Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:07:50 (1858)

1997-12-08 18:07:50# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér hefur nú hafist hin áhugaverðasta umræða um umhverfismál undir umræðu um vörugjald af ökutækjum. En hún á sér þá stoð að í 2. gr. er einmitt ákvæði um að heimila, eða reyndar ganga lengra og ákveða, að ekki skuli taka vörugjald af ökutækjum sem eru knúin orkugjöfum sem eru mengunarlausir, eins og þar er nú reyndar tekið til orða. Hins vegar hefur þetta frv. í sér fólgna ákveðna leiðréttingu eða lagfæringu, má segja, á breytingu á vörugjöldum af vörubifreiðum eða stærri flutningabifreiðum sem gerðar voru sl. vor og ekki tókust svo hönduglega sem skyldi. Þau ákvæði eru illframkvæmanleg eins og þau eru þannig að sú lagfæring sem 1. gr. frv. felur í sér er að mínu mati tvímælalaust nauðsynlegt. Reyndar vil ég láta það koma fram, herra forseti, að ég held að það þurfi að vinna enn frekar að því að fara yfir og samræma skattlagningu af umferðinni og af ökutækjum --- það er þá ekki bara spurning um aðflutninsgjöld eða vörugjöld heldur líka notkunarskattana --- og reyna að búa það þannig úr garði að þar sé í fyrsta lagi sæmilega sanngjörn skattlagning, hún eigi við efnisleg rök að styðjast, hún sé rökrétt miðað við aðstæður, hún mismuni ekki til að mynda einstökum rekstraraðilum í umferðinni --- ég er þá til að mynda að hugsa um fólksflutningabifreiðar o.s.frv. --- og að sjálfsögðu síðast en ekki síst er náttúrlega æskilegt að reyna að flétta inn í slíka vinnu nútímaleg viðhorf um umhverfismál.

Ég fagna svo, eins og fleiri ræðumenn hafa gert hér, ákvæði 2. gr. þó í litlu sé. Ég held rétt sé að hafa það í huga að hér er væntanlega ekki á ferðinni ákvæði sem a.m.k. fyrst í stað muni breyta miklu, herra forseti. Þó svo vel vildi kannski til að á næsta ári kæmu til landsins einn eða tveir rafbílar eða einhver ökutæki knúin því sem flokka mætti með góðum vilja sem mengunarlausa orkugjafa þá á ég ekki von á að það mundi hafa mikil áhrif á tekjuforsendur ríkissjóðs. Það er fyrst og fremst stefnumótunin sem er jákvæð af því hún vísar í rétta átt.

Ég lýsi mig alveg sammála því að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að hún hvetji til notkunar ökutækja af þessu tagi. Hvaða afleiðingar sem síðan verða af því og hversu mikil áhrif það síðan hefur. Það er svo önnur saga. Á það hefur t.d. verið bent, og þess vegna var nú lögum breytt að þessu leyti í fyrra, að það var hlálegt að rafbíllinn sem má nú víst tala um í eintölu hér á landi skyldi vera skattlagður eins og raun bar vitni. Þess vegna urðu menn sammála um að eðlilegt væri að hafa heimild í lögunum til að fella niður vörugjöld af ökutækjum sem knúin væru rafhreyfli og flutt væru til landsins eða framleidd hér á landi í tilraunaskyni. Þannig er 5. tölul. 5. gr. gildandi laga. Og það sem hér er verið að gera er að útvíkka þetta mál þannig að það geti tekið til fleiri mengunarlausra orkugjafa og að þetta sé afdráttarlaust ákvæði í lögunum en ekki bara heimild í höndum ráðherra og það held ég að sé hið besta mál.

