Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 18:46:22 (1866)

1997-12-08 18:46:22# 122. lþ. 37.10 fundur 339. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (skilgreining togveiðisvæða) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[18:46]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í maí sl voru samþykkt á Alþingi lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sem koma til framkvæmda 1. janúar nk. Lög þessi leysa af hólmi nr. 81/1976.

Í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru m.a. tilgreind þau svæði fiskveiðilandhelginni sem íslenskum skipum er heimilt að stunda togveiðar á og eru þau ákvæði í 5. gr. Við frekari útfærslu þessara togveiðisvæða á kortum hefur komið í ljóst að nokkrar misfellur hafa orðið sem nauðsynlegt er að bæta úr. Þau atriði sem hér um ræðir eru flest smávægileg og skýra sig sjálf. Rétt er þó að gera nánari grein fyrir því hvað felst í tveimur liðum þessa frv.

Í 2. lið er lagt til að austurmörk friðunarsvæðis fyrir Suðausturlandi markist af línu frá Stokksnesi en miðist ekki við Hvítinga. Á það skal bent að hér er ekki um breytingu að ræða frá lögum nr. 81/1976. Ekki stóð til að gera slíka breytingu með lögum nr. 79/1997 og var því hér um að ræða mistök í prentun.

Í 5. lið er lagt til að fellt verði úr gildi lögbundið bann við öllum veiðum milli meginlandsins og Vestmannaeyja á svæði þar sem rafstrengur og vatnslögn liggja til Eyja og enn fremur við sæsímastrenginn sem liggur frá Vestmannaeyjum til útlanda. Slíkt veiðibann var í lögum nr. 81/1976 og var áréttað í frv. sem var til umfjöllunar á síðasta vori. Hins vegar kom fram sú skoðun að eðlilegra væri að kveðið væri á um slík bönn í reglugerðum hverju sinni því slíkir strengir væru færðir úr stað og nýir lagðir. Því var því ákvæði bætt við 8. gr. frv. að ráðherra væri heimilt að banna notkun tiltekinna gerða veiðarfæra á svæðum þar sem slíkt væri talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir skemmdir á neðansjávarstrengjum. Hins vegar láðist að fella úr frv. ákvæði um lögbundið bann við öllum veiðum milli lands og Eyja og er því lagt til að svo verði gert.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir aðalatriðum í frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.