1997-12-08 18:05:28# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila um magnesíum við hv. þm. Hjálmar Árnason og ég hygg að það sé rétt hjá honum að í grundvallaratriðum séum við sammála um hver á að stefna.

Ég kem hingað upp til þess að leiðrétta það sem hann sagði um ummæli mín varðandi stóriðju. Ég hef aldrei sagt að stóriðja sem slík ætti ekki rétt á sér. Það sem ég hef sagt úr þessum stóli var að stóriðjustefna þessarar ríkisstjórnar væri gjaldþrota og ég get gengið skrefi lengra. Ég tel að sú stóriðjustefna sem ég hef fylgt eigi ekki heldur rétt á sér. Hver er ástæðan fyrir því? Hún er náttúrlega sú að það blasir við núna sem menn gerðu sér ekki grein fyrir áður að alvarleiki þess vanda sem við er að glíma, þ.e. gróðurhúsaáhrifin, er miklu dýpri en menn skildu áður, heldur en ég t.d. skildi áður. Það blasir við að Ísland er eitt þeirra landa sem verða e.t.v. verst úti og þess vegna segi ég að við höfum siðferðilegri skuldbindingu að mæta gagnvart framtíðinni og því sagði ég einmitt í þeim umræðum að rétt væri að slá á frest öllum áformum um stóriðju.

Það er líka annað sem gerir það að verkum að ég er þessarar skoðunar. Ég tel að fundurinn í Kyoto og loftslagsbreytingarnar sem menn eru nú sem óðast að gera sér grein fyrir muni leiða til þess sem hæstv. fjmrh. var að lýsa sem framtíðarstefnu þessarar ríkisstjórnar, að það verði lagður á koltvíildisskattur. Hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir að orkuverð í kjölfar Kyoto-fundarins, hvort sem menn ná lagalega bindandi samkomulagi eða ekki, mun hækka um allan heim og þess vegna ber Íslendingum núna að varast núna að festa sig í of miklum samningum um orkusölu til framtíðarinnar. Hvers vegna? Vegna þess að orkan á eftir að hækka í verði. Þá kann það t.d. að gerast að ýmis áform sem voru ekki eins fýsileg áður, eins og t.d. að selja orku um streng til útlanda, verði miklu arðvænlegri kostur en við töldum. Þess vegna held ég að það sé hættulegt af ríkisstjórninni að ætla að fara að selja erlendum stóriðjuverum íslenska raforku á tombóluprís. Í dag er Ísland eina landið þar sem hægt er að fá raforku til stóriðju á tombóluprís og þess vegna standa alþjóðleg stóriðjufyrirtæki í biðröðum til þess að ná táfestu hér á Íslandi. Og ég held að það sé rangt af okkur að hlaupa á boð þeirra.