Ég held hins vegar að öllum hljóti að vera ljóst að ef til þess kæmi í framtíðinni að stór hluti af umferðinni færi að verða ökutæki af þessum toga þá hefði ríkissjóður væntanlega ekki eða Vegasjóður efni á því að undanþiggja þessa umferð öllum sköttum, öllum gjöldum, vegna kostnaðar sem af umferðinni hlýst. Þá stæðu menn auðvitað frammi fyrri því einhvern tímann á komandi árum að finna hóflegt skattstig á umferð sem væri að þessu leyti til umhverfisvænni en önnur. Ég held reyndar að þar væri eðlilegast að stýringin færi fram í gegnum notkunargjöldin, í gegnum notkunarskatta og að þeir yrðu þá til muna lægri á umferð sem nýtti svona orkugjafa, eða með hinni aðferðinni sem er líka mikið til umræðu erlendis að skattlagningin sé í formi sérstakra umhverfisskatta á mengandi starfsemi þannig að til viðbótar þeim sköttum sem á umferðina og brennanlegt eldsneyti eru í dag og eru nú drjúgir, eða eitthvað um 24 milljarðar kr. ef allt er talið sem umferðin skilar samtals í ríkissjóð og Vegasjóð, kæmu þá alveg sérstakir viðbótarskattar sem tengdust losun gróðurhúsalofttegunda eða annarri mengun sem af brennanlegu eldsneyti hlýst. Það er t.d. alveg ljóst að það er ágalli í löggjöfinni eins og hún er í dag og í skattareglunum eins og þær eru í dag að það hefur verið beinlínis óhagkvæmt á Íslandi að nota dísilbíla. Það er auðvitað fráleitur frágangur á málinu. Það er mjög merkilegt og athyglisvert að á Íslandi eru t.d. fólksbifreiðar knúnar dísilhreyflum afar fátíðar. Það eru nánast ekki nema atvinnutæki, leigubílar, sem eru með slíka hreyfla sem er auðvitað mjög óheppilegt og slæmt. Það er engin deila um að æskilegt væri að stýra þróuninni í gagnstæða átt.

Það er sem sagt hið besta mál, eins og er mjög í tísku að segja um þessar mundir, að þarna er þó vísað í rétta átt þó í litlu sé í 2. gr. frv. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt: Ekki veitir nú af eftir frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar í aðdraganda Kyoto-fundarins og framgöngu allri í því sambandi. Þegar svo þau ósköp bætast við að í þessari ríkisstjórn og í landinu gengur hæstv. iðnrh. laus. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi en þannig að hann gengur bara laus, veður um og býður álver hér og olíuhreinsunarstöð þar. Maður hefur varla hugkvæmni til að telja upp allar þær fabrikkur og allar þær sorabræðslur og hreinsistöðvar og hvað það nú er sem hæstv. iðnrh. er að reyna að troða upp á landsmenn. Og auðvitað er þetta í harkalegri mótsögn við allt sem aðrar þjóðir eru að reyna að gera um þessar mundir.

[18:15]

Reyndar finnst mér dálítið merkilegt að í allri þessari umræðu um stöðu okkar Íslendinga og orkubúskap og Kyoto-ráðstefnuna, að menn eru alltaf bundnir af því að ræða eingöngu uppruna orkunnar og hvort uppspretta orkunnar sem slíkrar, hvort orkugjafinn sé umhverfisvænn eða ekki en ræða hins vegar ekkert um það hvernig orkan er nýtt. Það sem Ísland þarf að gera er ekki bara að senda menn út um heiminn og vekja athygli á þeirri staðreynd að við eigum óbeislaða vagnsorku eða jarðvarmaorku heldur eigum við til viðbótar að móta okkur þá stefnu að nýta þessa orkugjafa með umhverfisvænum hætti. Ég vil bæta því við það sem hér var rætt áðan og m.a. hæstv. fyrrv. umhvrh., núv. hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, að ég sé fyrir mér að beislun orkunnar í framtíðinni, ekki bara spurningu um að flytja hana kannski út um sæstreng í staðinn fyrir að selja hana í álbræðslur. Ég sé fyrir mér að Ísland eigi stórkostlegan möguleika til að taka forustu í orkubúskap heimsins á fyrri hluta næstu aldar með því að geta boðið upp á ekki bara umhverfisvænan orkugjafa heldur leggja líka áherslu á að nýting orkunnar verði í þágu umhverfisvænna viðhorfa, t.d. með því að hér verði framleitt vetni eða aðrir slíkar framtíðarorkugjafar sem kunna að leysa brennanlegt lífrænt eldsneyti af hólmi. Þá værum við virkilega að slá í gegn í þessum efnum ef við hættum þessari úreltu stóriðjustefnu að vera með menn á launum og reka áróðursbatterí sem auglýsa Ísland enn þann dag í dag sem paradís fyrir lága orku og litlar umhverfiskröfur og ,,minimum red tape`` eins og þar er sagt, en snerum við blaðinu og segðum: Við ætlum ekki aðeins að nýta í þágu mannkyns þessa umhverfisvænu orkugjafa sem við eigum, orkuuppspretturnar, heldur móta þá pólitík að þeir verði nýttir þannig að það sé líka umhverfisvænt, svo sem með því að þróa eldsneyti sem ekki hafi í för með sér gróðurhúsaáhrif eða annað því um líkt.

Þá kemur að því aftur með umferðina og hversu líklegt sé til að mynda, sem menn hafa verið uppteknir af að ræða hér, að það styttist í að einkabíllinn færist yfir í það að nýta orkugjafa eins og rafmagn, vetni eða annað því um líkt. Ég hef vissar efasemdir um það. Í öllu falli held ég að það væri nær okkur í tímanum ef við beindum athyglinni að stærstu orkunotendunum, t.d íslenska flotanum og almenningssamgöngum. Ég er alveg sannfærður um að þar munu hinir umhverfisvænu orkumiðlar hefja innreið sína, enda eru ýmis tæknileg vandamál auðleystari þegar í hlut eiga stærri skip eða stór farartæki til almenningssamgangna en í litlum einkabílum. Svo að vitnað sé til Þjóðverja sem hafa að mörgu leyti forustu í þessum efnum, þá eru menn þar komnir langt á leið, eins og í Hamborg, að leysa tæknileg vandamál sem því fylgja að taka umhverfisvæna orkugjafa í notkun í almenningssamgöngum. Einkabíllinn verður væntanlega það síðasta í umferðinni sem almennt kemst yfir á slíka orkugjafa og þá verður það e.t.v. frekar alkóhólíðar, etanól, metanól eða alkóhól heldur en jafnvel vetni. Alkóhólsambönd ýmis kæmu þar jafnvel frekar til nota og er reyndar þegar nýtt, t.d í Brasilíu þar sem talsverður hluti bílaflotans er keyrður á þannig brennanlegu eldsneyti. (Gripið fram í.) Já, það eru náskyld efnasambönd þeim sem sumir láta renna niður um kverkar sínar á hátíðisdögum og hafa í sér talsverða orku eins og kunnugt er þegar þau hvarfast við loftið.

Þetta vildi ég nú leyfa mér að segja hér, herra forseti, úr því að umræðan var komin almennt inn á þessar brautir. Vegna takmarkana sem á þessu eru fyrir okkur Íslendinga og hvernig í ósköpunum við eigum að ná fram markmiðum um að draga úr þótt ekki sé nú talað um að stöðva aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda, þá er alveg augljóst mál að það langstærsta sem við hefðum á okkar valdi að reyna að leysa væri eldsneytisnotkun flotans. Ef við gætum náð árangri í þeim efnum að stefna að vetnishverflum eða öðrum sambærilegum orkugjöfum sem leystu dísilmótora af hólmi í flotanum á komandi árum, þá væri það stórkostlegt mál fyrir Ísland. Þannig sköpuðust möguleikar til að færa þessi útgjöld inn í landið og nýta innlenda orku í þessum stóra þætti og í flotanum eru tæknileg vandamál öll miklu auðleystari. T.d. er þyngd þungbyggðra og málmmikilla hverfla ekki sama vandamál í flotanum, í stórum skipum, eins og hún er í litlum bílum.

Ég, herra forseti, lýsti stuðningi við 2. gr. Mér finnst reyndar að hyggilegt sé að beina því til góðra manna að velta fyrir sér orðalagi 2. gr. Það er kannski fulldjúpt í árinni tekið að hægt sé að tala um mengunarlausa orkugjafa í þessum efnum. Ef t.d. um rafhreyfil er að ræða sem notar rafhlöður, þá orkar það kannski tvímmælis að taka þannig til orða að um algjörlega mengunarlausan orkugjafa sé að ræða. Það geta t.d. verið förgunarvandamál sem ganga úr sér í slíkum farartækjum þó að þau mengunarvandamál séu miklu minni en tengjast brennanlegu eldsneyti í bensínhreyfli t.d. En þetta má allt saman líta á í þingnefnd eða annars staðar, herra forseti, og er minni háttar mál.